Meðlimir í kosningateymi Donalds Trump áttu í ítrekuðum samskiptum við háttsetta rússneska leyniþjónustumenn í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum í fyrra. Þetta kemur fram í afhjúpun New York Times.
Bandarísk löggæsluyfirvöld hafa staðfestingar á samskiptunum, bæði símtalaskrár og hleruð símtöl. Sannanirnar komu í ljós í rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum með innbrotum í tölvukerfi landsnefndar Demókrataflokksins.
Gögn úr tölvupósti Demókrataflokksins voru birt af Wikileaks 22. júlí 2016. Þar á meðal voru 19.252 tölvupóstar frá æðstu stjórn Demókrataflokksins. Meðal annars var um að ræða óformleg samskipti við blaðamenn.
Heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu 7. október í fyrra, mánuði fyrir forsetakosningarnar, að rússnesk yfirvöld hefðu staðið að baki tölvuinnbrotinu og dreifingu gagnanna í tilraun til að „hafa áhrif á þróun bandarísku kosninganna“.
Í umfjöllun New York Times í dag er vitnað til fjögurra ónafngreindra núverandi og fyrrverandi bandarískra embættismanna. Þeir segja samskiptin ekki hafa verið bundin við kosningateymi Trumps, heldur einnig náð til annarra sem tengjast honum, og samskiptin náðu einnig til rússneskra embættismanna utan leyniþjónustunnar. Opinberlega hafa bandarísk löggæsluyfirvöld ekki staðfest upplýsingarnar.
Bandaríska alríkislögreglan rannsakar nú tengsl milli Donalds Trump og rússneskra yfirvalda með tilliti til þess að meðvitað hafi verið höfð áhrif á úrslit bandarísku forsetakosninganna.
Athugasemdir