Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur að það hafi verið „slæm ráðstöfun“ að veita albönskum fjölskyldum með langveik börn ríkisborgararétt á Íslandi árið 2015. Íslendingar þurfi að beita ströngum reglum til að tryggja að „við fáum ekki yfir okkur milljón flóttamenn“, jafnvel taka upp kerfi þar sem fólki sé ekki hleypt inn í landið án vegabréfsáritunar.
Þetta er haft eftir Bjarna í frásögn Morgunblaðsins af fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna sem fram fór í Valhöll í gær, en þar sat forsætisráðherra fyrir svörum. Bjarni mun hafa sagt að lögreglan hætti sér ekki óvopnuð í Víðines þar sem fjöldi hælisleitenda biði úrlausnar sinna mála. Rétt er þó að taka fram að nokkrir mánuðir eru síðan aðstöðu Útlendingastofnunar á Víðinesi var lokað. Bjarni sagði erfitt að horfa á eftir miklum fjármunum sem varið væri til hælisleitendamála. Engu að síður þyrfti að virða mannúðarsjónarmið og mannréttindi.
„Það var slæm ráðstöfun að fara ríkisborgaraleiðina í Albaníumálinu. Það má kannski segja að við höfum með einhverjum hætti misst stjórn á því máli sem endaði svona,“ sagði Bjarni um þá ákvörðun Alþingis að veita Pepaj-fjölskyldunni og Phellumb-fjölskyldunni ríkisborgararétt í desember 2015. Mál fjölskyldnanna höfðu vakið mikla athygli, ekki síst vegna yngstu fjölskyldumeðlimanna, Kevin litla sem glímir við ólæknandi slímseigjusjúkdóm og Arjans sem er með hjartagalla.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefur hert verulega á stefnu Íslands í hælisleitendamálum frá því hún tók við í janúar, meðal annars með því að svipta tiltekna hópa hælisleitenda réttinum til að fá réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um brottvísun frestað vegna kæru til æðra stjórnvalds eða dómstóla og með því að svipta hælisleitendur réttinum til framfærslufjár eftir að hælisumsóknum þeirra er synjað og þeir bíða þess að vera sendir úr landi. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur lýst stefnunni sem svo að mæta eigi ákveðnum hópi hælisleitenda með „hörðum stálhnefa“.
Athugasemdir