Mannkynið elur einhver þau mest ósjálfbjarga afkvæmi sem fyrirfinnast á jörðinni. Skjaldbökur skríða úr eggi og rata í sjóinn, hjartardýr standa á fætur á nokkrum mínútum og hlaupa eftir nokkrar klukkustundir, en litlu krúsidúllurnar okkar eru algerlega glórulausar og liggja varnarlausar á bakinu í nokkra mánuði.
Læknirinn, stjórnspekingurinn og heimspekingurinn John Locke sagði að við fæddumst án allra hugmynda eða þekkingar. Við værum eins og hvítt óskrifað blað, en hefðum þó ríkulega hæfileika til að afla okkur þekkingar gegnum skilningarvit okkar, skilningsgáfu og íhuganir. Við fæðumst því frekar mikið frjáls af náttúrunni. Hún hefur ekki njörvað okkur eins mikið niður í erfðatengda ferla hegðunar líkt og dýr sem fylgja lífsrútínu af stakri eðlisávísun og frekar takmörkuðu hugmyndaflugi.
Út frá þessum orðum gæti ég byrjað að skrifa um heilmargt varðandi manninn – hinn viti borna mann. Ég ætla þó bara að tala um einn af þeim eiginleikum sem þetta frelsi hugsunarinnar hefur gefið af sér. Það er frelsið til að blekkja og ljúga – og enn frekar: ljúga til að verða fjáður. Þar sem ég er læknir og hef sérhæft mig út frá þeim grunni í að þekkja það þegar mannfólk lýgur um heilsu, sjúkdóma, lífræn efni, lífeðlisfræði, eiturefnafræði, næringarefni og meðferðir hvers konar, þá verður það umfjöllunarefnið. Ég er eins konar heilsulygafræðingur. Þetta hljómar eins og titlarnir sem fólk setur að gamni sínu við nafnið sitt í símaskránni.
Hví skyldi fólk ljúga að öðru fólki um þeirra hjartans mál – heilsu þeirra og líkama? Það er eiginlega eins lúalegt og nokkuð lúalegt getur orðið. Það hlyti bara að vera einhver manneskja sem er langt leidd í ræfildóm, illa talandi, illa þefjandi, gáfnaskert, ruddaleg og ófáguð, sem gerði eitthvað slíkt. Maður tæki nú strax eftir því ef að einhver kæmi með einhverja tjöru og ætlaði að selja manni hana sem lífsins elexír. Slíkt gerðist líka bara í gamla daga þegar fólk var einfalt, gróft og örvæntingarfullt. Við höfum ekki heyrt af neinum slíkum svikahröppum í fangelsum. Við erum örugg í vestrænum þjóðfélögum hvað þetta varðar! Nei, þvert á móti. Heilsuvörusvik, gervifræði og gervilækningar blómstra sem aldrei fyrr.
Við blekkjum og erum blekkt úti um allan heim alla daga því að við erum menn. Hvílíkur dómur um okkur mennina. Við virðumst ekki geta hætt að ljúga að hvert öðru. Varðandi fæðubótarefni og náttúruefni er sérlega auðvelt að ljúga að fólki vegna þess að:
1) Skaðlaus eða skaðlítil efni til inntöku hverfa án sannana um áhrif eða áhrifaleysi þeirra. Þegar maður kaupir sér sjónvarp sem reynist gallað eru sönnunargögnin til staðar í sjónvarpinu sjálfu. Nema hjá Dr. Gunnsó sem étur sjónvörp og hjólbarða.
2) Óskhyggja og von kaupanda náttúruvöru gerir það að verkum að það er búist við einhverjum árangri. Sú von getur lyft upp líðan þess sem líður illa. Þetta eru kölluð lyfleysuáhrif því að hveititafla myndi gera sama gagn og gagnslaus tafla. Sannfærandi sölumanneskja, fallegar umbúðir, jákvæður orðrómur og fleira slíkt eykur þessi áhrif.
3) Líðan fólks er breytileg eftir dögum og því gæti líka hist þannig á að 1–2 dögum eftir töku fyrsta skammts af náttúruefni liði manni betur. Það þyrfti samviskusamlegt bókhald á líðaninni í marga daga (á náttúruefninu) til að vega út tilviljanir.
4) Það hafa ekki margir þekkingu á lífefnafræði, lífeðlisfræði og næringarfræði í þeim mæli að fólk geti skorið úr um áreiðanleika fullyrðinga framleiðenda um áhrif náttúruefna þeirra. Flestir yrðu að leggjast í lestur á ókunnuglegu efni og leita sér ráða hjá fagfólki. Fæstir gera það. Jafnvel lestur fræðilegs efnis er ekki nóg ef fólk hefur ekki þekkingargrunn til að meta hvað eru góðar og slæmar rannsóknir og hvernig efni koma inn í lífræn ferli.
Það er því vandlifað hvað þetta varðar og óprúttnir og ábyrgðarlitlir framleiðendur geta komist upp með að selja fólki alls kyns náttúruefni, heilsuáhöld og heilsutæki sem eru svik. Fimmti þátturinn sem gerir fólki erfitt fyrir að meta falsið er að framleiðendurnir nota tæknileg orð vísindaheimsins, eins konar „vísindísku“ sem hljómar fræðilega og traustvekjandi í eyrum þeirra sem gera ráð fyrir að heimurinn, sérstaklega sá sem talar vísindalega, sé bæði heiðarlegur og góðviljaður.
