Það eru dálítið undarlegir tímar á plánetunni Jörð um þessar mundir. Fyrir aðeins áratug virtist flest leika í lyndi og „fögur ný veröld“ risin iðjagræn úr Ægi. Ekki varð betur séð en efnahagurinn væri á blússandi siglingu og helsta vandamálið á Vesturlöndum virtist vera að sauma nógu djúpa vasa á jakkaföt forstjóranna og bankamannanna svo þeir gætu stungið þangað gróðanum. En í öðrum heimshlutum var líka góðæri, Kínverjar auðguðust, Indverjar voru á leiðinni að verða stórveldi og við sáum ekki betur en stöðugleiki væri að komast á í Rússlandi. Jafnt um favellur Brasilíu sem hrjóstrug þorp Grænlands fóru flugufregnir um að peningaguðinn Plútus kæmi brátt askvaðandi og myndi fylla allar hirslur.
Og í þessum heimi þar sem góðviljuð markaðsöflin kynnu lausn á hverjum vanda og ekki lengur brauðmolar heldur tægjur af snúðum með glassúr sópuðust girnilegir ofan af borðum auðkýfinganna, þar yrðu Bandaríkin eins og aðsópsmikill skólastjóri að kenna okkur hinum gróðafræðin góðu og skelltu svo á sig fógetastjörnu þegar einhvers staðar væru ruddar með læti og þau færu af stað með marghleypuna og tækju í hnakkadrambið á dónunum.
Þessi skólastjóri með löggumerkið virtist að vísu hafa farið svolítið fram úr sér með innrás í Írak, því það varð sífellt augljósara að þar höfðu verið gerð hræðileg mistök, en við treystum á að strax og kæmi skárri forseti en George W. Bush þá myndu Bandaríkin ná betra valdi á hlutverki sínu sem alþjóðalögga og allsherjar friðarstillir, og þegar nýr forseti var loks kjörinn þar vestra þá ríkti slíkt trúnaðartraust í hans garð að hann var umsvifalaust sæmdur friðarverðlaunum Nóbels og hafði þó hvergi komið á friði.
En það var raunar einmitt um sama leyti og Barack Hussein Obama var kjörinn forseti Bandaríkjanna, og virtist endanleg sönnun að Bandaríkjamönnum væri sannarlega viðbjargandi og víðsýnni en nokkurn hafði órað fyrir, já, það var einmitt um það sama leyti sem alvarlegir brestir fóru að koma í glansmyndina sem við höfðum trúað á. Efnahagskreppa skók Vesturlönd og sýndi fram á óréttlætið sem viðgengist hafði, samt hefur í rauninni ekkert breyst. Bankamennirnir og vinir þeirra sitja enn við veisluborðið og troða í sig snúðum en ekki einu sinni brauðmolar hrjóta af borðinu.
Í öðrum heimshlutum er allt á hverfanda hveli og þarf ekki að rekja það í smáatriðum hér, nema hvað ótrúlegast er og ógeðfelldast að fasismi er aftur að skjóta upp kollinum í Evrópu og hefði ég nú látið segja mér það tvisvar fyrir aðeins áratug að slíkt ætti eftir að gerast í alvöru. Og þá eru Bandaríkin – þetta stórveldi sem okkur var sagt að við myndum geta treyst á alla 21stu öld – þá eru þau að kjósa sér nýjan forseta og annar flokkurinn vestanhafs virðist harðákveðinn í að velja til framboðs hvern þann sem reynist mesti og belgingslegasti blöðruselurinn en um leið sá herskáasti og byssuglaðasti.
Ég hef stundum reynt að horfa á hinar svonefndu „kappræður“ frambjóðenda repúblikana en gefst alltaf fljótt upp, því sá hamagangur gerir mann fyrst og fremst ósegjanlega dapran í bragði. Það er hrein og bein skelfing að einhver úr þessum furðulega söfnuði verði brátt kominn í dauðafæri við embætti valdamesta manns í heimi og gæti endað með fingurinn á gikk þess herafla sem mælist öflugri en herir næstu 23ja ríkja samanlagt, ef ég man þessar tölur rétt.
En hafi maður einhvern tíma haft efasemdir um að „frammistaða í sjónvarpi“ sé endilega réttur mælikvarði á hæfni manna til að ráða örlögum annarra, þá blómstra þær efasemdir við að horfa á ósköpin, því í þessum hópi virðist skila mestum árangri að opinbera sem allra tryllingslegu fáviskuna og vanhæfnina.
Þarna loka menn svo augum fyrir staðreyndum en mæla hver upp í öðrum brútalismann að nú má ekki lengur viðurkenna að innrásin í Írak hafi verið blóði drifin mistök. Þegar Donald Trump – af öllum mönnum – fullyrti það loks við einar kappræðurnar og minnti á hina alkunnu staðreynd að röksemdir innrásarmanna hefðu verið vísvitandi lygar, þá púuðu áhorfendur hástöfum. Þeir ljúga, þeir vita að þeir ljúga, en þeir vilja láta ljúga samt, því það er í samræmi við undarlega heimsmyndina sem risin er á rústum þeirrar „fögru nýju veraldar“ frá því fyrir áratug og nú er hrunin.
Og bróðir George Bush telur sér akk í að birta mynd af byssu með nafninu sínu.
Því miður virtist Bandaríkjamönnum ekki treystandi fyrir öryggi heimsins, úr því svona litlu munar að herskáir froðusnakkar komist þar til valda. Þrátt fyrir vafalaust góðan vilja á sínum tíma, þá skilur friðarverðlaunahafinn Obama eftir sig ófriðvænlegri veröld en áður. Hvað gera þá þessi skoffín? Og í Rússlandi er að rísa einræðisríki sem daðrar við fasismann. Hvað kom eiginlega fyrir?
Athugasemdir