Einhvern veginn vissum við allan tímann að þetta væri að koma. Íslandsbanki yrði seldur úr okkar eigu og að umboðsmaður okkar í ferlinu er með vafasaman feril í bankanum.
Síðustu ár hefur Íslandsbanki virkað sem vel og sæmilega samviskusamlega rekinn banki. Frjálshyggjukenningin um að ríkið sé lélegra en einkaaðilar í að reka fyrirtæki afsannaðist á sinn hátt með góðum rekstri og afkomu og þrátt fyrir vafasöm atvik á tímabili þegar starfsmenn keyptu eign bankans og högnuðust verulega.
Íslandsbanki hefur verið leiðandi í sjálfbærnisstefnu, hefur meira að segja hrist upp í þjóðfélagsumræðunni með því að taka upp viðmið kynjajafnréttis í innkaupum. Eftir allt saman er hann banki og græddi tæpa 24 milljarða í fyrra sem var þó gróði okkar allra. Raunar var hagnaður Íslandsbanka síðustu fjögur ár svipað mikill og söluverðið á 22,5% hlutnum, eða 50,4 milljarðar króna hagnaður gegn 52,7 milljarða söluvirði.
Misnotkunin í Glitni
Íslandsbanki síðustu ár er næstum andstæðan við bankann fyrir fimmtán árum, eða Glitni, eins og hann hét þá. Við höfum einstaklega nákvæmar upplýsingar um hvernig var misfarið með bankann vegna rannsókna sérstaks saksóknara, rannsóknarskýrslu Alþingis og leka á Glitnisskjölunum svokölluðu, sem Stundin fjallaði um áratug síðar. Innan Glitnis birtist mynd af græðgi og örvæntingu við að bjarga sér, með flóknum fléttum og beinum eða óbeinum blekkingum.
Vafningur
Við getum nefnt Vafningsmálið, þar sem jú, Bjarni Benediktsson, nú fjármálaráðherra en þá ofurupplýstur þingmaður og fjárfestir í sama holdi, tók þátt í flókinni fléttu með pabba sínum, frænda og meðal annars Karli Wernerssyni, sem er nú til rannsóknar hjá héraðssaksóknara fyrir að selja syni sínum Lyf og heilsu á slikk. Fléttan snerist um að veðsetja hlutabréf í félaginu Vafningi ehf. til að útvega lán, svo forðast mætti veðkall bandaríska fjárfestingabankans Morgan Stanley. Þannig tók Glitnir að sér að fjármagna hlutabréf upp á 20 milljarða króna. Málið endaði fyrir dómstólum en sýknað var fyrir Hæstarétti. Bjarni sagðist fyrir dómi ekki hafa vitað hvað hann væri að undirrita þegar hann skrifaði undir veðskjöl í fléttunni. En fyrir einhverja forsjón fóru hann og faðir hans, Benedikt Sveinsson, að selja hlutabréfin sín eftir að hafa tekið þátt í fléttunni og eftir að hafa átt upplýsandi fund sem þingmaður með bankastjóranum.
Stím
Við getum tekið Stímmálið, þar sem skuggastjórnandinn Jón Ásgeir Jóhannesson „var á djöflamergnum“ að reyna að ýta í gang viðskiptafléttu sem breytti útlánum Glitnis í hlutafé, og hélt þannig uppi hlutabréfaverðinu, með því að lána 20 milljarða króna til hlutafjárkaupa. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hætti við að taka þátt í fléttunni, meðal annars af því að aðrir hættu við. Sjálfur varð hann stjórnarformaður Glitnis skömmu síðar. Lánið fór á endanum til Jakobs Valgeirs Flosasonar útgerðarmanns oG fleiri aðila. Jón Ásgeir kannaðist síðan ekkert við sinn þátt í planinu, en forstjóri bankans, sem gögn sýna að laut stöðugum afskiptum Jóns Ásgeirs, var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir málið.
