Í það minnsta 85 óbreyttir borgarar, þar af 12 börn, létust eftir loftárás bandaríska hersins í norður Sýrlandi, segja eftirlitsaðilar. Átta fjölskyldur létu allar lífið í þorpinu Tokhar, nálægt Manbij í fyrradag, en þorpið er á yfirráðasvæði íslamska ríkisins. Eru þetta mannskæðustu árásir á óbreytta borgara í landinu síðan aðgerðir hófust.
Stofnun Sýrlenska réttlætisins, sem hefur höfuðstöðvar í Tyrklandi, sagðist óttast að tala látinna gæti verið mun hærri, þar sem björgunasveitarfólk væri enn að finna látna á svæðinu. Myndir af staðnum eru sagðar sýna fjölmörg börn enn grafin í rústunum.
Reyna að minnka lát óbreyttra borgara
Bandaríski herinn staðfesti að hann stundaði loftárásir á svæðinu og sagðist vera að rannsaka yfirlýsingar um lát óbreyttra borgara. „Ef upplýsingar koma fram sem styðja þessar ásakanir munum við taka ákvörðun um viðeigandi aðgerðir,“ sagði í yfirlýsingu hersins. Þar var því bætt við að herinn „gerði allt sem hann gæti við miðunarferlið til þess að forðast eða minnka eftir bestu getu lát óbreyttra borgara.“
Eftirlit með mannréttindum í Sýrlandi, annar eftirlitshópur sem hefur aðsetur í Bretlandi, segir loftárásirnar hafa verið gerðar vegna þess að flugmaður taldi borgarana vera vígamenn íslamska ríkisins. Bendir hópurinn einnig á aðra loftárás síðasta sunnudag, þar sem sex óbreyttir borgara létust í Manbij, „þar á meðal kona með fjögur börnin sín og gamall maður.“
Mikið hefur verið barist í Manbij og þorpunum í hring síðustu vikur. Eru loftárásir bandamanna liður í því að hjálpa kúrdískum hermönnum að ná aftur borginni úr höndum ISIS, sem hafa haft hana á valdi sínu síðan 2014.
Athugasemdir