Eftir orrustuna stóð kóngur á vígvellinum og litaðist um. Hann hafði unnið fullnaðarsigur, já, það var ekki um að villast. Sundurhoggin lík fjandmannanna náðu honum upp að hnjám, hvert sem litið var voru dauðir og deyjandi, kvalaóp og stunur hinna helsærðu fylltu loftið, römm blóðlyktin keppti við fnykinn úr stundurtættum iðrum hinna föllnu og hræfuglarnir biðu bara eftir því að kóngur og menn hans drifu sig burt af valnum svo þeir gætu sest þar að ríkulegasta snæðingi síns grimma gammalífs. Það voru ekki aðeins meira en hundrað þúsund hermenn andstæðinganna sem lágu þarna gjörsigraðir og sundurlimaðir í blóðdrafadrullunni, þar voru líka þúsundir og aftur þúsundir af óbreyttum borgurum sem fylgt höfðu her þeirra, óvopnaðir aðstoðarmenn, svartbrýndar konur, lítil börn sem yrðu aldrei menn.
Gott dagsverk
Já, þetta var sannarlega gott dagsverk fyrir her konungsins, það blasti við. Hið volduga ríki Kalinga var að velli lagt. Það yrði nú lagt undir stórveldi kóngsins. Og Asjoka fetaði sig út úr stynjandi blóðvellinum og velti fyrir sér hvað hann ætti nú að taka sér fyrir hendur.
Ef hann hefði verið Asjúrbanípal eða Tíglaþpíleser þá hefði það ekki verið nein spurning. Eins og þeir grimmhjörtuðu og herskáu kóngar Assyríu, þá hefði hann látið höggva út í stein karlagrobb sitt eftir þessa orrustu, hann hefði hælst um yfir því hve menn hefðu murrkað lífið úr mörgum fjendum sínum og hrósað sér fögrum orðum fyrir blóðbaðið.
Kóngurinn átti sitt eigið Helvíti
Það hefði ekki komið neinum á óvart þótt hann hefði gert það. Hann var þegar kunnur fyrir blóðþorsta sinn. Í höfuðborginni Pataliputra hafði hann látið reisa ægifagra byggingu sem vakti aðdáun allra sem sáu hana fyrir hvað formin voru undur blíð auganu, en inni í þessari fegurð voru viðurstyggilegustu pyntingarklefar sem mannlegt hugmyndaflug gat ímyndað sér og þar voru andstæðingar kóngsins píndir, skornir, kramdir, sundurlimaðir, svívirtir … já, þessi fagra bygging fékk í munni fólks nafnið Helvíti Asjokas og þangað vildi enginn koma.
Enda fór þaðan enginn sem þar var dreginn inn fyrir dyr, nema böðlarnir.
Kóngur sem átti slíkt helvíti hlaut að vilja hælast um af vígvelli eins og þeim þar sem Kalingamenn höfðu nú verið svo gjörsigraðir.
Hrannvíg sem verkfræðiafrek
En Asjoka hefði líka getað farið leið Júlíusar Sesars og sest niður og skrifað sjálfur frásögn sína af stríðinu við hina hraustu íbúa Kalinga og lýst herkænsku sinni og útpældri tækni af svo mikilli nákvæmni og svo miklum ískulda að lesendur hrifust með og færu að líta á hrannvíg eins og þessi sem verkfræðiafrek. Dauði allra þessara þúsunda væri eðlileg og æskileg afleiðing af snilld konungsins.
Þetta hvorttveggja hefði hann getað gert.
Sorg og hryggð út af fjöldamorðum
En Asjoka gerði hvorugt. Þegar hann náði loksins út úr blóðstöppunni á vígvellinum lét hann reyndar höggva í grjót frásagnir af þessari orrustu og örlögum Kalingamanna. En þar var hann ekki að hælast um, nei, svo fjarri því. Hann lýsti sorg sinni og hryggð yfir fjöldamorðunum sem hann hafði sjálfur fyrirskipað og framkvæmt, hann harmaði örlög Kalinga, hét því að helga sig friði og barðist upp frá þessu gegn öllu ofbeldi.