Innherjar selja
Við getum talað um aðdragandann að hruninu sjálfu, þegar starfsfólk bankans var að selja bréf tengd honum á meðan almenningur var fullvissaður um að bankinn stæði sterkur. Starfsmenn og millistjórnendur Glitnis forðuðu á þriðja hundrað milljóna úr hinum vafasama Sjóði 9 áður en tilkynnt var um yfirtöku ríkisins á bankanum. Sama dag og stjórnarformaðurinn, Þorsteinn Már Baldvinsson, fundaði með seðlabankastjóra, seldi framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu Glitnis, tæpar 97 milljónir króna úr Sjóði 9, nokkrum dögum áður en fjölmargir viðskiptavinir deildarinnar sem hann stýrði, töpuðu háum fjárhæðum. En hann var ekki sá eini forsjáli.
Bjarni á næturfundi
Þremur dögum eftir að Þorsteinn Már fundaði árangurslaust með seðlabankastjóra átti sér stað næturfundur í Stoðum, áður þekktu sem FL Group, þar sem Jón Sigurðsson forstjóri var gestgjafinn. Þetta var nóttina áður en Glitnir var þjóðnýttur að 75% leyti með fjármagni almennings, í tilraun til að losa bankann úr snörunni sem hafði verið þrædd utan um hann með allri skuldsetningunni og krosstengslunum.
Upplýsingar um næturfundinn komu fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, skýrslu sem var reyndar alltof dýr í vinnslu, að mati Sjálfstæðismanna á sínum tíma.
Skýrslan lýsir því að viðskiptaráðherra og aðstoðarmaður hans hefðu verið „boðaðir til fundar við Þorstein Má Baldvinsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörgu Pálmadóttur. Þar voru einnig staddir nokkrir stjórnarmenn í Glitni auk Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða,“ segir orðrétt í rannsóknarskýrslunni. „Loks voru þar staddir,“ heldur svo áfram í skýrslunni, tveir þingmenn. Annar þeirra var Bjarni Benediktsson og hinn nánasti bandamaður hans á þingi, sem var orðinn stjórnarmaður í Sjóði 9.
Sjóður 9 átti eftir að verða frægur því fólki hafði verið selt að hann væri áhættulítill, en hann hafði meðal annars meiri áhættu bundna í Stoðum en kynnt var, nánar tiltekið skulduðu Stoðir honum 18 milljarða króna (30 milljarðar í dag). Þetta vissu fáir, en einn þeirra sem vissu það voru Bjarni Benediktsson þingmaður, sem var á næturfundinum í Stoðum, þar sem til umræðu var þjóðnýting á Glitni vegna bágrar stöðu bankans.
Á fundinum kom fram að aðgerð ríkisins væri „gríðarlega alvarleg“, sem þýddi auðvitað að verðmæti eigenda myndu glatast. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem kom í ljós hversu vel að sér Bjarni og fjölskylda hans höfðu verið. Enda virðist hann hafa „verið staddur“ á flestum lykilstöðum í atburðarásinni, lykilmaðurinn í bankasölunni þessum 15 árum síðar.
Bjarni og faðir selja
Árið 2016 kom loksins í fram vegna gagnaleka úr Glitni að pabbi Bjarna, Benedikt Sveinsson, hefði selt fyrir 500 milljónir króna í Sjóði 9: „Úttekt úr safni – millif[ært]. til Flórída“ var skýringin við færslu Benedikts Sveinssonar á 400 milljónum króna úr Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans, sem forsætisráðherra hafði kynnt að myndi afstýra hruni bankans og búa til fjárhagslegan ávinning. Restina seldi Benedikt tveimur dögum eftir næturfundinn. Bjarni sjálfur seldi síðan allt sitt í Sjóði 9 dagana eftir næturfundinn, 50 milljónir króna, og tók síðasta salan gildi sama dag og neyðarlög voru sett yfir bankakerfið, þegar ljóst var orðið að þjóðnýting Glitnis myndi ekki nægja. Föðurbróðir Bjarna náði að selja í sjóði 9 fyrir 1,2 milljarða króna tveimur tímum fyrir lokun markaða á degi neyðarlaganna. Þannig forðuðu þeir sér frá 20% tapi á þessum upphæðum og þeir sem komu peningunum út græddu á gengishruni krónunnar og fengu síðan tækifæri til að koma til baka með peningana til Íslands með krónukaupum á afslætti með hjálp Seðlabankans.
