Getur valdamesti maður jarðarinnar breytt pólitískum og efnahagslegum aðstæðum í heiminum? Getur hann haft raunveruleg áhrif til lengri tíma á skipan alþjóðamála? Eða er grunnur alþjóðlegra valdakerfa í stjórnmálum, efnahagsmálum, menningu og viðskiptum svo rammgerður og kraftarnir sem móta þau svo þungir að Donald Trump geti þjónað lund sinni að vild í nokkur ár án þess að skilja eftir sig djúp spor?
Skaði fyrir hvern?
Rétt er að huga að því hvaða og hverra hagsmunir eru helst í húfi og líta þá til heimsins alls frekar en einstakra dæma. Öll valdakerfi í stjórnmálum, viðskiptum, fjármálum og menningu heimsins eiga sér rætur í því að Evrópa lagði hann undir sig. Kerfin hafa af mörgum ólíkum ástæðum verið umdeild á Vesturlöndum. Utan okkar heimshluta líta menn líka yfirleitt svo á að tilvist þeirra og skipan sé í besta falli vond nauðsyn. Oftar má heyra að þau feli í sér pólitískt ofríki Bandaríkjanna og fyrrum nýlenduvelda í Evrópu enda bera kerfin sterk einkenni uppruna síns. Í heildina hafa þau þó virkað vel fyrir milljarða manna. Heimurinn hefur aldrei verið ríkari, munur á ríkidæmi heimshluta hefur með nokkrum undantekningum stórlega minnkað, mannfall í stríðsátökum er minna en nokkru sinni í sögunni, menntun hefur stórkostlega aukist og heilbrigði batnað mjög. Allt þetta varð mögulegt vegna sérstakrar skipunar viðskipta- og stjórnmála þar sem Bandaríkin léku ómissandi hlutverk.
Breyttur heimur
Miklar breytingar urðu á þessum kerfum með hruni evrópsku heimsveldanna, þróun til ofurvalds Bandaríkjanna, stofnanavæðingu alþjóðlegra stjórnmála og efnahagsmála, mannfjöldasprengingu síðustu áratuga, heimsvæðingu viðskipta, samskiptabyltingunni og svo ekki síst með gífurlegum uppgangi margra stórra ríkja í Asíu. Eftir stendur kerfi þar sem valdahlutföllin eru ekki nándar nærri eins ójöfn og áður og lífskjör manna á Vesturlöndum og í Asíu heldur ekki nærri því eins ólík og þau voru fyrir skemmstu. Kerfin sjálf eru hins vegar á ábyrgð Vesturlanda og þá fyrst og fremst Bandaríkjanna. Þetta sést á hverjum degi í hundruðum alþjóðastofnana, í alþjóðlegum viðskiptum og í sífelldum tilraunum Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja til að hafa áhrif á þróun stjórnmála í öðrum hlutum heimsins. Árangurinn af þeirri viðleitni hefur farið minnkandi. Síðustu árin hefur sífellt víðar mátt greina að rökkurtími vestræns valds er gengin í garð. Það er ekki Trump að kenna, hann er frekar afurð þess ótta sem þessi þróun hefur getið af sér.
Lausungin á Vesturlöndum
Valdakerfi heimsins hafa alltaf endurspeglað hagsmuni Vesturlanda. Stundum hafa þeir verið býsna andstæðir hagsmunum almennings víða um veröldina þótt heimsvæðingin og uppgangur ríkja utan Vesturlanda hafi breytt miklu síðustu árin. Það eru hins vegar ekki aðeins hagsmunir sem sjást glöggt í þessum kerfum. Þau eru líka afkvæmi vestrænna gilda og hugsunar, sem oft mátti þó víkja fyrir þröngum stundarhagsmunum. Líti menn hins vegar á þá gagnrýni sem daglega er uppi um heim allan á vestræna afskiptasemi kemur í ljós að þar er oftast verið að gagnrýna hluti sem flestir Vesturlandabúar telja til sinna dýrustu gilda. Fjölmiðlar undir stjórn valdamanna um víða veröld gagnrýna daglega þá lausung sem birtist í dekri Vesturlanda við mannréttindi, lýðræði, viðskiptafrelsi, málfrelsi, jafnrétti kynjanna og réttindi minnihlutahópa. Það sem valdamenn víða um heim vilja fá í staðinn fyrir vestræna varðstöðu um þessi gildi er ekki einhver rómantísk leit að þjóðlegu sjálfstæði. Þetta er yfirleitt samsuða af því tagi sem menn þekkja helst frá Pútín í Rússlandi, Erdogan í Tyrklandi og Xi Jin Ping í Kína. Og nú frá Trump í Bandaríkjunum. Baráttan gegn vestrænum áhrifum í öðrum álfum snýst ekki lengur fyrst og fremst um varnir gegn yfirgangi útlendra kapítalista heldur um tilraunir til að stöðva þróun til lýðræðis og manréttinda.