Kóngurinn sem ríkt hafði yfir Helvíti lét nú banna öll manndráp, það var meira að segja bannað upp frá þessu að úthella blóði dýranna, hann setti tilskipanir um trúfrelsi, umburðarlyndi, umönnun þeirra sem minna máttu sín, hann var eins og gjörsamlega allt annar maður eftir að hafa baðað sig blóði Kalingamanna.
Aríar með járn og hesta
En hver hafði hann þá verið? Jú, hann var á sinni tíð sennilega máttugasti herkóngur heimsins og Márjaríki hans hið stærsta í veröldinni. Það náði yfir stærstan hluta Indlands á sama tíma og Rómaveldi réði aðeins hluta Ítalíuskaga, Egiftaland var ekki svipur hjá sjón, Mesópótamía leiksoppur Hellena, stórveldi fallin í Persíu og keisarinn í Kína ríkti bara yfir svæðinu kringum Gulafljót og Jangtse.
Í örstuttu máli er saga Indlands á þá leið að um 3.300 árum fyrir upphaf tímatals okkar reis mikil og glæsileg menning í Indusdal sem stóð í 2.000 ár en féll þá af ástæðum sem við kunnum ekki skil á. Um það bil sem menningin við Indusfljót var fallin komu innrásarmenn úr Mið-Asíu og sóttu inn á skagann stóra og einkum austur meðfram Gangesfljóti. Aríar eru þeir kallaðir og höfðu járn og hesta. Meðfram Ganges höfðu íbúar ekki áður myndað ríki en þar gerðu hinir kappsömu Aríar nú bragarbót á og tóku síðan að stríða án afláts innbyrðis. Herskáir guðir þeirra urðu upphaf að trúarkerfi Hindúa, þótt ekki megi bera þá fornu tíma saman við trúarbrögðin nú á dögum.
Hróflað við grimmum Hindúaguðum
Þegar hin nýju ríki Aría höfðu borist á banaspjótum í 500 ár eða svo kom fram á sjónarsviðið höfðingjasonur einn sem vildi snúa af hinni blóði drifnu slóð og setti fram kenningar um að maðurinn skyldi haga lífi sínu í kærleika, umburðarlyndi og friði. Búdda var hann kallaður. Margir hrifust af kenningum hans en ríkin héldu þó áfram að vegast á og hinir grimmu Hindúaguðir Aríanna gömlu létu sér fátt um finnast.
Árið 322 fyrir Krist braust alþýðustrákur til valda í öflugasta ríkinu við Gangesfljót og stofnaði nýtt veldi, Márjaríkið svonefnda. Þetta var ári eftir að Alexander mikli geispaði golunni í Babýlon en hann hafði sótt alla leið inn í Indusdalinn að vestan nokkrum árum fyrr, en hermenn hans höfðu ekki viljað sækja lengra inn í frumskógarflæmi Indlands. Márjaríkið þurfti því ekki að kljást við ógn úr þeirri átt og fyrstu tveir kóngarnir juku mjög við veldi sitt í allar áttir út frá Pataliputra.
Drap kóngurinn 99 bræður sína?
Og það gerði líka þriðji Márjakóngurinn sem tók við árið 268. Þetta var Asjoka. Það kostaði borgarastyrjöld að koma honum tryggilega fyrir í hásætinu og hann er sagður hafa að lokum varpað keppinaut sínum í stríði í bing af glóandi kolum. Keppinauturinn var bróðir hans og raunar eru til heimildir um að hann hafi alls látið drepa 99 bræður sína til að enginn þeirra ógnaði honum. Ætli sú tala hljóti ekki að vera eitthvað ýkt en sögurnar sýna altént hvaða orð fór Asjoka, hann var miskunnarlaus grimmdarseggur, samanber Helvítið hans í Pataliputra.
Hann hélt líka úti vel þjálfuðum herjum sem bældu af hörku niður uppreisnir og sóttu um víðan völl og lögðu á endanum undir sig Indusdalinn blómlega og stór svæði suður á skaganum. Á meðan hafði sundrast ríki Alexanders mikla í vestri svo þar kom sem sé að enginn kóngur í heimi réð nálægt því eins víðfemu ríki og Asjoka.
