Best að leggjast í sömu lægðir og Donald Trump hefur farið með umræðuna í bandarískum stjórnmálum á síðustu vikum og dögum. Nú sérstaklega eftir fjöldamorðin í San Bernandino, þar sem bandarískur múslimi og eiginkona hans myrtu 14 manns með köldu blóði í versta hryðjuverki í sögu Bandarríkjanna síðan 11. september 2001 (fjöldamorðin í Sandy Hook grunnskólanum árið 2012 eru ekki talin til hryðjuverka, en þá myrti Adam Lanza 20 börn g 6 fullorðna. Það er „skólaskotáras“).
„Hvað í helvíti gengur á“
Viðbrögð Donalds Trumps eftir atburðina í Kaliforníu eru nákvæmlega eins og við var að búast af jafn uppblásnum, sjálfsuppteknum lýðskrumara og raun ber vitni: „Ég vil banna öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna,“ gargar Donald Trump (því hann talar eiginlega ekki, hann gargar á fólk). „Að minnsta kosti þangað til við vitum hvað í helvítinu gengur á,“ („what the hell is going on“) segir Trump og leikur listilega þá grein að gera alla skíthrædda upp úr skónum. Því hann veit hvernig má nota hræðslu við aðstæður sem þessar. Svo vitlaus er hann ekki, virðist kunna list „hræðslistjórnmálanna.“
Undirritaður hefur lengi fylgst með bandarískum stjórnmálum, en það sem sést til Trump og heyrist er með því lægsta sem boðið hefur verið upp á í þeim sirkus sem bandarísk stjórnmál eru. Þessum peningasirkus. Og þar er einmitt Trump vegna þess að hann veður í peningum. Hann gæti keypt sér forsetaembættið, væri það til sölu. Og reka alla á fyrsta degi sem honum mislíkar, í ætt við þá sápuóperu sem hann framleiddi um sjálfan sig (The Apprentice).
Maður upphrópana
Trump er maður sem talar í upphrópana og fyrirsagnastíl, en hann forðast eins og heitan eldinn að ræða alvöru stefnumál og hann er látinn komast upp með það af fjölmiðlum, því miður. Hann gerir lítið úr fólki sem leyfir sér að gagnrýna hann (til dæmis fatlaði blaðamaðurinn, sem hann gerði grín að um daginn) og hann hikar ekki við að sýna fyrirlitningu sína gagnvart fólki. Fyrir skömmu gerði hann útlit meðframbjóðandans Cörlu Fiorínu að umtalsefni og gaf það í skyn að hún væri ófríð. Síðan í kappræðum Repúblíkana númer tvö reyndi hann svo að sleikja hana upp, gera lítið úr þessu og kom þá með frasa á borð við „Ég elska konur og konur elska mig“.
Einfaldar lausnir
Trump er maður hinna einföldu lausna: Hann vill byggja múr á milli Mexíkó og Bandaríkjanna og láta Mexíkana byggja hann. Hann vil henda út 11 milljónum ólöglegra innfytjenda og hann segir að ,,þeir muni bara fara.“ Ekkert mál! Hann vill flytja öll fyrirtækin sem hafa flutt til Kína frá Bandaríkjunum, aftur til Bandaríkjanna. Ekkert mál, þau muni bara flytja.
Trump segir að Bandaríkjamenn megi búast við mörgum ,,Ellefta september“-atburðum verði ekki allir músímar (sem ekki eru bandarískir ríkisborgarar) hindraðir í því koma til Bandaríkjanna. Málið er því miður miklu flóknara en þetta. Auðvitað veit Trump það en hann vinnur bara ekki nógu mikið fylgi með því að tala þannig. Hann vinnur á hræðslunni.
Trump vill leysa vandamál Sýrlands með því að sprengja það aftur á steinöld. Að vísu eru Vesturlönd og Rússland í gríðarlegri sprengjuherferð í Sýrlandi, einskonar sprengjukeppni, þar sem allir helstur gerendur á alþjóðavettvangi keppast við að ,,fá að vera með.“ Nú síðast Bretar. Og Rússar æfa sig í að skjóta flugskeytum úr kafbátum á Miðjarðarhafinu á skotmörk í Sýrlandi. Er nema von að ástandið sé eins og það er? Það er runnið stríðsbrjálæði á menn.
Kjarnorkutaskan
Forseti Bandaríkjanna er yfirmaður alls herafla þeirra (Commander in chief). Það er hann sem hefur aðgang að kjarnorkutöskunni. Þessa samsetningu: Trump+kjarnorkutaskan, hræðist ég verulega. Ef Trump hefði verið uppi á tímum Kúbudeilunnar, væri Kúba sennilega ekki til í dag. Trump hefði líklega hlustað á menn eins og hinn stríðsóða Curtis Lemay, sem vildi sprengja Kúbu af kortinu og greindi verulega á við John F. Kennedy, þáverandi forseta. Ráðgjöf Lemay hefði að öllum líkindum leitt til heimsstyrjaldar númer þrjú. Kennedy valdi leið aðra og áhrifaríkari leið. Þess má einnig geta að Curtis Lemay (m.a. kallaður ,,Djöfullinn“) stjórnaði á tímum seinni heimsstyrjaldar einni hræðilegustu sprengjuherferð stríðsins þegar tugum japanskra borga var nánast eytt með napalmi og fosfórsprengjum. Talið er að meira en hálf milljón manna hafi farist og um fimm milljónir orðið heimilislausar.
Þegar Sovétríkin liðuðust endanlega í sundur árið 1991 og Boris Jeltsín varð forseti Rússlands, þá hafði hann þeirra kjarnorkutösku. Jeltsín var helsjúkur alkóhólisti og byrjaði yfirleitt að drekka fyrir eða um hádegi að sögn. Oftar en ekki var Jeltsín drukkinn á opinberum vettvangi. En einhvern veginn er ég smeykari um Trump með sína tösku. Hann virkar svo skelfilega hvatvís og mig grunar sterklega að hann hugsi ekki alltaf áður en hann framkvæmir; tali eða geri hluti. Það veit ekki á gott.
Ps. Varðandi fyrirsögnina: Henni er ætlað: a) Að finna gott íslenskt rím við orðið Trump, b) Að lýsa áliti mínu á Trump sem forsetaframbjóðanda og c) Að sýna fram á það á hvaða (lág)stig Trump er búinn að færa umræðuna í bandarískum stjórnmálum, einmitt á þeim tíma þegar virkilega þarf að ræða hlutina ef einhverri alvöru.
Athugasemdir