Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Innherjar seldu en almenningur var blekktur

Starfs­menn og mill­i­stjórn­end­ur Glitn­is forð­uðu á þriðja hundrað millj­óna úr Sjóði 9 áð­ur en til­kynnt var um yf­ir­töku rík­is­ins á bank­an­um. Fé­lag Ein­ars Sveins­son­ar, föð­ur­bróð­ur Bjarna Bene­dikts­son­ar, átti hins veg­ar lang­stærstu söl­una fyr­ir hrun og inn­leysti meira en millj­arð króna.

Lykilstarfsmenn í Glitni og millistjórnendur innleystu á þriðja hundrað milljóna króna úr Sjóði 9 dagana 24. til 26. september 2008 þegar aðeins örfáir höfðu vitneskju um þann stórkostlega fjármögnunarvanda sem bankinn stóð frammi fyrir. 

Úttektirnar áttu sér stað eftir að fjármálafyrirtækið Nordea hætti við að kaupa eignir Glitnis í Noregi og Bayerische Landesbank hafnaði framlengingu lána upp á 150 milljónir evra sem Glitnir átti að greiða um miðjan október. 

Hvort tveggja gerðist þann 23. september en það var ekki fyrr en 29. september sem tilkynnt var að ríkið hygðist leggja Glitni til hlutafé og bjarga honum þannig frá falli. 

Þær miklu úttektir sem áttu sér stað í millitíðinni af hálfu aðila sem tengdust Glitni vöktu sérstaka athygli rannsóknarnefndar Alþingis og skilanefndar Glitnis banka þegar farið var yfir bókhald bankans eftir hrun. Að sama skapi voru úttektir í októberbyrjun, skömmu áður en neyðarlögin voru sett, teknar til sérstakrar skoðunar. 

Fjármálaeftirlitið kærði fjölda mála til embættis sérstaks saksóknara í mars 2009 og taldi „nauðsynlegt [...] að upplýsa hverjir bjuggu yfir innherjaupplýsingum á þeim tíma sem um ræðir“. Ýmsar tilfærslur voru rannsakaðar en sárafá innherjasvikamál enduðu í ákæruferli og ekkert er varðaði Sjóð 9. Meginástæðan er sú að sönnunarstaðan er erfið í innherjamálum en auk þess voru stórtækari brot, svo sem markaðsmisnotkun og umboðssvik, í forgangi hjá sérstökum saksóknara. 

Engu að síður liggur fyrir að fjöldi Glitnisstarfsmanna kaus að losa sig við fjármuni úr Sjóði 9 þessa daga. Bæði í Rannsóknarskýrslu Alþingis og í skýrslu fyrirtækjasviðs KPMG sem unnin var fyrir skilanefnd Glitnis og Stundin hefur undir höndum, er bent á að starfsmenn og tengdir aðilar seldu hlutfallslega mikið úr Sjóði 9 og öðrum sambærilegum sjóðum dagana fyrir hrun.

Bjarni skilgreindur sem innherji

Kom fjármunum í varBjarni Benediktsson átti í stöðugu og nánu sambandi við Glitnismenn í aðdraganda hrunsins og náði, ásamt föður sínum og föðurbróður, að verja sig gegn tapi.

Einn þeirra almennu viðskiptamanna sem losuðu fé úr Sjóði 9 þessa örlagaríku daga var Bjarni Benediktsson, nú fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Á þeim tíma var hann þingmaður í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og því í hópi þeirra sem Fjármálaeftirlitið skilgreindi sem innherja þrátt fyrir að hann ynni ekki hjá bankanum. 

Eins og Stundin rakti í fyrra – og heldur nú áfram að fjalla um eftir að lögbann sýslumanns hefur í tvígang verið úrskurðað ólögmætt – varpa Glitnisgögnin skýru ljósi á það mikla og persónulega samband sem Bjarni átti við stjórnendur Glitnis fyrir hrun, á sama tíma og þeir stóðu í ströngu við að framlengja líf bankans. 

Í febrúarbyrjun 2008 tók Bjarni þátt í Vafningsfléttunni svokölluðu sem snerist um að flytja áhættuna á bak við stóran hluthafa Glitnis yfir á bankann sjálfan og koma í veg fyrir verðfall hlutabréfa til skamms tíma. 

Síðar í mánuðinum, þann 19. febrúar 2008, fundaði Bjarni með Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis, um stöðu bankans sem þingmaður. Dagana á eftir, frá 21. til 27. febrúar seldi svo Bjarni hlutabréf í Glitni fyrir rúmlega 119 milljónir. Um svipað leyti seldi faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, hlutabréf í bankanum fyrir samtals 850 milljónir.

Um sumarið 2008 þegar viðskiptabankarnir glímdu allir við lausafjárþurrð og voru farnir að reiða sig í síauknum mæli á skammtímaveðlán frá Seðlabankanum, áttu Bjarni Benediktsson og Lárus Welding samverustundir „fyrir austan“ samkvæmt tölvupóstssamskiptum sem Stundin hefur undir höndum.

Bjarni bað svo Lárus um að halda sambandi og „fara yfir stöðuna reglulega“ með sér í efnahagsmálum. Um þetta leyti vissu stjórnendur Glitnis að bankinn var kominn í talsverðar ógöngur og glímdi við lausafjárþurrð þrátt fyrir að Glitnir kæmi sæmilega út úr álagsprófi Fjármálaeftirlitsins þá í ágúst.

Geir vonaðist eftir fjárhagslegum ávinningi 

Bjarni sat neyðarfund í höfuðstöðvum Stoða, hjá stærsta hluthafa Glitnis, seint að sunnudagskvöldi 28. september, þar sem fram kom að staða Glitnis væri „gríðarlega alvarleg“.

Daginn eftir var tilkynnt um að ríkið ætlaði að leggja Glitni til hlutafé, og eflaust hafa margir andað léttar þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra lýsti því yfir að tekist hefði að afstýra hruni bankans og ríkið myndi jafnvel hafa „fjárhagslegan ávinning“ af yfirtökunni. 

Hvort Bjarni Benediktsson vissi betur þegar hann hófst handa við að innleysa fjármuni úr Sjóði 9 tveimur dögum síðar, þann 2. október 2008, er ómögulegt að fullyrða með nokkurri vissu. 

Haft var eftir Bjarna í fyrra að „allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma“. Raunin er hins vegar sú að í byrjun október var það engan veginn á almannavitorði að allt íslenska bankakerfið myndi hrynja til grunna og sett yrðu neyðarlög á Íslandi. 

Þann 1. október 2008 sagði Eggert Þór Kristófersson, framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis, í viðtali við RÚV, að lítið hefði verið um að fólk innleysti fjármuni úr peningamarkaðssjóðum. Samkvæmt skýrslunni sem fyrirtækjasvið KPMG vann fyrir skilanefnd Glitnis banka tóku hins vegar starfsmenn bankans hlutfallslega mikið af fjármunum út úr Sjóði 9 síðustu dagana í september og í byrjun október.

Millistjórnendur forðuðu sínu

Þann 24. september 2008 hafði Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, samband við Davíð Oddsson og óskaði eftir fundi með honum vegna þess mikla lausafjárvanda sem Glitnir glímdi við í ljósi ákvarðana Nordea og Bayerische Landesbank sem áður var getið um. 

Sama dag innleysti Jóhann Ómarsson, framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu Glitnis, tæpar 97 milljónir króna úr Sjóði 9. Nokkru síðar áttu fjölmargir viðskiptavinir deildarinnar sem Jóhann stýrði eftir að tapa háum fjárhæðum á Sjóði 9 í bankahruninu. Þrír aðrir starfsmenn bankans innleystu jafnframt öll eða flest hlutdeildarskírteini sín úr sjóðnum þennan dag.

Úttektirnar héldu áfram þann 25. september þegar fjórir starfsmenn Glitnis tóku út nær alla eign sína í Sjóði 9, þar á meðal Jón Garðar Guðmundsson, þá framkvæmdastjóri á alþjóðasviði Glitn­is. Einn starfsmaður innleysti 20,5 milljónir, en þrír starfsmenn tóku út smærri hluta af eign sinni í sjóðnum.

