Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Lögreglan fjarlægði albönsku fjölskylduna

Fjög­urra manna fjöl­skylda var fjar­lægð af heim­ili sínu í Barma­hlíð í nótt svo flytja mætti hana úr landi. Börn­in tvö sváfu með úr­klippu­bæk­ur af leik­skól­an­um á nátt­borð­inu síð­ustu nótt sína á Ís­landi.

„Mamma, gerðu það, ekki gráta,“ endurtók Klea litla, fimm ára, við móður sína þar sem þær sátu í sófanum heima hjá sér í Barmahlíð í Reykjavík í nótt og biðu þess að lögreglan kæmi.

Eins og stóð til í gær kom lögreglan og sótti albanska fjölskyldu um eitt í nótt og fór með hana á Keflavíkurflugvöll í þeim tilgangi að flytja hana úr landi til að fullnusta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Á útleið
Á útleið Kevin heldur á tuskudýri við útidyrnar. Þetta var gjöf frá nýjum vini á Íslandi.

Maðurinn, Kastriot Pepaj, flutti til Íslands með fjölskyldunni til að forðast hefndir glæpagengis, eftir að hafa verið skotinn í höndina, og til að nálgast lyf og læknishjálp fyrir son sinn.

Klea litla kvaddi leikskólann í dag. Kennarinn grét og hún líka þegar hún kom heim. Henni leið vel þar, eins og þriggja ára bróður hennar, Kevin, sem glímir við slímseigjusjúkdóm. Á hverjum morgni talaði hann um það hvað hann hlakkaði til að fara í skólann. Núna sagðist hann vera stressaður. Hann vissi ekki hvað var að gerast. Foreldrar hans reyndu að svæfa hann fyrr í kvöld, því börnin fara vanalega að sofa klukkan níu, en hann þorði ekki að sofna. „Ef ég sofna þá fljúga mamma, pabbi og systir mín í burt frá mér. Þá fara þau til Albaníu án mín,“ sagði hann.

„Staðan er sú að það er að koma lögreglubíll til þeirra klukkan eitt í nótt og skutlar á Keflarvíkurvöll,“ sagði Hermann Ragnarsson, yfirmaður og félagi fjölskylduföðurins Kastriots, í gærkvöldi, þegar öll von virtist vera úti um að forða mætti brottflutningi fjölskyldunnar. Hermann hafði hjálpað Kastriot að koma undir sig fótunum á Íslandi, að eignast bíl og fá leikskólapláss fyrir börnin, svo eitthvað sé nefnt. En Hermann hafði ekki rétt fyrir sér, því lögreglan kom ekki á bíl, heldur rútu. Það stóð nefnilega til að flytja fleiri hælisleitendur úr landi í sömu ferð.

Lögreglan komin
Lögreglan komin Fjölskyldan frétti í gærdag að lögreglan kæmi klukkan eitt um nóttina og var þá of seint að bregðast við.

Hermann lýsti því að börnin vildu ekki fara að sofa í gær án þess að hafa úrklippubækur um líf þeirra á leikskólanum sér við hlið. Bækurnar eru litlar, hnýttar saman og plastaðar. Í þær er skrifaður texti um það sem þau hafa upplifað og límdar myndir sem sýna þau með öðrum börnum, leika sér í snjónum, leira og fleira. Þær lágu því á náttborðum barnanna síðustu nótt þeirra á Íslandi. „Þau vildu ekki fara að sofa nema að hafa þessar litlu bækur hjá sér. Minningarnar frá Íslandi. Rosalegt,“ sagði hann.

„Ég er búin að gráta í þrjá daga“

„Þetta er sorglegt ástand. Af því að hann er sjálfbær, hann er ekki að biðja um aðstoð. Þarf enga aðstoð frá opinberum aðilum og leigir sína íbúð sjálfur. Vildi bara vinna, borga sína skatta og lifa friðsælu lífi,“ sagði Hermann, sem er eigandi Meistaramúrs, þar sem Kastriot hefur starfað.

Ekki náðist í Ólöfu Nordal innanríkisráðherra gærkvöldi til að spyrja hana hvort til greina kæmi að stöðva brottvísun fjölskyldunnar áður en hún yrði að veruleika. Fordæmi eru fyrir því, en einnig er unnt að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

„Ég er búin að gráta í þrjá daga,“ sagði Xhulia, móðirin, þar sem hún beið lögreglunnar. „Ég er öll orðin grátbólgin og þrútin,“ sagði hún og brosti afsakandi. Dóttir hennar bað hana áfram að gráta ekki.

Farangurinn borinn
Farangurinn borinn Lögreglumenn flytja eigur fjölskyldunnar í rútuna.
Ferðin á flugvöllinn
Ferðin á flugvöllinn Lögreglan kom með rútu, þar sem flytja átti fleiri fjölskyldur úr landi í nótt.

Bless Ísland
Bless Ísland Kevin kveður heimili sitt og heldur í lögreglufylgd á Keflavíkurflugvöll.

Á meðal annarra sem flytja átti úr landi í dag voru hjón með þriggja ára dóttur og ársgamlan son með hjartagalla.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár