Útgerðarfyrirtækið Samherji birti myndir af fimm starfsmönnum Seðlabanka Íslands í frétt á vefsíðu sinni í mars á síðasta ári í frétt þar sem greint var frá því að Samherji hefði kært umrædda starfsmenn bankans til lögreglu.
Í morgun birtist bréf frá forstjóra Samherja, Þorsteini Má Baldvinssyni, á vefsíðu fyrirtækisins þar sem hann kallaði það „siðlaus vinnubrögð“ af hálfu Ríkisútvarpsins að birta myndir af sex núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Samherja í frétt þar sem greint var frá því að þeir hefðu réttarstöðu sakbornings í sakamáli sem væri til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Í bréfinu eru myndbirtingarnar sagðar vera ,,hefndaraðgerð" vegna gagnrýni Samherja á RÚV.
Í frétt Samherja þar sem starfsmenn Seðlabankans voru myndbirtir voru einnig birtar kennitölur þeirra og heimilisföng.
Í frétt Ríkisútvarpsins, sem flutt var í kvöldfréttatíma Sjónvarps í gær og birt á vefsíðu RÚV, var greint frá því að þau Þorsteinn Már, Ingvar Júlíusson, Arna Bryndís McClure, Aðalsteinn Helgason, Jóhannes Stefánsson og Egill Helgi Árnason hefður réttarstöðu sakborninga í rannsókn héraðssaksóknara á ætluðum mútum, peningaþvætti og fleiri brotum tengdum útgerð félagsins í Namibíu. Þau fimm fyrst nefndu voru myndbirt í fréttinni.
Segir RÚV aldrei hafa lagst jafn lágt
Í bréfi Þorsteins Más segist hann telja „óhætt að fullyrða að Ríkisútvarpið hafi aldrei lagst jafn lágt í fréttaflutningi og með þessari frétt.“ Segir hann að í því samhengi veki athygli að enginn annar fjölmiðill hafi fetað „þessi niðurlægingarspor Ríkisútvarpsins í myndbirtingum. Þorsteinn Már segir enn fremur að í umfjöllun um Seðlabankamálið á sínum tíma hafi iðulega verið birtar myndir af honum í fjölmiðlum en aldrei hafi verið talin ástæða til að draga aðra og „óþekkta starfsmenn Samherja“ fram í sviðsljósið. Nú kveði við annan tón hjá RÚV. Vinnubrögðin séu með ólíkindum enda birti fréttastofan ekki einu sinni myndir af mönnum sem grunaðir séu um gróf ofbeldisbrot, „fyrr en þeir hafi hlotið dóm.“
Þorsteinn segir þá ennfremur að ljóst megi vera að myndbirting af þessu tagi sé þeim sem í hlut eiga, og fjölskyldum þeirra, mjög þungbær. „Allir þeir starfsmenn, sem birtar voru myndir af í gærkvöldi, eru óþekktir og hafa aldrei eða örsjaldan verið nafngreindir í fjölmiðlum áður.“
Seðlabankafólk hafði lítt verið í kastljósi fjölmiðla áður
Í frétt á vefsíðu Samherja sem birtist 30. apríl 2019 voru birtar myndir af fimm starfsmönnum Seðlabanka Íslands í frétt sem fjallaði um að Samherji hefði kært umrædda starfsmenn bankans til lögreglu vegna þáttar þeirra í rannsókn bankans á meintum brotum á gjaldeyrisreglum sem hófust með húsleit í höfuðstöðvum Samherja árið 2012 og sem leiddu til kæru á hendur fyrirtækinu vorið 2013. Því máli var vísað frá þar eð ekki var lagagrundvöllur fyrir ákærunni.
Starfsmennirnir fimm sem um ræðir eru Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, Rannveig Júníusdóttir og Sigríður Logadóttir. Már var seðlabankastjóri þegar kæra Samherja var lögð fram og hafði eðli málsins samkvæmt iðulega verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Hið sama má segja um Arnór, sem hafði verið aðstoðar seðlabankastjóri. Ingibjörg, fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, hafði hins vegar lítið verið í kastljósi fjölmiðla á þessum tíma þó það hafi breyst haustið 2019 þegar greint var frá námsstyrk sem Seðlabankinn hafði veitt henni. Rannveig, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins, hafði heldur ekki verið umfjöllunarefni fjölmiðla svo neinu næmi og Sigríður, aðallögfræðingur bankans, ekki nema lítillega.
Ekki er nóg með að fimmmenningarnir hafi verið myndbirtir í frétt Samherja heldur var kæra fyrirtækisins á hendur þeim einnig birt í fréttinni. Þar komu fram, auk nafna, kennitölur og og heimilsföng starfsmannanna fimm sem Samherji kærði.
Ítrekað verið fjallað um þátt Samherjafólks í Namibíumálið
Hvað varðar fullyrðingu Þorsteins Más, um að núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja séu óþekktir og hafi aldrei eða örsjaldan verið nafngreindir í fjölmiðlum áður, stenst sá málflutningur ekki skoðun. Sé horft framhjá Þorsteini Má sjálfum og Jóhannesi Stefánssyni, sem steig fram og ljóstraði upp um mútugreiðslur Samherja í Namibíu, sem báðir hafa ítrekað verið nafngreindir og myndbirtir í fjölmiðlum, hafa hinir starfsmennirnir allir verið viðfangsefni fjölmiðla eftir að Stundin, Kveikur auk fleiri fjölmiðla upplýstu um meint brot í starfsemi Samherja í Namibíu, þau hin sömu og sexmenningarnir hafa nú réttarstöðu sakborninga í rannsókn á. Í umfjöllunum Stundarinnar og Kveiks eru þannig þau Ingvar og Arna Bryndís nafngreind, sem og Aðalsteinn, enda bentu gögn til að þau hefði átt hlut að fjölþættum brotum sem tengdus starfsemi Samherja í Namibíu. Hið sama á við um Egil, sem raunar var til umfjöllunar í Stundinni áður en ljóstrað var upp um brot Samherja í Namibíu.
Þá má nefna að alþekkt er að fjölmiðlar birti myndir af fólki sem hefur réttarstöðu grunaðra í sakamálum, sætir ákæru eða jafnvel hefur verið kært. Þannig birtu fjölmiðlar myndir af ellefu starfsmönnum Ríkisútvarpsins sem Samherji kærði á dögunum til siðanefndar RÚV, fyrir færslur á þeirra eigin samfélagsmiðlum. Fyrirtækið birti kæruna á eigin vefsíðu þar sem nöfn starfsmannanna voru tíunduð. Með því var ekki verið að fella dóma yfir umræddum starfsmönnum, eins og Þorsteinn Már heldur í bréfi sínu fram að Ríkisútvarpið hafi gert varðandi starfsmennina sex með því að birta af þeim myndir.
Athugasemdir