Fasteignabraskarinn og sjónvarpsþáttastjórnandinn Donald Trump setti bandarísk stjórnmál og heimsmynd margra á hliðina þegra hann var kjörinn forseti síðasta haust. Nú um klukkan 5 að staðartíma á Íslandi sver hann svo embættiseið og er þar með orðinn 45 forseti Bandaríkja Norður-Ameríku. Í spilaranum hér að neðan má fylgjast með athöfninni í beinni útsendingu.
Þúsundir stuðningsmanna Trumps hafa gert sér ferð til Washington til þess að fylgjast með þessum sögulega viðburði. Það er hinsvegar vitnisburður um hina óvægu kosningabaráttum sem Trump háði að 22 þingmenn demókrata hafa lýst því opinberlega yfir að þeir ætli að sniðganga athöfnina.
Trump sótti kirkju í morgun með fjölskyldu sinni og hitti svo, ásamt eiginkonu sinni Ivönku Trump, fráfarandi forseta, Barack Obama ásamt forsetafrúnni Michelle Obama. Hefð hefur verið fyrir því, frá 1877, að fráfarandi og væntanlegur forseti hittist í stutt spjall áður en embættisvígslan fer fram. Þeir voru svo samferða í bíl að þinghúsinu þar sem athöfnin fer nú fram.
Mótmælt og kveikt í jónum
Það eru ekki aðeins stuðningsmenn Trumps hópast hafa til Washington í tilefni valdatökunnar, en frá því í morgun hafa mótmælendur látið svo duglega í sér heyra að jafnvel hefur komið til átaka milli þeirra og lögreglu.
Mikil öryggisgæsla er í borginni og hafa mótmælendur sést með skilti með ýmsum skilaboðum, svo sem „Ekki minn forseti,“ „Enga Íslamófóbíu“ og „Svört líf skipta máli.“
Fjöldi hópa hafa skipulagt að nota innvígsluna til þess að vekja athygli á málstað sínum. Meðal þeirra eru samtökin DCMJ sem berjast fyrir lögleiðingu kannabisefna. Notkun kannabis er lögleg í Washington og ætla samtökin að dreyfa þúsundum kannabis-vindlinga ókeypis til þess að sýna stuðning við algjöra lögleiðingu efnanna.
[Hér má sjá útsendingu Democracy Now, sem meðal annars sýnir frá mótmælunum.]
Rúmlega 10 þúsund einstaklingar stóðu í röð í morgun til þess að ná í vindlingana sína. Nikola Schiller, einn af stofnendum DCMJ sagði að engin lögregla hefði verið á svæðinu. Til stendur að hópurinn muni svo fylkja liði þangað sem athöfnin fer fram rétt áður en Trump fer með eiðinn. Fjórum mínútum og tuttugu sekúndum eftir að hann byrjar ræðu sína ætlar hópurinn svo í heild sinni að kveikja í vindlingunum, en talan 420 er oft notuð sem slangur yfir það að koma í kannabisvímu.
Sögulegar óvinsældir
Þrátt fyrir að hafa sigrað forsetakosningarnar á fjölda kjörmanna hlaut Trump tæplega 3 milljónum færri atkvæði en Hillary og vann hún því kosningarnar með 2,1% mun. Kjörmannakerfið í Bandaríkjunum, sem gagnrýnt hefur verið af mörgum, tryggði hinsvegar Trump sigurinn.
Fyrir þremur dögum mældist hann svo með 44% stuðning almennings, en engum forseta hefur tekist að ná slíkum óvinsældum áður en hann tekur við embætti. Það tók Obama 18 mánuði og George W. Bush 4 ½ ár að falla eins mikið í ónáð. Í könnun sem birtist í dag var þessi tala komin niður í 42%, en á sama tíma yfirgefur Obama embættið með 60% stuðning almennings.
Að vanda var Trump snöggur að svara, og notaði þar samskiptamiðilinn Twitter. Sagði hann að sömu einstaklingar hefðu staðið að skoðanakönnunum fyrir kosningarnar og stæðu að könnun á stuðningi almennings. Ekkert væri að marka þessar tölur, þar sem þær væru falsaðar.
Hefðin hefur verið sú að forsetar hafa notað tímann frá því þeir vinna kosningarnar fram að valdatöku til þess að grafa stríðsaxir og þjappa þjóðinni saman eftir oft á tíðum erfiðar kosningabaráttur. Trump hefur hinsvegar haldið sama slag áfram og hann var í fyrir kjördag. Hann hefur lent í útistöðum við talsmenn mannréttinda, Meryl Streep, og Angelu Merkel og Obama, auk þess sem lekið hafa gögn frá rússnesku leyniþjónustunni þess efnis að hann hafi borgað vændiskonum fyrir að kasta af sér vatni í rúm sem Obama hafði gist í nokkru áður.
Athugasemdir