Trúverðugleiki málsvarnar Samherja í mútumáli félagsins í Namibíu hefur beðið hnekki, þar sem gögn sýna að fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem Samherji sendi til Namibíu, ræddi við einn mútuþegann um sumarið 2019 um að halda peningaslóðinni hulinni fyrir yfirvöldum.
Þetta gerðist þremur árum eftir að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu og uppljóstrari í málinu, lét af störfum hjá Samherja. Útgerðarfélagið hefur haldið því fram í málsvörn sinni að Jóhannes Stefánsson hafi stýrt Namibíustarfseminni með vafasömum hætti og bendlað Samherja við mögulega misjafna hluti.
Gögnin, sem eru tölvupóstar frá Jóni Óttari til James Hatuikulipi sem nú situr í gæsluvarðhaldi grunaður um mútuþægni, birtast í greinargerð ríkissaksóknara Namibíu vegna mútumálsins sem tengist þarlendri starfsemi stærsta útgerðarfélags Íslands, Samherja. Greinargerðin tengist sex einstaklingum og er sett fram á grundvelli saksóknar vegna skipulagðrar glæpastarfsemi.
Fjallað er ítarlega um málið í Kveik á RÚV í kvöld og vísað í greinargerðina. Stundin hefur umrædda greinargerð einnig undir höndum.
Tölvupóstanir sýna opinbera einnig að Jón Óttar hefur verið ennþá meira viðriðinn Namibíustarfsemi Samherja og samskipti útgerðarfélagsins við hina grunuðu mútuþega en hingað til hefur verið talið og legið fyrir. Jón Óttar hefur meðal annars verið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna þess að hann hefur áreitt uppljóstrarann í málinu, Jóhannes Stefánsson, sem og Helga Seljan, fréttamann Kveiks.
„Við viljum ekki búa til gögn þar sem talað er um að fiskur hafi verið afhentur og svo finna þeir slóð peninganna.“
Samskipti fyrir afhjúpun mútumálsins
Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem áður starfaði fyrir Samherja í Seðlabankamálinu svokallaða, átti í samskiptum við James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformann namibíska ríkisútgerðarfyrirtækisins Fishcor, vorið 2019, eftir að rannsókn á málinu hófst í Namibíu en hálfu ári áður en Kveikur, Stundin og Al Jazeera greindu frá smáatriðum málsins, um slóð peninganna.
„Ég held að þeir muni ekki hafa uppi á þeim greiðslum sem greiddar voru úr landi. Við höfum lokað þeim reikningum. Auk þess hafa þeir ekki burði til þess að fara á eftir flóknum aflandsviðskiptum,“ segir Jón Óttar í skilaboðum til Hatuikulipi í tölvupósti, samkvæmt gögnum saksóknara í Namibíu. Samskiptin fundust á farsíma Hatuikulipi, sem hann notaði undir dulnefninu. Tölvupóstarnir voru sendir þann 28. maí árið 2019.
Í öðrum tölvupósti segir Jón Óttar við James: „Við viljum ekki búa til gögn þar sem talað er um að fiskur hafi verið afhentur og svo finna þeir slóð peninganna.“
Eins og fjallað hefur verið um greiddi Samherji mörg hundruð milljónir króna til fyrirtækis James Hatukulipi í Dubaí í skiptum fyrir hestamakrílskvóta sem Samherji fékk úthlutað í svokölluðum Namgomar-viðskiptum. Namgomar-viðskiptin voru byggð á milliríkjasamningi á milli Namibíu og Angóla sem var undirritaður gagngert til að Samherji gæti fengið umræddan kvóta. Þessi viðskipti eru nú rannsökuð sem ætlað samsæri (e. perjury) í Namibíu.
Samhengi ákæruvaldsins
Í greinargerðinni er að finna texta frá ríkissaksóknaranum í Namibíu þar sem tölvupóstar Jóns Óttars eru settir í samhengi. Þar segir að í maí 2019 hafi komið upp áhyggjur, væntanlega hjá samstarfsmönnum Samherja sem nú sitja í gæsluvarðhaldi, um að einhver myndi komast á snoðir um greiðslurnar til Dubaí og engin gögn væru til sem útskýrði eðli þeirra og sýni fram á réttmæti þeirra.
Ákæruvaldið vitnar svo í Jón Óttar og það mat að ekki væri æskilegt að búa til pappírsslóð um þessi viðskipti sem mögulega yrði hægt að rekja. Samherji vildi því engin gögn um eðli „ráðgjafagreiðslnanna“.