Vondur tími
Kosningasigur Trumps kom ekki á heppilegum tíma fyrir nokkuð af því sem upplýst fólk í okkar heimshluta telur sín pólitísku gildi, hvorum megin miðjunnar sem það annars kann að standa í þjóðmálum. Helstu kerfi í alþjóðamálum hafa um tíma mátt þola slíkt álag að allar alvöru umræður um stærri hluti og lengri framtíð snúast oftar en ekki um þanþol þessara kerfa. Sumpart stafar þetta af þeirri jákvæðu þróun að mörg ríki sem hafa ekki átt aðild að uppbyggingu alþjóðakerfisins hafa vaxið stórlega að auði og afli. Þar skiptir Kína mestu máli en mun fleiri ríki koma þarna við sögu. Í Asíu býr 57% mannkynsins og álfan er orðin ríkari en öll Vesturlönd til samans án þess að þeirrar heimsögulegu þróunar hafi verulega gætt í aukinni fyrirferð þessara ríkja í pólitík eða menningu heimsins. Aðrar ástæður fyrir spennu í heimsmálunum eru margar öllu dekkri. Þær snúa flestar að vaxandi mikilvægi þjóðernishyggju og trúarbragða sem andsvara við heimsvæðingu samtímans.
Fullkominn stormur
Ógnir við það sem þrátt fyrir allt mætti kalla stöðugleika í alþjóðamálum koma úr þremur áttum í senn. Á heimsvísu birtast þær í uppgangi nokkurra hungraðra stórvelda sem vilja auka til muna áhrif sín á heimsmálin eða í það minnsta á málefni nágranna sinna. Sagan sýnir að erfitt er að seðja slíkt hungur. Innan Vesturlanda ríkir um leið djúpur ótti við þann opna heim sem þau hafa skapað. Hann birtist í uppgangi öfgaafla í Evrópu og í kjöri Trumps í Ameríku. Á milli kjarnaríkja Vesturlanda hefur líka vaxið gjá. Sú glæpsamlega heimska sem var að baki innrás Bandaríkjanna í Írak, eins versta glapræðis okkar tíma, er þar stór sökudólgur en þó ekki sá eini því Bandaríkin og Evrópa hafa einfaldlega orðið ólíkari með árunum. Innan Evrópu ríkir síðan vaxandi tortryggni sem veldur auknu fylgi við þjóðernishyggju víða um álfuna. Hugmyndaleg og pólitísk lömun virðist líka einkenna Evrópu um þessar mundir.
Hraðari þróun
Sigur Trumps mun líklega rýma til fyrir öðrum stórveldum, sérstaklega Rússlandi og Kína en einnig smærri ríkjum eins og Íran og Tyrklandi. Þetta er bæði vegna þess að Bandaríkin munu sennilega fylgja í auknum mæli þröngri hentistefnu og líka vegna þess að siðferðileg og pólitísk staða Vesturlanda mun versna. Tómarúms hafði þegar orðið vart í Mið-Austurlöndum. Inn í það stigu Rússar og að minna leyti Íranir. Sama má segja um nokkur svæði á jöðrum Rússlands og Kína. Bæði stórveldin hafa að undanförnu nýtt sér aukið olnbogarými. Einstök ríki í kringum Kína hafa nú þegar aðlagað stefnu sína nýjum veruleika í Washington og sóst eftir nánara sambandi við Kína þótt það kosti þau í sumum tilvikum verulegar pólitískar fórnir. Margir hafa tekið upp hanskan fyrir Rússa og talið stefnu þeirra að undanförnu eðilega afleiðingu af því að þeim var þrengt. Eins hafa margir bent á að ekki sé óeðlilegt að Kína, stærsta ríki heims, hafi meiri áhrif en Bandaríkin í Austur-Asíu. Og menn benda líka á að ekki sé eðlilegt að Bandaríkin séu mesta herveldi Mið-Austurlanda eða að aldargamalt valdakerfi Breta og Bandaríkjamanna eigi að skipa málum þar. Rétt er hins vegar að skilja það sem í boði er á móti áður en hnignun Bandaríkjanna er fagnað.
Áhrifin af kjöri Trumps verða líklega þau að flýta þróun sem þegar mátti greina. Með því er þó ekki öll sagan sögð því bæði atburðarás og tímasetningar geta haft djúpstæð áhrif í þessum efnum. Því fer víðs fjarri að heimurinn sé vel í stakk búinn til þeirra breytinga á valdahlutföllum sem virðast framundan. Það eru veikleikar Rússlands sem gera ríkið hættulegt, ekki styrkur þess. Kína á enn eftir að leysa stórkostleg pólitísk og félagsleg vandamál heima fyrir sem gætu leitt til freistinga í utanríkismálum. Mið-Austurlönd eru í skelfilegri kreppu. Í tilviki Vesturlanda gat tímasetningin eiginlega ekki verið verri.
Athugasemdir