Bjarni selur hlutabréfin eftir fund með bankastjóra
Við getum farið lengra aftur í tímann, löngu áður en Bjarni, faðir og frændi seldu í sjóði 9. Þegar hann missti trú á hlutabréfum í bankanum - af tilteknum ástæðum.
Bjarni átti fund með Lárusi Welding, forstjóra Glitnis, sem þingmaður, þann 19. febrúar 2008 um stöðu bankans. Dagana á eftir, 21. til 27. febrúar, seldi Bjarni svo hlutabréf sín í Glitni fyrir rúmlega 119 milljónir króna og pabbi hans fyrir 850 milljónir króna. Bjarni hélt áfram að hitta forstjóra Glitnis, meðal annars „fyrir austan“ sumarið 2008 og bað hann í einum tölvupóstinum að „fara yfir stöðuna reglulega“.
Bjarni leystur undan sjálfsábyrgð
1. febrúar hafði Bjarni verið losaður undan persónulegri ábyrgð á 50 milljóna kúluláni sem hann hafði tekið persónulega hjá Glitni og skuldin færð yfir á eignarhaldsfélag föður hans, Hafsilfurs ehf. Sama eignarhaldsfélag er í umræðunni í dag því það fékk að kaupa í Íslandsbanka af ríkinu. Kúlulánið hafði verið hluti af tveggja milljarða króna pakka frá Glitni til fjölskyldu Bjarna til að kaupa olíufélagið N1 2006.
Bjarni var sannarlega alls staðar, en oft þegar hann hefur verið spurður um lykilatriði segist hann ekki hafa vitað neitt um málin.
Bjarni gaukar upplýsingum að Glitni
Bjarni vissi þó ýmislegt og hann gaukaði upplýsingum til stjórnanda innan Glitnis um að Fjármálaeftirlitið væri „á skrilljón“ í titeknu máli, sem fékk stjórnendur til að athuga hvort einhver væri að ræða við forstjóra eftirlitsins.
Bjarni velur stuðningsmann yfir Bankasýsluna
Allir þeir sem hafa verið nefndir með nafni hér í greininni fram að þessu, fyrir utan auðvitað Bjarna Benediktsson, voru valdir til að kaupa í Íslandsbanka á 4,3% afslætti af ríkinu kvöldið 22. mars síðastliðinn í útboði til „fagfjárfesta“, á óformlegum lista sem innihélt meðal annars starfsmenn fyrirtækjanna sem fengu 700 milljónir króna söluþóknun fyrir vinnuna þetta kvöld.
Þegar íslenska ríkið byrjaði að selja Íslandsbanka, sem reis upp úr rústum Glitnis, lá fyrir að Bjarni Benediktsson hefði mest áhrif á hvernig það yrði gert. Bankasýsla ríkisins sér um söluna og Bjarni skipar í stjórn hennar.
