„Ég leit á hann sem kærastann minn. Ég hafði prentað út myndina sem hann sendi mér af sér og var alltaf með hana í veskinu mínu. Ég sýndi vinkonum mínum myndina og laug því að við hefðum hist. En í hvert skipti sem ég sá tækifæri til þess að hitta hann, þegar ég fór til Reykjavíkur að keppa í handbolta eða í skólaferðalag, sagðist hann ekki geta hitt mig. Eitt sinn fór ég að heimilisfanginu sem hann gaf mér upp þegar ég var stödd í Reykjavík en komst þá að því að það var ekkert hús með þessu númeri í götunni. Þetta virðist hafa verið útpælt.“
Þetta segir Halla Ólöf Jónsdóttir um samskipti sín við „Rikka“ á árunum 2001 til 2006, en Rikki var dulnefnið sem Róbert Árni Hreiðarsson lögmaður notaði til þess að þykjast vera unglingsstrákur í þeim tilgangi að tæla til sín stúlkur. Hann var á sextugsaldri.
Ári eftir að samskiptum Höllu og Rikka lauk var Róbert Árni dæmdur fyrir að tæla og brjóta kynferðislega á fjórum unglingsstelpum á aldrinum 14 til 15 ára. Í kjölfarið lagði Halla Ólöf einnig fram kæru gegn honum og þrátt fyrir að hafa verið sakfelldur var fangelsisdómur hans ekki þyngdur.
Þráði að eiga kærasta
„Ég fékk tölvu í fermingargjöf árið 2001 og stuttu síðar hafði Rikki samband við mig í gegnum „Ircið“, en þetta var fyrir tíma MSN,“ rifjar Halla upp, en síðar áttu samskiptin eftir að færast yfir á samskiptaforritið MSN. Hún segir þau hafa skipst á myndum og hún hafi meðal annars sent honum nýlega fermingarmynd af sér. Halla bjó á Akureyri, en Rikki sagðist eiga heima í Reykjavík, og því kom ekkert annað en fjarsamband til greina.
Athugasemdir