Sindri Einarsson, sem er í framboði til 5. sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vill stofna leyniþjónustu á Íslandi, hlusta á samskipti allra múslima, banna fjölmenn mótmæli og að víkingasveit lögreglunnar sé sýnileg á öllum stöðum þar sem fjöldi manna kemur saman.
Þessar hugleiðingar skrifar Sindri í grein í Morgunblaðinu síðasta laugardag. Ber hún heitið „Örfá orð um þjóðaröryggi og úrbætur í þjóðaröryggismálum.“ Segir Sindri Íslendinga þurfa að fá erlenda þjálfara til landsins, frá bandarísku alríkislögreglunni, sem og MI5 innanríkisleyniþjónustu Breta, með það að markmiði að stofna hér okkar eigin leyniþjónustu.
„Einnig þarf að hlusta á samskipti múslima (þeirra allra), sérstaklega á stöðum þar sem þeir hafa bænahald.“
Segir hann svo að virkt eftirlit þurfi að hafa með öllu því sem menn birti á netinu. Netið sé aðalráðningakerfi hryðjuverkasamtakanna ISIS. „Einnig þarf að hlusta á samskipti múslima (þeirra allra), sérstaklega á stöðum þar sem þeir hafa bænahald.“
Sindri vill enn fremur að víkingasveit lögreglunnar sé sýnileg á öllum stöðum þar sem fjöldi manna kemur saman. Hann vill svo banna fjölmenn mótmæli og að leyfi þurfi að veita fyrir mótmælum, þannig að lögregla geti tryggt öryggi þeirra sem mótmæla.
„Í sjötta lagi: banna verður fjölmenn mótmæli...“
Tollgæslu er gríðarlega ábótavant, að hans mati. Þarf að tryggja að enginn gámur sleppi í gegn nema hann sé að fullu skoðaður. „Gera þarf þetta vel. Hægt er að byggja leynistað innan gámsins. Í sumum tilfellum er um að ræða styttri gám að innanverðu en sýnist að utanverðu.“ Þar fyrir utan vill hann láta skoða alla bíla og búslóðaflutninga til landsins og herða verulega refsingar fyrir vopnasmygl. „Vissulega er hér rætt um hugsanlega skerðingu á ákveðnu frelsi en við getum ekki tekið sénsinn á að vopn komi hingað til lands.“
Á facebook síðu framboðs Sindra eru ófáar færslur þar sem varað er við uppgangi múslima og ríkisstjórnin er hvött til þess að „hunsa mótmæli þeirra er mótmæltu við austurvöll og sleppa kosningunum í haust.“ Þar segir Sindri einnig um Sjálfstæðisflokkinn:
„Minn flokkur er sjálfstæðisflokkurinn flokkur allra stétta. Þar sem allir eru velkomnir. Við erum til í að hlusta á mismunandi sjónarmið. Skoða málefni vel.Einnig erum við alltaf til í að bæta við fjölda okkar. Við erum stærsta stjórnmálaafl á landinu enda tökum við tillit til allra og útskúfum engan.“
Athugasemdir