„Gagnrýnin byggist á gróusögum“
Stjórnarformaður Bankasýslunnar er náinn bandamaður Bjarna og ekki aðeins yfirlýstur aðdáandi hans heldur andstæðingur þeirra sem hafa gagnrýnt aðkomu hans að fjármálalífinu. Árið 2013 skrifaði stjórnarformaðurinn greinina „Formaður Sjálfstæðisflokksins“ til stuðnings Bjarna og öllum hans athöfnum á mörkum viðskipta og stjórnmála. „Bjarni Benediktsson hefur setið undir nokkurri gagnrýni á sinni formannstíð, eins og títt er um stjórnmálamenn. Sú gagnrýni hefur hins vegar að stórum hluta verið ómálefnaleg þannig að um hana hefur ekki verið hægt að ræða og leiða með þeim hætti til lykta. Gagnrýnin byggist á gróusögum sem búið er að sannreyna að eiga sér enga stoð í veruleikanum. Bjarni er hvorki grunaður né sakaður um nokkuð sem getur talist ólögmætt í hans störfum. Þvert á móti býr hann yfir þeim kostum, að hafa tekið þátt í atvinnulífinu og kynnst gangverki þess á uppgangstímum og síðar í hruninu sem er greypt í huga okkar allra.“
Þannig lá fyrir að gildismat formanns Bankasýslunnar byggði í slíkum tilvikum á því að það sem bryti ekki lög væri í lagi. Hann taldi meðmæli með Bjarna vera að hann hefði rekið fyrirtæki vel. Það getur verið, en afskriftir vegna fyrirtækja sem Bjarni kom nálægt því að stýra voru samtals 130 milljarðar króna. Það gerir yfir 200 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag. Það er næstum allt söluverð Íslandsbanka ef hann yrði allur seldur á sama verði og síðast.
Annar af þremur stjórnarmönnum bankasýslunnar er síðan fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur líka tekið afgerandi afstöðu með Bjarna um umræðu um sömu mál.
Þannig að það sé skýrt: Bjarni Benediktsson skipaði alla stjórn Bankasýslunnar sem útfærði síðan söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Eftir söluna kom upp gagnrýni á að listanum yfir kaupendur yrði haldið leyndum. Í umræðunni virtist Bjarni vera ósammála stjórninni sem hann skipaði, en tók síðan að sér að birta listann.
2,25 milljarðar króna í afslátt
Afslátturinn af bréfum í Íslandsbanka nam samtals 2,25 milljörðum. Um 700 milljónir króna af afslættinum fór til einkaaðila, í reynd sem gjöf til þeirra frá okkur hinum. Einn fjárfestirinn, Jakob Valgeir Flosason, hefur þegar undrast að svo mikill afsláttur hafi verið gefinn.
Við höfum oft heyrt stjórnmálamenn ræða um niðurskurð til að ná 700 milljónum króna, en þarna voru þær gefnar. Um 700 milljónir til viðbótar fóru í kostnað við söluna.
Meðal þeirra sem fengu afsláttinn eru starfsmenn og eigendur fyrirtækjanna sem fengin voru til að selja Íslandsbanka.
Aðrir voru smáir fjárfestar, eins og uppistandarinn og athafnamaðurinn Björn Bragi Arnarson, sem keypti í gegnum félagið Black Point. Félagið hefur tapað 6 milljónum á síðustu tveimur rekstrarárum og var aðeins með 239 þúsund krónur í tekjur 2020, en skuldar 88 milljónir króna. Kaupin í Íslandsbanka hafa þó komið með tæpar tvær milljónir í hagnað á móti tapi síðustu ára.
Getur staðist - baðst samt um að það yrði ekki
Bjarni svaraði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær, varðandi valið á föður hans sem kaupanda. „Ég auðvitað skil að það veki spurningar hjá fólki, en í ljósi þess að ég hef ekki komið með nokkrum hætti að því að ákveða úthlutun til einstakra aðila, heldur gilt um það almennar gegnsæjar reglur, þá finnst mér það alveg geta staðist skoðun.“ Gagnsæið var hins vegar ekki meira en svo að Bankasýslan neitaði að gefa upp hver hefði verið valinn til að kaupa. Og aðkoman auðvitað sú að hann valdi þá sem stýra Bankasýslunni.
Í dag hafði Bjarna snúist hugur um að þetta væri í lagi sagðist hafa beðið fjölskyldumeðlimi sína fyrirfram um að taka ekki þátt í útboðinu í Íslandsbanka.
