1 „Vona að pabbi fái þann dóm sem hann verðskuldar“
Guðrún Kjartansdóttir greindi frá misnotkun föður síns í viðtali við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur í haust, en faðir Guðrúnar hafði þá nýlega verið færður í gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa brotið gegn þriðju dótturinni. Guðrún ákvað þá að stíga fram ásamt móður sinni, Katrínu Magnúsdóttur, í von um að stjórnvöld endurskoði misbresti í kerfinu svo betur sé hægt að vernda börn.
„Það er sárt að hugsa til þess að pabbi hafi bara getað fundið sér nýja konu, eignast önnur börn og enginn stoppaði hann af,“ sagði Guðrún meðal annars.
2 „Konan mín vildi deyja“
Emil Thorarensen, fyrrverandi útgerðarstjóri á Eskifirði, greindi frá þeim miklu raunum sem fjölskylda hans gekk í gegnum þegar eiginkona hans glímdi við fæðingarþunglyndi, en þunglyndið leiddi að lokum til dauða hennar. Dóttir þeirra á nú í sömu glímu.
„Hún þráði að deyja þegar sjúkdómurinn ágerðist og gerði ekki ófáar tilraunir til þess að það yrði að veruleika. Þótt hún væri að segjast ætla að fyrirfara sér þá var það í rauninni ákall um að fá hjálp,“ segir Emil um eiginkonu sína.
3 „Það var öskrað á mig og mér hótað“
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði meðal annars frá störfum sínum í Seðlabanka Íslands í hruninu og óvæntu símtali frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í viðtali við Reyni Traustason á árinu.
„Þetta var seint um kvöld. Ég var að lesa fjármálastöðugleikaskýrslu 2016, vorútgáfu, þegar Sigmundur Davíð hafði samband við mig og spurði hvort ég gæti hugsað mér að taka sæti í ríkisstjórninni. Það kom mér á óvart. Ég tók að mér að verða utanríkisráðherra með það að leiðarljósi að standa mig fyrir land og þjóð.“
4 „Það er ekki hægt að dæma látinn mann“
Selma Klara Gunnarsdóttir sagði frá því á árinu hvernig það var að komast að því að maðurinn sem hún hafði kært fyrir nauðgun væri látinn.
„Sumir sögðu að ég ætti að vera fegin, því nú muni ég aldrei þurfa að mæta honum aftur. Aðrir sögðu að þetta væri besti dómurinn sem hann hefði getað fengið, að deyja. En mér leið ekki þannig. Ég vildi klára málið. Ég vildi mæta fyrir dóm og segja honum hvernig mér væri búið að líða og segja frá minni upplifun. Segja honum hvað hann hefði í raun og veru tekið mikið frá mér.“
5 Laus við óttann
Fyrr í þessum mánuði steig Helena Rut Ólafsdóttir fram í viðtali við Stundina og sagði frá því hvernig hún lifði af gróft líkamlegt ofbeldi föður síns til margra ára. Málið vakti mikinn óhug á sínum tíma en aldrei hafði fallið þyngri dómur í barnaverndarmáli á Íslandi.
„Hann hótaði okkur stöðugt lífláti og ég var alltaf hrædd um líf mitt,“ segir Helena. „Ég vissi ekki hvort ég yrði til á morgun eða daginn þar á eftir. Þess vegna þorði ég aldrei að segja neitt, ég var svo hrædd.“
6 „Við ætlum ekki að leyfa honum að vinna“
Mikil reiði blossaði upp snemma í sumar þegar í ljós kom í ljós að Robert Downey, margdæmdur barnaníðingur, hefði fengið uppreist æru. Í kjölfarið steig Nína Rún Bergsdóttir, einn brotaþola hans, fram í viðtali í Stundinni ásamt foreldrum sínum þar sem þau greindu frá áhrifunum sem brotin höfðu á fjölskylduna.
„Það er eins og áfallið sé komið aftur og líkaminn fer ósjálfrátt í ástandið sem hann var í þegar ég var fjórtán ára gömul,“ sagði Nína Rún.
7 Sjálfboðaliði ósáttur eftir leynilegt ástarsamband við sjötugan stjórnarformann Sólheima
Selma Özgen, fyrrverandi sjálfboðaliði á Sólheimum, steig fram í viðtali við Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur á árinu. Selma átti í ástarsambandi við stjórnarformann Sólheima, Pétur Sveinbjarnarson, sem er 42 árum eldri en hún. Mikið valdamisvægi var á milli þeirra tveggja og segir Selma að hún hafi fengið þau skilaboð að hún yrði látin fara frá Sólheimum ef hún tjáði sig um sambandið, en hún var háð Sólheimum með landvistarleyfi.
„Þetta var það mál sem mig langaði helst að segja frá, því það lá á mér, en Pétur sagði alltaf: Ef einhver fréttir af okkur, þá verður þú látin fara frá Sólheimum,“ sagði hún meðal annars. Þess má geta að Pétur hætti sem stjórnarformaður Sólheima stuttu eftir umfjöllunina.
8 „Mér fannst erfitt að bera þessa skömm“
Esther Ýr Steinarsdóttir sagði frá því í viðtali hvernig það var að vera barn fanga, en móðir hennar var handtekin fyrir fíkniefnasmygl þegar Esther var í tíunda bekk. „Mamma hamraði á því að þetta hefði ekkert með mig að gera. Ég ætti ekki þessa skömm, enginn hefði rétt á því að dæma mig út frá því sem hún gerði. Líklega hjálpuðu þessi skilaboð til lengri tíma litið en það tók mig tíma að tengja við það. Hún kenndi mér líka að það skiptir engu máli hvernig fólk dæmir mig því ef ég er ekki það sem sagt er nær það ekki lengra. Sem er satt, svo lengi sem þú brotnar ekki undan umtalinu getur þú hafið þig upp yfir það.“
9 „Mér fannst lítið gert úr minni upplifun“
Halla Ólöf Jónsdóttir er einnig einn brotaþola Roberts Downey, sem fékk lögmannsréttindi sín á ný á þessu ári eftir að hafa fengið uppreist æru. Robert var dæmdur fyrir brotin gegn Höllu nokkrum árum eftir að hafa verið dæmdur fyrir brot gegn fjórum öðrum stúlkum. Honum var hins vegar ekki gerð nein refsing fyrir að brjóta á Höllu.
„Að vissu leyti var ég fegin að þetta hefði farið í gegn,“ segir Halla. „Í því fólst ákveðin viðurkenning á því að hann hefði brotið á mér og að það hafi verið nóg af sönnunargögnum til þess að sakfella hann. En mér fannst þetta ekki sanngjarn dómur. Mér fannst lítið gert úr minni upplifun og hafði það alltaf á tilfinningunni að verið væri að taka hans hagsmuni fram yfir mína.“
10 Útlendingastofnun rekur fórnarlamb mansals úr landi
Stundin ræddi við ung nígerísk hjón í sumar, Sunday og Joy, en þeim hafði verið gert að yfirgefa landið ásamt sjö ára dóttur þeirra, Mary. Joy er fórnarlamb mansal og Sunday hraktist frá heimalandinu vegna pólitískra ofsókna, en engu að síður stóð til að senda þau aftur til Nígeríu.
„Ef þið viljið ekki hafa mig hér á landi gefið þá dóttur minni, Mary, tækifæri, Hún er ekki fædd né uppalin í Nígeríu. Hún er fædd á Ítalíu og er núna hamingjusöm því hún sækir skóla hér á Íslandi og er farin að tala íslensku. Ég er svo stoltur af henni. Allt sem ég geri í dag geri ég fyrir dóttur mína. Okkar bíður dauðinn í Nígeríu og ég get ekki leyft því að gerast,“ sagði Sunday í viðtali við Stundina.
Þess má geta að fjölskyldan er nú komin með dvalarleyfi hér á landi eftir að Alþingi samþykkti í haust lög til bráðabirgða sem gerðu fjölskyldum í þeirra stöðu kleift að fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Athugasemdir