Fimm ritstjórnir fjölmiðla á Íslandi hafa á síðustu mánuðum reynt að fá Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra til að svara spurningum um Orku Energy málið en án árangurs. Þetta kemur fram í svörum frá fjölmiðlunum, eða ritstjórnunum, við fyrirspurn Stundarinnar um málið. Fjölmiðlarnir, eða ristjórnirnar sem um ræðir, eru: Fréttastofa RÚV, Kastljós RÚV, DV, vísir.is og Stundin.
Líkt og komið hefur fram í Stundinni þá hefur fjölmiðillinn sent Illuga Gunnarssyni, eða aðstoðarmanni hans Sigríði Hallgrímsdóttur, fimmtán tölvupósta með spurningum um Orku Energy málið, eða ítrekanir um að hann svari spurningum um málið, frá því í lok apríl. En það var þá sem Illugi hætti að svara spurningum fjölmiðla um Orku Energy málið. Illugi greindi þá frá að hann hefði selt stjórnarformanni Orku Energy, Hauki Harðasyni, íbúð sína á Ránargötu eftir að hann lenti í fjárhagserfiðleikum.
Í svörum frá fjölmiðlunum sem í kjölfarið á þessum upplýsingum reyndu að fá Illuga til að svara spurningum um viðskipti sín og stjórnarformanns Orku Energy kemur fram að þeir hafi þá reynt mjög að fá Illuga í viðtal. Þannig segir Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður á fréttastofu RÚV, frá því í skriflegu svari til Stundarinnar að hann hafi í þrjá daga reynt að fá Illuga í viðtal en án árangurs: „Ég sendi tölvupóst á Illuga Gunnarsson og Sigríði Hallgrímsdóttur, aðstoðarkonu hans, þrjá daga í röð; 27., 28. og 29. apríl, þar sem ég bað ráðherra um viðtal til að spyrja hann um tengsl hans og samskipti við Orku Energy og ráðamenn fyrirtækisins. Engin svör hafa enn borist við þessari beiðni.“
Athugasemdir