Selma Özgen er frá Tyrklandi en þar á hún engan að, hvorki foreldra, aðra fjölskyldu né nokkurt fjárhagslegt bakland. Þegar hún fluttist til Íslands fyrir rétt um þremur árum var hún 27 ára, háskólamenntuð í markaðsfræði og almannatengslum og var gagngert hingað komin til að taka að sér sjálfboðaliðastarf hjá Sólheimum. Hún var spennt fyrir nýju verkefni, enda ævintýragjörn og full löngunar til að kynnast nýju fólki og aðstæðum. Hún hafði kynnst Sólheimum í gegnum sjálfboðaliðasíðu í Tyrklandi. Hún sótti um, var kölluð í símaviðtal og í kjölfar þess boðin velkomin til starfa á Sólheimum. Sjö mánuðum síðar lenti hún á Íslandi.
Margt þótti Selmu gott á Sólheimum en hún sá þó fljótlega að sú glansmynd sem hún hafði gert sér í hugarlund af starfinu þar var að sumu leyti kámug. Þegar hún frétti af því að annar sjálfboðaliði á staðnum, Maylis Galibert frá Frakklandi, væri að undirbúa gerð könnunar og í kjölfar þess skýrslu frá sjálfboðaliðum á staðnum, tók hún glöð þátt í því að segja frá því sem henni þótti betur mega fara. Í skýrslunni, þar sem birtar eru sögur fjölda sjálfboðaliða, kemur meðal annars fram að húsnæði sjálfboðaliða sé óboðlegt, ekki sé tekið tillit til sjónarmiða sjálfboðaliða og þeim skipað fyrir. Verslunin á staðnum sé dýr og erfitt fyrir sjálfboðaliða að komast í ódýrari verslanir, þar sem þeim séu engar samgöngur tryggðar af staðnum. Flestir höfðu eitthvað við framkvæmd sjálfboðaliðastarfsins á staðnum að athuga og voru sammála um að gagnrýni þeirra næði ekki eyrum stjórnenda.
Selma gat tekið undir flest það sem aðrir sjálfboðaliðar kvörtuðu undan en það sem olli henni mestu hugarangri var af öðrum toga. Fljótlega eftir að hún kom á Sólheima hafði hún nefnilega hafið ástarsamband við stjórnarformann Sólheima, Pétur Sveinbjarnarson, sem þá var 69 ára, 42 árum eldri en hún, auk þess að gegna stöðu stjórnarformanns á staðnum. „Þetta var það mál sem mig langaði helst að segja frá, því það lá á mér, en Pétur sagði alltaf: Ef einhver fréttir af okkur, þá verður þú látin fara frá Sólheimum,“ segir hún. Að fara frá Sólheimum jafngilti í hennar huga því að verða send úr landi, enda var landvistarleyfi hennar háð því að hún væri sjálfboðaliði þar.
Athugasemdir