Lögreglan á Akureyri lagði í dag hald á „kraftaverkalausnina“ MMS í húsleit sem gerð var í verksmiðju í bænum. Varað hefur verið við því að kraftaverkalausnin geti valdið veikindum eða dauða. Framleiðandinn fullyrðir hins vegar að lyfið geti læknað allt frá krabbameini til alnæmis og berkla. „Það alveg svoleiðis hrynur af þeim krabbameinið um leið og þeir byrja að taka inn þennan kúr,“ segir hann í samtali við Stundina.
Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, staðfesti í samtali við Stundina að eftirlitið hafi falið lögreglu að rannsaka málið, en hann hafði enn ekki heyrt af aðgerðum lögreglu í dag þegar Stundin talaði við hann. „Það barst ábending til Lyfjastofnunar um að þessi vökvi væri í sölu eða dreifingu og viðkomandi gat vísað á heimasíðu. Á heimasíðunni voru engin nöfn eða ábyrgðarmenn og málið því svolítið óljóst. En heilbrigðiseftirlitið óskaði eftir að lögregla rannsakaði málið og legði hald á þennan vökva ef hann finndist,“ segir Alfreð. Hann segir að ábendingunni hafi fylgt saga af langveikum einstaklingi sem hafi verið að taka inn þennan vökva, en óvíst er hvort hann hafi orðið fyrir heilsutjóni vegna þess. „Þetta er hættulegt fyrir fullfrískt fólk og þeim mun hættulegra fyrir sjúklinga,“ segir Alfreð.
Athugasemdir