Dæmi um svikavörur og heilsufals eru meðal annars Lifewave-plástrarnir (með „nanótækni“), jónaböndin (plastólar um úlnliði sem áttu að „afjóna“ líkamann), alls kyns seglar, raf- og segulspennuprjónar, fótabaðstæki til „afoxunar“, raftíðnihreinsun og nýlega hefur aðili hér á landi (Heilsa og útlit) – auglýst meðferð í tæki (Detox Bodystyler) sem á að hlutleysa pH-gildi húðarinnar með því að blása inn superoxíði inn í plastpoka sem er settur utan um fótleggi fólks. Á netsíðu fyrirtækisins er tækið sagt „gott fyrir þá sem: hafa hátt sýrustig.“ (Það er náttúrlega hverjum manni ljóst. Þess utan er sýrustig hækkandi kvarði með lækkandi sýru í líkamanum en tækið á að lækka sýruna.) Þetta á að afeitra líkamann, losa við kvikasilfur og skordýraeitur og fleira. Gallinn við þetta er sá að superoxíð er eitrað líkamanum, þó að við höfum ágætis vörn gegn því, og þetta er algerlega út í bláinn. Það liggja ekki neinar rannsóknir að baki þessarar meintu meðferðar. Samt eru framleiðendurnir, sem eru þýskir, það bíræfnir að þeir hafa fyrir því að búa til svona tæki og skálda upp einhver „fræði“ í kringum þau. Þeir vita að þeir hafa fullt af fólki sem er tilbúið að hlusta á hvað sem er til að losna við verkina sína, orkuleysið og vanlíðanina sem það upplifir dag eftir dag. Framleiðendurnir vita að þeir þurfa ekki að hafa mikið fyrir þessu annað en að þetta líti fallega út. Það mun enginn hlaupa á eftir þeim líkt og ef að þeir hefðu selt skjálaust sjónvarp. Fallegt og tæknilegt tæki með fallegum tökkum sem malar á meðan það blæs út lofti sem leikur um lærin er utan seilingar allrar gagnrýni fyrir flest allt fólk. Skoðum möguleg stig svona blekkinga:
1. stigs blekking: Ljúga beint framan í fólk – vísvitandi. Óráðlagt enda stutt í að vera gripinn.
2. stigs blekking: Framleiða efni, vöru eða tæki sem fáir geta greint sem svik. Millistig. Búið er til ákveðið tæknimál í kringum vöruna. Blekkingarvefur á „vísindísku“.
3. stigs blekking: Þjálfa upp sölufólk (eða fræða millisöluaðila) sem selur lygina (1) og vöruna (2) af mikilli sannfæringu, stolt yfir því að „þekkja“ eitthvað tæknilegt og að gera einhverjum sem á í heilsufarsvanda „gagn“ í leiðinni. Lengra komin 3. stigs blekking verður sjálfala. Þá þarf ekki lengur neinn með þekkingu á vörunni. Hún selur sig sjálf út frá víðtækri hrifningu þeirra sem verða fyrir lyfleysuáhrifum fyrstu vikurnar og mánuðina sem varan er á markaði.
Algengt er að efni og vörur heilsusvika eigi sér ákveðinn líftíma þar til lyfleysuáhrifin fjara út hjá flestum þeim sem óafvitandi gera tilraunir á sjálfum sér fyrir framleiðendurna, sem maka á því krókinn. Hægt og hljótt hverfur svikavaran af markaði og aðrar taka við innan 1–3 ára, eins og t.d. notkun aloa vera við öllu mögulegu. Í sumum tilvikum er framleiðandinn sjálfur sannfærður um að hann hafi virka og áreiðanlega vöru. Það skýrist af lélegri dómgreind, fáfræði, skorti á faglegri yfirsýn og gagnrýninni hugsun. Slíkur framleiðandi er jafnan afar upptekinn af því að teljast til „uppfyndingamanna“ og er að reyna að bjarga misheppnuðum eða lágreistum ferli í vísindageiranum. Sterk óskhyggja um að „meika það“ er oft drifkrafturinn og viðkomandi lætur þá lágu kröfu eftirlits sem viðgengst verða sitt siðferðilega viðmið.
Kaupum ekki heilsuvörur sem hafa ekki staðist gagnrýna skoðun í tímans tönn og lofa „bótum“ á alls kyns kvillum. Spyrjum fagfólk sem getur svarað eftirfarandi spurningum: Eru fullyrðingar framleiðenda eða söluaðila faglegar? Eru til góðar rannsóknir á virkni vörunnar? Er það heilsuleysi eða sjúkdómsástand (og stig þeirra) sem varan á að bæta í samræmi við það sem kom fram í rannsóknunum eða er verið að lofa upp í ermina? Er varan seld út á lélegustu „rannsóknina“ þ.e. engar rannsóknir aðrar en sérvalda vitnisburði fólks sem hefur reynt hana? (Hvað voru margir sem fundu engan bata?). Gerum kröfur!
Svanur Sigurbjörnsson læknir
Sjá nánar um heilsusvik á upplyst.org
Athugasemdir