Síðastliðið haust, nánar tiltekið 10. september 2015, fór réttindagæslumaður fatlaðra á Suðurlandi, Sigrún Jensey Sigurðardóttir, á fund réttindavaktar velferðarráðuneytisins og greindi frá ýmsum þáttum sem hún taldi vera ábótavant, er snertu réttindamál íbúa á Sólheimum í Grímsnesi. Ábendingarnar eru margar hverjar alvarlegar og varða lífsgæði þeirra 43 einstaklinga með fötlun sem eiga heimili á Sólheimum. Síðan eru liðnir sextán mánuðir og aðeins fátt af því sem athugasemdir voru gerðar við hefur breyst.
Listamenn með fötlun fái ekki greitt fyrir verk sín
Meðal þess sem fram kemur í bókun af fundi hans með réttindavaktinni er að allur póstur til fatlaðs fólks sé opnaður á skrifstofu framkvæmdastjóra og ákvörðun tekin um hvort hann fari til þess sem stílað var á. Þá þurfi allir íbúar Sólheima að borga í mötuneyti staðarins, hvort sem þeir nýti sér þjónustu þess eða ekki. Auk þess sé þjónustan undirmönnuð, fagmenntun takmörkuð og þar fari fram rafræn vöktun í einkarými án heimildar heimilisfólks.
Gerðar voru athugasemdir við ýmsar aðstæður á svæðinu. Meðal annars séu göngustígar með rauðamöl ófærir hjólastólum. Sumt af því húsnæði sem fólkið búi í sé óhentugt. Til dæmis búi sex íbúar í einu húsi, þar sem hver um sig hafi lítið herbergi og aðeins eitt salerni sé fyrir alla. Í öðru húsi búi tíu einstaklingar, þrátt fyrir að hámark íbúa samkvæmt reglugerð sé sex. Þá er bent á að lítil sem engin akstursþjónusta standi íbúum til boða, sem geri það meðal annars að verkum að íbúar komist sjaldan í lágvöruverðsverslanir og þurfi að kaupa sínar nauðsynjavörur í verslun sem rekin er af Sólheimum.
Margir listamenn búa á Sólheimum, enda er eitt af því sem einkennir starfið sú mikla listræna sköpun sem þar fer fram. Í bókuninni kemur fram að of lág vinnulaun séu greidd fötluðum einstaklingum og fatlaðir myndlistarmenn fái ekki greitt fyrir verk sín. Sannreyna þurfi hvort greiðslur frá hinu opinbera sem renna eigi til þjónustunnar skili sér þangað.
Athugasemdir