Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, þekkir Halldór Einarsson, einn meðmælanda Roberts Downey. Þetta staðfestir Brynjar í samtali við Stundina. „Já, við þekkjumst við Halldór, aðallega vegna þess að ég vann fyrir hann mikið hér áður. Þannig við erum búnir að þekkjast lengi við Halldór.“
„Við erum búnir að þekkjast lengi við Halldór“
Mynd þar sem þeir Halldór og Brynjar skipa sama fótboltalið hefur gengið um samfélagsmiðla. Myndin er frá því að Old-boys lið Vals lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Brynjar var þá enn að spila fótbolta en Halldór var titlaður „manager“ liðsins.
Í samtali við Vísi sagðist Halldór þekkja Robert Downey í gegnum fótboltann. Aðspurður segist Brynjar ekki hafa kynnst Roberti þar, líkt og Halldóri. „Nei, við erum sitthvor kynslóðin í fótboltanum. Ég þekki hann ekki úr fótboltanum,“ segir Brynjar. „Þeir eru einhverjir æskuvinir úr fótboltanum, en ég er alveg fimmtán árum yngri.“
Vantreysti Brynjari í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fundaði um málsmeðferðina varðandi uppreist æru Roberts þann 14. ágúst. Að fundi loknum lýsti Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, vantrausti á formanninn vegna framgöngu hans á fundinum.
„Þessu var stillt upp þannig að það væru einhverjar heilsufarsupplýsingar sem væru bundnar lögum um trúnað; persónuverndarákvæði. Svo kom í ljós að þetta er allt mjög almennt“
„Þessu var stillt upp þannig að það væru einhverjar heilsufarsupplýsingar sem væru bundnar lögum um trúnað; persónuverndarákvæði. Svo kom í ljós að þetta er allt mjög almennt en það er búið að binda okkur í minnihlutanum þannig trúnaði að við erum að brjóta lög ef við upplýsum um hverjir þessir meðmælendur eru,“ sagði Birgitta í samtali við mbl.is á þeim tíma. Hún greindi síðan frá því í viðtali við Morgunútvarpið í morgun að hún hefði lagt til að strikað yrði yfir allar upplýsingar sem gætu orkað tvímælis en því hefði verið hafnað.
Þá kom í ljós að nefndin hefði kallað eftir þessum upplýsingum og fengið, en þar sem Brynjar hefði ekki fylgst með pósthólfinu sínu var fundurinn ekki haldinn fyrr en mánuði síðar.
Meirihlutinn gekk út af fundinum
Athygli vakti að meirihluti nefndarinnar, þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar, gekk út af fundinum og neitaði að skoða gögnin, sem nefndin hafði kallað eftir og voru lögð fram á fundinum, þar á meðal upplýsingar um hina valinkunnu menn sem veittu Roberti meðmæli. „Ég skil ekki alveg hvað er í gangi og fyrst þau hafa ekki séð þessi bréf þá geta þau væntanlega ekki verið á fundum. Við þurfum að kalla eftir áliti lögmanns Alþingis og forsætisnefndar hvort þau geta setið á fundum þar sem við erum að ræða við ráðuneytið um spurningar sem vakna við lestur bréfanna,“ sagði Birgitta.
Hildur Sverrrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og einn fulltrúi hans í eftirlits- og stjórnskipunarnefnd, skýrði þá afstöðu sína að ganga út af fundinum með því að hún þyrfti ekki að sjá „þessi svokölluðu meðmælabréf til að taka efnislega afstöðu til málsins“ eins og það liti út gagnvart nefndinni.
„Uppákoman í nefndinni í gær virkar furðuleg. Hún þarfnast skýringa og ég skil ekki þau rök sem komið hafa fram.“
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sem nú hefur slitið ríkisstjórnarsamstarfinu gagnrýndi þessa uppákomu á sínum tíma. „Uppákoman í nefndinni í gær virkar furðuleg. Hún þarfnast skýringa og ég skil ekki þau rök sem komið hafa fram.“
Spurði hvort Brynjar væri vanhæfur
Tveimur dögum síðar varpaði Bergur Þór Ingólfsson, faðir Nínu Rúnar Bergsdóttur, þolanda Downey, fram þeirri spurningu hvort Brynjar væri vanhæfur til þess að stýra stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þessu máli vegna tengsla við Robert Downey. Þá hafði hann fundið gamlar fréttir þess efnis að Brynjar Níelsson væri lögmaður nektardansstaðarins Bóhem, líkt og Robert hafði verið áður en hann var dæmdur í fangelsi. Bætti hann því við að málflutningur Brynjars í málinu hefði verið þolendum Roberts þungbær.