Ein af spurningunum sem vaknar við þetta er af hverju Samherji vildi ekki búa til gögn, pappíra, um greiðslur sem fyrirtækið segir í dag að hafi verið eðlilegar ráðgjafagreiðslur og ekki mútur.
Hvað var það þá sem Samherji var hræddur við og vildi fela?
Kenndu Jóhannesi einum um
Í yfirlýsingu frá Samherja í kjölfar umfjöllunar Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um mútumálið, 11. nóvember í fyrra, tilgreindi Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og þá einn aðaleigenda félagsins áður en afkomendur helstu eigendanna tóku við hlutafénu, að Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari í málinu sem ræddi við fjölmiðlana, hefði einn borið ábyrgð á misfellum í rekstrinum í Namibíu, eins og áður hefur verið nefnt.
„Það sem við teljum rétt að koma á framfæri á þessum tímapunkti er að þegar við urðum þess áskynja í ársbyrjun 2016 að ekki væri allt með felldu í rekstrinum í Namibíu sendum við fyrrverandi rannsóknarlögreglumann hjá sérstökum saksóknara til Namibíu. Eftir nokkurra mánaða vinnu hans var niðurstaðan að segja umræddum starfsmanni upp störfum án tafar vegna óásættanlegrar framgöngu hans og hegðunar.“
Nú kemur hins vegar fram í gögnum namibíska ríkissaksóknarans að hátt í þremur árum eftir að Samherji sendi Jón Óttar til Namibíu átti hann í samskiptum við mútuþega um hvort slóð peningagreiðslna í gegnum aflandsfélög séu huldar yfirvöldum.
Mútugreiðslur Samherja héldu áfram að berast mútuþegunum eftir að Jóhannes hætti störfum sem framkvæmdastjóri í Namibíu. Síðustu greiðslurnar sem Kveikur og Stundin greindu frá í fyrra fóru frá reikningum Samherja til félaga Namibíumannann sem nú sitja í gæsluvarðhaldi í janúar í fyrra, tveimu og hálfu ári eftir að Jóhannes hætti hjá Samherja. Eins og fjallað hefur verið um í Stundinni sýna gögn frá Samherja að Ingvar Júlíusson, og einnig Baldvin Þorsteinsson, hafa stýrt og komið að stjórn félagsins á Kýpur sem greiddi féð til Dubaí sem Jóni Óttari var svo umhugað um að fela.
Fram hefur komið að Jón Óttar fékk áður 135 milljóna króna greiðslur fyrir störf sín í þágu Samherja vegna Seðlabankamálsins svokallaða. Hann var einn af meginviðmælendum Samherja í myndböndum sem útgerðin kostaði birtingar á um nokkurt skeið á Youtube, í kjölfar þess að umfjöllun um mútumálið kom fram.
„Við munum ekki nú, frekar en þá, sitja undir röngum og villandi ásökunum frá fyrrverandi starfsmanni sem enn á ný eru matreiddar af sömu aðilum og fjölmiðlum og í Seðlabankamálinu,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í yfirlýsingunni í nóvember síðastliðnum.
Neita ásökunum
Haft er eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Samherja, á heimasíðu Samherja í kvöld þar sem svarið til Kveiks er birt að greiðslur félagsins fyrir kvóta í Namibíu hafi verið lögmætar.
„Við höfum alfarið neitað því að félög tengd Samherja hafi greitt mútur eða aðrar óeðlilegar greiðslur. Hvort sem það er í tengslum við reksturinn í Namibíu eða annars staðar. Við lítum svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja.“
Í svörum sínum á vef Samherja svarar Björgólfur ekki fyrir orð Jóns Óttars í tölvupóstunum til James Hatukulipi í fyrra þar sem hann ræðir um mikilvægi þess að greiðslurnar fari leynt. Enn frekar svarar Björgólfur því ekki af hverju Jón Óttar hafði áhyggjur af því að löggæsluyfirvöld kæmust á snoðir um greiðslurnar.
James Hautikulipi og viðskiptafélagar hans sem grunaðir eru um mútuþægni í Samherjamálinu í Namibíu hafa setið í gæsluvarðhaldi í rúmt ár meðan málið hefur verið rannsakað í Namibíu. Á mánudaginn kemur í ljós hvort gæsluvarðhald yfir honum og öðrum sakborningum í málinu verður framlengt eða ekki.
Athugasemdir