Seldu daginn eftir fund í Seðlabankanum

Þorsteinn Már Baldvinsson fundaði með Davíð Oddssyni í Seðlabankanum um hádegisleytið þennan dag auk þess sem Vilhelm Már Þorsteinsson, þáverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis og frændi Þorsteins Más, og Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, lögðu leið sína í Seðlabankann til að upplýsa um málefni bankans. 

Daginn þar á eftir, þann 26. september, innleystu báðir framkvæmdastjórarnir nær öll hlutdeildarskírteini sín úr Sjóði 9, Vilhelm eina milljón en Jóhannes alls 17,7 milljónir. 

Slíkt hið sama gerðu ellefu aðrir millistjórnendur og starfsmenn bankans. Þar á meðal voru Magnús Pálmi Örnólfsson, forstöðumaður gjaldeyrismiðlunar, sem innleysti 39,2 milljónir, og Birkir Kristinsson, viðskiptastjóri hjá eignastýringardeild, sem innleysti 30 milljónir sem félag hans BK 44 ehf. átti í sjóðnum og starfsmaðurinn Eiríkur S. Jóhannsson sem innleysti 40 milljónir.

Þrír starfsmenn sem tæmdu úr Sjóði 9 þann 26. september gegna í dag yfirmannsstöðu í Íslandsbanka og nokkrir eru stjórnendur í öðrum fyrirtækjum.

Félag Einars Sveinssonar innleysti mest úr sjóðum Glitnis

Þessa sömu daga innleystu Sjóvá-Almennar tryggingar, fyrirtæki nátengt Glitni, samtals 80 milljónir úr Sjóði 9 en alls innleysti Sjóvá um 500 milljónir úr sjóðum Glitnis á tímabilinu 1. september 2008 fram að hruni bankans. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Glitnisgögnin

Selur bankann sem fjölskyldan átti
Úttekt

Sel­ur bank­ann sem fjöl­skyld­an átti

Bjarni Bene­dikts­son upp­lýsti ekki um að­komu sína að fjár­fest­ing­um Eng­ey­inga á með­an hann sat á þingi í að­drag­anda hruns. Fjöl­skylda hans átti ráð­andi hlut í Ís­lands­banka sem lán­aði fé­lög­um þeirra tugi millj­arða króna og einnig Bjarna per­sónu­lega. Nú mæl­ir hann fyr­ir sölu rík­is­ins á hlut í bank­an­um. For­sag­an skað­ar traust, að mati sam­taka gegn spill­ingu.
Atburðarásin í aðdraganda hruns: Hvað vissum við og hvað vissu þeir?
Rannsókn

At­burða­rás­in í að­drag­anda hruns: Hvað viss­um við og hvað vissu þeir?

Þeg­ar erf­ið­leik­ar komu upp hjá Glitni og stór­um hlut­höf­um, fyrst í fe­brú­ar 2008 og svo í sept­em­ber, skipt­ist Bjarni Bene­dikts­son á upp­lýs­ing­um við stjórn­end­ur Glitn­is og sat fundi um stöðu bank­anna með­an hann sjálf­ur, fað­ir hans og föð­ur­bróð­ir komu gríð­ar­leg­um fjár­mun­um í var. Hér er far­ið yf­ir at­burða­rás­ina í máli og mynd­um.
Hæstiréttur veitir Glitni HoldCo áfrýjunarleyfi til að úrskurða hvort Stundin eigi að afhenda gögn
FréttirGlitnisgögnin

Hæstirétt­ur veit­ir Glitni HoldCo áfrýj­un­ar­leyfi til að úr­skurða hvort Stund­in eigi að af­henda gögn

Lög­bann­ið er fall­ið úr gildi en mál Glitn­is HoldCo gegn Stund­inni held­ur áfram fyr­ir Hæsta­rétti, sam­kvæmt ákvörð­un rétt­ar­ins. Hæstirétt­ur ætl­ar að fjalla um kröf­ur Glitn­is HoldCo þess efn­is að við­ur­kennt verði að Stund­inni sé óheim­ilt að byggja á Glitn­is­skjöl­un­um og beri að af­henda gögn­in.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu