Frans páfi kom fréttamönnum á óvart í flugi milli Kraká og Vatíkansins seint á sunnudag þegar hann kenndi „guði peninganna“ um ofbeldi öfgamanna í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Sagði hann að vægðarlaus heimsmarkaðurinn leiddi til þess að afvegleitt fólk tæki upp á ofbeldi.
„Hryðjuverk verða til þar sem ekkert annað er möguleiki og þannig mun það verða á meðan efnahagur heimsins hefur í hávegum guð peninganna en ekki manneskjuna,“ sagði páfinn við fréttamenn, samkvæmt Wall Street Journal. „Þetta eru bókstafstrúar hryðjuverk og þau beinast gegn mannkyninu öllu.“
Ummælin voru hluti af svari páfa við spurningu fréttamanns um það hvort tengsl væru á milli íslam og hryðjuverka, með tilliti til árásar múslímskra öfgamanna á prest í Frakklandi í síðustu viku.
„Það er ekki rétt og ekki sanngjarnt að segja að Íslam snúist um hryðjuverk.“
„Ég spyr sjálfan mig hversu margar ungar manneskjur við evrópubúar höfum skilið eftir hugsjónasnauðar og atvinnulausar. Þær snúa sér þá að eiturlyfjum og áfengi eða skrá sig í ISIS,“ sagði hann við fréttamenn.
Sagði hann að engin trúarbrögð hefðu hefðu einkarétt á ofbeldi. Sagði hann að umræður hans við hina ýmsu trúarleiðtoga sýndu fram á að múslimar vildu frið og samræður. „Það er ekki rétt og ekki sanngjarnt að segja að íslam snúist um hryðjuverk.“ Hann tók einnig fram að engin trúarbrögð ættu ein ofbeldisfulla fylgjendur. „Ef ég tala um íslamskt ofbeldi þá ætti ég að tala um kaþólskt ofbeldi. Það eru ekki allir múslimar ofbeldisfullir og ekki allir kaþólikkar eru ofbeldisfullir.“ Hann afskrifaði einnig ISIS sem „lítinn hóp öfgafólks“ sem væri ekki einkennandi fyrir íslam sem heild.
„Það er hægt að drepa með tungunni jafn auðveldlega og með hnífnum.“
„Í nánast öllum trúarbrögðum er alltaf lítill hópur af bókstafstrúarfólki,“ jafnvel í kaþólsku kirkjunni, sagði páfinn, þó hóparnir beittu ekki alltaf líkamlegu ofbeldi. „Það er hægt að drepa með tungunni jafn auðveldlega og með hnífnum.“
Ummælin höggva í sama knérunn og þau sem páfinn lét hafa eftir sér síðasta miðvikudag, þegar Frans sagði að átökin í Mið-Austurlöndum væru stríð vegna efnahagslegra og pólitískra hagsmuna en ekki trúarbragða eða hinna svokölluðu „íslömsku hryðjuverka.“
„Þetta er stríð fyrir peninga“
„Þetta er stríð fyrir peninga,“ sagði hann á miðvikudaginn. „Þetta er stríð um náttúruauðlindir. Þetta er stríð um yfirráð yfir fólki. Einhver gæti haldið að ég væri að tala um trúarleg stríð. Nei. Öll trúarbrögð vilja frið; það er hitt fólkið sem vill stríð.“
Athugasemdir