„Fangar í fangelsi geti keypt hlutabréf“
Tvö félaganna sem voru valin til að kaupa eru til rannsóknar vegna efnahagsbrotamála. Bjarni sagði í viðtali við hádegisfréttir RÚV í gær að mikilvægt hafi verið að leita víða fanga til að tryggja að fleiri en bara lífeyrissjóðirnir keyptu hlut í bankanum. „Ég held að hin almennu lög á Íslandi geri ráð fyrir því að jafnvel fangar í fangelsi geti keypt hlutabréf,“ sagði Bjarni. Þá þótti honum mikilvægt að sakborningar hefðu réttindi og mættu kaupa hlutabréf eins og aðrir.
„... jafnvel fangar í fangelsi geti keypt hlutabréf“
Engum sögum fer þó af því að starfsmenn við útboð Íslandsbanka hafi hringt í fangelsi til að leita kaupenda að hlut ríkisins.
Bunginn út af peningum í útboði
Salan á Íslandsbanka var alltaf eins og hægfara lestarslys. Það má ræða um hvort ríkið eigi að eiga eða selja banka, jafnvel þótt Íslandsbanki hafi greitt 77 milljarða króna í arð til ríkisins árin 2016 til 2021 og virðist í óvenjulega heilbrigðum rekstri miðað við forsöguna.
Íslandsbanki er stútfullur af peningum. Hann ætlar að greiða 40 milljarða króna til viðbótar í arð á næstu eina eða tveimur árum. En það var ekki Bjarni sem ákvað að selja Íslandsbanka. Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, ásamt samflokksmönnum, samþykktu í stjórnarmyndunarviðræðum að selja bankann. Það byggði á Hvítbók um fjármálakerfið, sem lagði fyrstu áherslu á „heilbrigt eignarhald“ sem væri ekki of mikið á hendi ríkisins. „Heilbrigt eignarhald er lykilforsenda verðskuldaðs trausts,“ segir í Hvítbókinni.
Hins vegar er það útfærslan og þeir sem hafa yfirumsjón með henni. Við erum að glíma við skaðlega hvata. Bjarni Benediktsson hefur í raun hvata til að normalísera og gera eðlilegt allt það vafasama sem hann aðhafðist fyrir hrun. Söguþráðurinn sem gerir stjórnmálaþátttöku Bjarna og setu hans í fjármálaráðuneytinu mögulega er að hann hafi verið öflugur athafnamaður, sem gerði gott með því að koma víða við, en fjölmiðlar hafi dreift um hann ósanngjörnum gróusögum, eins og formaður Bankasýslunnar vísaði til. Siðferði eða almenningsálit eru ekki hluti af jöfnu Bjarna, og traust er það sama og að hafa ekki gert neitt ólöglegt, það er að segja svo sannað sé í því einstaka sinni sem um er rætt. Í dag sagði reyndar prófessor sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis að lög hafi verið brotin í útboðinu.
Maðurinn sem átti ekki að selja Íslandsbanka
Bjarni Benediktsson var sá kjörni fulltrúi á Íslandi sem síst af öllum hefði átt að hafa yfirumsjón með sölu á Íslandsbanka af framangreindum ástæðum, enda var hann inngróinn hluti af því óheilbrigða í starfsemi bankans fyrir hrun. Nú er hins vegar búið að selja 57,5% af hlut ríkisins í Íslandsbanka á 108 milljarða króna undir hans forræði. Miðað við góðan hagnað í fyrra, á kreppuári, tæki fjögur og hálft ár fyrir bankann að hagnast um söluverðið sem ríkið fékk. Framundan er sala á enn fleiri hlutum bankans, samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Til viðbótar hefur Bjarni Benediktsson lýst yfir vilja sínum til að selja meirihluta Landsbankans sem fyrst. Allt veltur það á því hversu mikið er eftir af meðvirkni okkar með Bjarna Benediktssyni og viljanum til að veita honum umboð til að setja umgjörð um ráðstöfun eigna okkar og uppbyggingu valdakerfisins.