Asjoka ágirnist verslunarveldi Kalinga
Það var aðeins ein steinvala í skó Márjakonungs og það var ríkið Kalinga. Þar stunduðu menn verslun við Suðaustur-Asíu fyrstir Indverja, ríkidæmi var mikið, menning á háu stigi og stjórnarfarið mátti helst kenna við lýðræði sem annars þekktist lítt á Indlandsskaga. Kalingamenn voru óáleitnir og vildu umfram allt bara fá að lifa í friði og sinna sínu, en Asjoka ágirntist auðæfi þeirra, verslunargróða og flota og heimtaði að þeir beygðu sig undir vald hans. Því tóku Kalingamenn fjarri, þar mátu menn frelsi sitt og vildu ekki undir ok Márja.
Asjoka gramdist þetta stórum og safnaði nú saman ógrynni herliðs og sótti inn í Kalinga árið 262. Og þótt Kalingamenn verðust af feykilegri hörku og hugprýði máttu þeir sín að lokum lítils gegn hinni smurðu hernaðarvél Asjoka.
Og fullnaðarsigur vann Márjakóngur í þeirri orrustu sem ég lýsti í upphafi greinar endalokunum á. Kalinga var gersigrað, brytjað niður í öllum skilningi og lagt undir Ajoka.
Konungur umturnast
En þá var það sem sagt að það rann upp fyrir kóngi hvílíka grimmd hann hafði sýnt, hvílíkt miskunnarleysi. Hann hafði áður verið farinn að dufla við fræði Búdda án þess að hugur fylgdi máli, nú áttaði hann sig á því að hinir grimmu Hindúaguðir sem fögnuðu ævinlega manndrápum hans og þeim mun meir eftir því sem blóðið fossaði fastar, þeir voru falsguðir en Búdda hafði verið á réttri leið.
Og Asjoka umturnaðist og áletranir þær og tilskipanir sem hann lét höggva í steina víðs vegar um ríki hans lýsa allt öðrum manni en þeim sem hélt úti sínu prívat Helvíti og lét sig ekki muna um að murka lífið úr tugþúsundum kvenna og barna sem engin vopn báru.
Sverð lagt til hliðar
Í 30 ár eftir að Kalingastríðinu lauk sat Asjoka á valdastóli og stjórnartíð hans var mild og létt og jafnvel kærleiksrík ef marka má það sem eftir Asjoka liggur. Umburðarlyndi og velferð þegnanna voru honum nú efst í huga en herfrægð og lykt af blóði fallinna fjenda heilluðu hann ekki. Fjöldamorðinginn var sestur í helgan stein.
Auðvitað eru til fræðimenn sem telja núorðið að mynd Asjoka af sjálfum sér kunni vel að vera ýkt og hann hafi varla orðið í raun svo heilagur sem hann vildi vera láta, né umhyggja og ástúð honum alltaf jafn ofarlega í huga, og það getur verið, en það er samt dæmafátt í sögunni og nánast einstakt að sigursæll herkonungur leggi sverð sitt til hliðar og telji sér eftirleiðis mest til tekna að halda frið og hafna ofbeldi. Fyrir það á Asjoka skilið áberandi stað í sögunni.
Gleymdur og grafinn
En kannski var það einmitt þess vegna sem hann gleymdist. Márjaríkinu tók fljótt að hnigna eftir að Asjoka dó og það var úr sögunni hálfri öld síðar. Mjög leið á löngu áður en aftur reis á Indlandi jafn mikilfenglegt ríki og á meðan gleyptu frumskógarnir flestallar hinar úthoggnu tilskipanir Asjoka um frið og milda stjórnsýslu. Hindúaguðir náðu sér aftur á strik og ruddu Búddisma burt. Þegar Bretar köstuðu eign sinn á Indland á nýlendutímanum og fóru að rekast á Tilskipanir konungsins á klettadröngum víða um landið, þá hafði enginn hinna innfæddu minnstu hugmynd um hver þessi Asjoka var.
Athugasemdir