1 Byrjaði á Ircinu
Róbert Árni Hreiðarsson byrjaði að tæla til sín unglingsstúlkur í gegnum „Ircið“, en færði sig yfir á samskiptaforritið MSN þegar það náði yfirhöndinni meðal unglinga. Halla Ólöf Jónsdóttir segir hann hafa nálgast sig á „Ircinu“ fljótlega eftir að hún fermdist, árið 2001. Róbert var þá 55 ára.
2 Peningar í veski unglingsstúlku komu upp um hann
Upp komst um brot Róberts Árna haustið 2005 eftir að Bergur Þór Ingólfsson og Eva Vala Guðjónsdóttir fundu 32 þúsund krónur í veski Nínu Rúnar Bergsdóttur, þá 14 ára. Hún viðurkenndi að lokum að hafa fengið peningana frá gömlum „barnaperra“ sem hafi greitt henni fyrir kynlíf.
3 335 kvenmannsnöfn í minnisbók
Við húsleit fundust meðal annars tveir farsímar, fjögur símkort og minnisbók sem innihélt 335 kvenmannsnöfn með ýmist eða bæði símanúmerum eða netföngum. Athygli vakti að við umrædd kvenmannsnöfn mátti víða sjá skráðar tölur sem lögregla taldi vísa á aldur stúlknanna.
4 Notaði nöfn sona sinna
Á bakhlið minnisbókarinnar voru þrjú karlmannsnöfn, Rikki, Árni og Robbi, og símanúmer við hvert nafn. Þetta eru nöfnin sem hann notaði til að blekkja og tæla stúlkurnar. Róbert Árni átti fimm syni. Sá elsti heitir Árni, næstelstur er Róbert, kallaður Robbi, og næst yngstur var Ríkharður, kallaður Rikki. Í tilfelli Höllu Ólafar notaði hann einnig bankareikning undir nafni og kennitölu Árna, sonar síns, til að leggja inn á hana pening.
5 Hélt áfram þrátt fyrir lögreglurannsókn
Róbert Árni hélt áfram að brjóta á stúlkum eftir að húsleit var gerð á heimili og vinnustað hans og honum varð kunnugt um að hann væri til rannsóknar vegna gruns um kynferðisbrot. Árið 2006 braut hann gegn þremur 15 ára stúlkum, einni allt að fimmtán sinnum.
6 Hélt lögmannsréttindunum og varði barnaníðinga
Róbert Árni hélt lögmannsréttindum sínum á meðan á rannsókn málsins stóð og eftir að ákæra hafði verið gefin út. Á þessu tímabili sinnti hann meðal annars réttargæslu í sakamálum og verjendastörfum í kynferðisbrotamálum. Sem verjandi meintra barnaníðinga fékk hann meðal annars að sitja yfirheyrslur yfir börnum í Barnahúsi.
7 Þótti þungur dómur
Í september 2007 var Róbert Árni dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn fjórum unglingsstúlkum. „Þetta var nú þungur dómur og allir sem töldu það“, sagði Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Róberts, um dóminn á dögunum.
8 Yfirheyrður einu og hálfu ári eftir kæru
Halla Ólöf Jónsdóttir, fimmta stúlkan, lagði fram kæru gegn Róberti Árna í nóvember 2007. Hann var ekki tekinn í skýrslutöku vegna málsins fyrr en í apríl 2009. Í dómnum segir að lögreglumaðurinn sem tók skýrsluna af honum hafi ekki náð á Róbert Árna fyrr þar sem hann hafi dvalið erlendis. Þess ber að geta að dómur Hæstaréttar í fyrra málinu féll í millitíðinni, í maí 2008, og Róbert Árni hóf afplánun í febrúar 2009.
9 Ekki gerð þyngri refsing
Þrátt fyrir að vera dæmdur var Róberti Árna ekki gerð refsing í máli Höllu Ólafar. Rökin voru þau að refsing hans hefði ekki orðið þyngri ef mál Höllu hefði verið dæmt með í máli hinna stúlknanna. Halla fékk hins vegar greiddar 300 þúsund krónur í miskabætur. Mál Höllu sýndi að Róbert var byrjaður að blekkja og tæla unglingsstúlkur mun fyrr en áður var talið.
10 Engin ábyrgð
Róbert Árni, nú Robert Downey, hefur aldrei tekið ábyrgð á brotunum og aldrei viðurkennt að hafa gert neitt rangt. Hann hefur nú fengið uppreist æru, en enginn vill bera ábyrgð á þeirri ákvörðun. Guðni Th. Jóhannesson forseti segir ákvörðunina liggja hjá ráðuneytinu og Bjarni Benediktsson, sem þá var settur innanríkisráðherra, segist ekki hafa haft neina aðkomu að málinu.
Nánar er fjallað um mál Roberts Downey í 50. tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag.
Athugasemdir