Spurningin er hvort við kaupum það að stjórn Bankasýslunnar og fjármálaráðherra hafi dómgreind og hæfi til þess að sjá um afganginn af bankasölunni. Um leið hvort það þætti í lagi að endurskapa Glitni með lífeyrissjóðina sem meðeigendur, enda hafi nú fátt reynst beinlínis ólöglegt þar og þótt ólöglegt hafi verið, eigi dæmdir menn rétt á að eiga banka.
Við vissum að það myndi vinna gegn trausti við einkavæðingu banka að ráðherrann sem hefði yfirumsjón með henni hefði verið viðstaddur og viðriðinn vafasama viðskiptagjörninga í klíkuhagkerfi þess tíma. Við vitum núna betur að til að réttlæta óheilbrigða sögu og viðhalda valdastöðunni þurfti að skapa rúm fyrir óheilbrigðum viðhorfum sem móta niðurstöðuna.
---
Umfjallanir Stundarinnar um viðskipti Bjarna og annarra innherja með Glitni má sjá hér. Lögbann var sett á umfjöllunina haustið 2017. Umfjöllunin hélt síðan áfram eftir dóm Hæstaréttar um ólögmæti lögbannsins, 375 dögum eftir að það var lagt á.
Glitnir var með úthringilið á prósentum sem hringdi í þá sem áttu verulegar upphæðir á sparireikningi og bauð þeim "betri" ávöxtun. Það voru aðallega eldri borgarar sem voru blekktir.
Sagt var að launin væru 2%, 20 þúsund af hverri millifærðri milljón. Þýkja góð daglaun í dag, hvað þá fyrir hrun.
http://herdubreid.is/hinir-osnertanlegu/
"130 milljarðar voru afskrifaðir hjá fjölskyldufyrirtækjum Bjarna Benediktssonar"
"Benedikt Sveinsson tók yfir á annað hundrað milljónir af einkaskuldum sonar síns, meðal annars vegna veðmála"
"Í miðju Hruni var Bjarni ennþá að færa stórfé úr landi til að borga fyrir fasteignabrask á Flórida"
Síðar var Bjarni Ben gerður að fjármálaráðherra í þrígang !!!
„Hef ekki talað við mína ættingja vegna þessarar sölu“ (sala á x% Ríkisins í Íslandsbanka fyrir fáum dögum)
Og næsta dag segir hann:
„Hringdi í föður minn og bað hann um að kaupa ekki“ því fáránlegur afsláttur væri í boði!
Auðvita er hann einungis að hugsa um sína vini og vandamenn!?!?
Spilling á Íslandi?
Þetta með eftirmál sölunnar á Íslandsbanka ætti ekki að koma neinum á óvart. Það lá alla tíð fyrir í kortunum að þetta yrðu enn ein leiðindin.
Tragikómikin hinsvegar, ef karlinn pabbi Bjarna næði að fella aðra ríkisstjórn fyrir drengnum. (Í fyrra skiptið þá greiddi hann götu fyrir einhver pervert kunningja sinn, nú gat hann ekki setið á sér að ná sér í sleikju úr Íslandsbanka, án þessa að fjármálaráðherra vissi - hvað er þetta nú, strákurinn erfir þetta hvort eð er. Það er nú ekki ódauðlegt þetta lið þó það virðist halda það oft á tíðum.)
En sennilega er Katrín forsætisráðherra valdasæknari en "blessuð stjórnmálabörnin" í Bjartri framtíð, sem ekki vildu sitja í ríkisstjórn er heiðraði fortíðina og gömlu skálkana alveg blákalda og óbreytta, svo áfram verður þraukað, ekki betri innivinna í boði fyrir VG hlutann.