Stjórn Landverndar segir mjög alvarlegt fyrir íslenska stjórnsýslu að setja lög til að snúa úrskurði í máli laxeldisfyrirtækja á Vestfjörðum. Réttur umhverfisverndarsamtaka til að láta reyna á starfssemi sem hefur skaðlegar afleiðingar fyrir umhverfið sé lítils virði þegar ráðherrar setja slík lög.
Þá hvetur Landvernd umhverfisráðherra og sjávarútvegsráðherra til að virða niðurstöðu úrskurðarnefndar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar.
Umræða um frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fer fram á Alþingi í dag. Frumvarpið gerir ráðherra heimilt að veita fyrirtækjum í laxeldi bráðabirgðaleyfi til allt að tíu mánaða, að undangenginni umsögn Matvælastofnunar. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi á fimmtudag úr gildi starfsleyfi tveggja laxeldisfyrirtækja, Arctic Sea Farm og Fjarðalax.
Í fréttatilkynningu frá Landvernd kemur fram að íslensk stjórnsýsla í umhverfisverndarmálum sé fyrir mjög veik. „Það er ákvörðun og áhætta fyrirtækja að hefja starfssemi þrátt fyrir augljósa ágalla á henni sem varða við landslög, eins og það að kostagreining fór ekki fram. Réttur umhverfisverndarsamtaka til þess að láta reyna á framkvæmda- og starfsleyfi fyrir starfssemi sem hefur skaðlegar afleiðingar fyrir umhverfið fyrir óháðum aðila er lítils virði þegar ráðherrar setja lög á úrskurði þessa óháða aðila,“ segir í tilkynningunni.
Loks skorar stjórn Landverndar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að virða niðurstöðu úrskurðanefndarinnar og hætta við lagasetningu sem snúi úrskurði hennar.
Athugasemdir