„Af hálfu brotaþola hefur þessi málflutningur verið óþolandi, íþyngjandi og skert lífsgæði þeirra“
„Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, hefur að mínu mati gert lítið úr glæpum Róberts Árna Hreiðarssonar í fjölmiðlum og um leið smættað afleiðingar þeirra,“ sagði Bergur. „Af hálfu brotaþola hefur þessi málflutningur verið óþolandi, íþyngjandi og skert lífsgæði þeirra.“
Í samtali við DV sagði Brynjar að þetta væri bara „rugl umræða“. „Ég þekki bara Róbert nánast ekki neitt, nema að hann er bara lögmaður og menn heilsast á förnum vegi. Málið snýst heldur ekkert um Róbert. Það snýst bara um uppreisn æru. Kommon, þetta bara rugl, að vera velta þessu upp,“ sagði Brynjar, án þess að láta þess getið að hann þekkti einn meðmælanda Roberts Downey.
Stjórnvöld leyndu upplýsingunum
Þolendur Roberts og aðstandendur þeirra óskuðu ítrekað eftir því að fá upplýsingar um hina valinkunnu menn og það ferli sem lá að baki því að veita honum uppreist æru. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafnaði því hins vegar að veita þessar upplýsingar. Úrskuðarnefnd upplýsinganefndar komst síðan að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið ætti að veita þessar upplýsingar.
Sama dag og niðurstaða úrskurðarnefndar lá fyrir afhenti ráðuneytið gögnin í máli Roberts en svaraði enn ekki fyrirspurnum Stundarinnar um mál Hjalta, þrátt fyrir að Stundin hafi ítrekað óskað eftir þessum gögnum í gegnum síma, tölvupósti og heimsóknir í ráðuneytið.
Í gær greindu Stundin og Vísir frá því að faðir forsætisráðherra hefði verið einn þeirra sem veittu öðrum barnaníðingi, Hjalta Sigurjóni Haukssyni, meðmæli þegar honum var veitt uppreist æru sama dag og Robert Downey.
Í kjölfarið viðurkenndi dómsmálráðherra í Íslandi í dag að hún hefði greint Bjarna Benediktssyni einum frá því í júlí að faðir hans væri einn meðmælanda Hjalta.
Bjarni hafði því vitneskju um það þegar meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gekk út af fundinum í ágúst og neitaði að skoða upplýsingar um meðmælendur Downey, með þeim skýringum að þær upplýsingar skiptu ekki máli.
Brynjar var verjandi Hjalta
Í viðtali við Kastljós í gær greindi Brynjar svo frá því að hann hefði einhvern tímann verið verjandi Hjalta. Þegar hann var spurður að því hvort það væri ekki erfið staða fyrir hann að stýra fundum nefndarinnar og hugsanlega rannsókn á þessu máli vegna þess að um væri að ræða samflokksmenn hans svaraði hann:
„Ef ég man rétt þá held ég að ég hafi meira að segja varið þennan Hjalta“
„Nei, nei, ég er alveg viss um það að ég hef verið skipaður verjandi eitthvað af þessum mönnum sem þarna eru. Ef ég man rétt þá held ég að ég hafi meira að segja varið þennan Hjalta einhvern tímann, svo það sé bara upplýst. Við vorum aldrei að skoða einstök mál. Við vorum að skoða framkvæmd á þessum málum. Það er það sem við vorum að gera, höfum gert og erum enn að. Þá var umræðan svolítið mikil um þetta einstaka mál Robert Downey, við erum ekki að ræða hér einstakt mál, við erum að ræða hvernig þetta er framkvæmt.“
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna og fulltrúi flokksins í nefndinni sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að Brynjari væri ekki stætt að leiða nefndina áfram. „Mér þykir einboðið í ljósi tíðinda dagsins að Brynjar Níelsson getur ekki verið verkstjóri þessarar vinnu áfram.“
Þá sagði hún að þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að veita framkvæmdarvaldinu eftirlit þyrfti forysta hennar að vera hafin yfir allan vafa. Eðlilegast væri að henni væri stýrt af stjórnarandstöðunni. Á það hefur Birgitta einnig bent.
Stjórnarsamstarfinu slitið vegna trúnaðarbrests
Á stjórnarfundi Bjartar framtíðar í gærkvöldi var tekin ákvörðun um að slíta stjórnarsamstarfinu vegna trúnaðarbrests af hálfu dómsmálaráðherra og forsætisráðherra.
„Kerfi sem einkennist af leyndarhyggju og stendur vörð um ofbeldismenn en ekki fórnarlömb er meingallað“
Bjarni hafði þá veitt formönnum ríkisstjórnarflokkanna, þeim Óttarri Proppé og Benedikti Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, þær upplýsingar að faðir hans hefði veitt meðmæli í máli tengdu uppreist æru, án þess að greina nánar frá því hvaða máli meðmælin tengdust. Það var á mánudag sem Bjarni greindi þeim frá því, sama dag og úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að þessi gögn ættu að vera opinber.
„Kerfi sem einkennist af leyndarhyggju og stendur vörð um ofbeldismenn en ekki fórnarlömb er meingallað og djúpstæð vonbrigði þjóðarinnar með viðbrögð stjórnvalda í þessum málum er eittvað sem við verðum að taka mjög alvarlega,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra úr röðum Viðreisnar, í morgun og bætti því við að boða yrði til kosninga sem fyrst.
Athugasemdir