„Ég hafna öllum ásökunum um lögbrot,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og einn stærsti hluthafi Samherja, aðspurður um nýjustu tíðindin í Samherjamálinu: Þeirri staðhæfingu Seðlabanka Íslands á sunnudaginn að sérstakur saksóknari hafi ekki útilokað að útgerðarfyrirtækið hafi framið lögbrot í gjaldeyrisviðskiptum sínum þrátt fyrir að embættið hafi fellt niður mál gegn fyrirtækinu nú í byrjun mánaðarins. Þorsteinn Már segir að rannsóknarefnið sé meðal annars níu milljarða viðskipti pólsks dótturfélags Samherja en um er að ræða allar tekjur þess á nokkura tímabili.
Þorsteinn segir hins vegar að hugsanlega hafi fyrirtækið gert mistök í gjaldeyrisviðskiptum sínum: „Brot er eitthvað að mínu mati sem maður fremur með vilja. Ég hef hins vegar alltaf sagt að það geti vel verið að við höfum gert mistök einhvers staðar. Hins vegar veit ég ekki hver þau eru þannig að ég hef alltaf viljað fá að sjá hvað það er sem við eigum að hafa gert rangt. Við unnum undir gríðarlega breyttu regluverki og undir gríðarlegri pressu á árunum 2008, 2009 og 2010 við að reka fyrirtækið. Ég hef ekki fundið þessi brot og sérstakur saksóknari staðfestir þetta. En Seðlabankinn, það virðist bara ekkert geta stoppað Seðlabankann. Miðað við það sem bankinn hefur gefið frá sér núna þá skal bara áfram haldið,“ segir Þorsteinn Már.
Athugasemdir