Innan við ein vika er liðin frá því að fjölmiðlar í Svíþjóð greindu frá því að utanríkisráðherrann, Margot Wällström úr Sósíaldemókrataflokknum, hafi fengið að leigja íbúð af stéttarfélaginu Kommunal og hefur ákæruvaldið í landinu þegar hafið athugun á því á hvort um mútubrot hafi verið að ræða. Saksóknarinn sem athugar málið, Alf Johansson, lítur svo á að um „fyrirgreiðslu“ til hennar hafi verið að ræða en spurningin er hvort fyrirgreiðslan teljist hafa verið „óviðeigandi“. Hann segir við sænska dagblaðið Dagens Nyheter: „Forsendurnar fyrir athuguninni eru þær upplýsingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum og upplýsingar sem ég hef komist yfir. Þessar upplýsingar eru nægjanlegar fyrir mig til að ætla að brot kunni að hafa átt sér stað.“
Af hverju vill stéttarfélag leigja ráðherra íbúð?
Íbúðin er tæplega 90 fermetrar að stærð og nemur leiguverðið tæplega 200 þúsund íslenskum krónum á mánuði - rösklega tólf þúsund sænskum krónum - sem telst undir markaðsverði á almennum leigumarkaði. Stéttarfélagið leigir íbúðir sem eru í eigu fasteignafélaga í ríkiseigu og framleigir þær yfirleitt bara til starfsmanna sinna. Í þessu tilfelli var það hins ráðherra sem fékk að leigja íbúð af félaginu en ekki liggur ennþá fyrir af hverju Kommunal vildi leigja íbúðina til Wallström.
Í viðtali við Dagens Nyheter á miðvikudaginn sagði Wallström um málið. „Ég hef aldrei litið svo á að ég væri skuldbundin Kommunal og þar sem þetta var tímabundin lausn fyrir mig þá tel ég ekki að þetta sé vandamál.“ Engar heimildir hafa komið fram sem sýna fram á að Wallström hafi með einhverju móti hyglað Kommunal eftir að leigusamningurinn tók gildi. Möguleg refsing fyrir mútubrot í Svíþjóð er tvö ár.
Sýnt fram á fyrirgreiðslu einkafyrirtækis og fyrirgreiðslu frá ráðherra
Sagan um Wallström og íbúðina kallar á samanburð við fréttir fjölmiðla á Íslandi um íbúðarmál Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Illugi seldi íbúð sína til kaupsýslumannsins Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy, vegna fjárhagserfiðleika og leigði hana svo af honum áfram. Þá hafði Illugi unnið hjá Orku Energy þegar hann var í leyfi frá þingstörfum árið 2011 og hefði hann verið án atvinnu og launa tímabundið ef ekki hefði komið til starfsins fyrir orkufyrirtækið.
Illugi gekk svo erinda Orku Energy í Kína í mars á síðasta ári þegar hann undirritaði samstarfssamning í orkumálum við kínverska ríkið þar sem Orka Energy fékk stöðu „framkvæmdaraðila“ fyrir hönd íslenska ríkisins. Yfirleitt eru það aðeins ríkisfyrirtæki eða -stofnanir sem fá slíka stöðu í samningum á milli einstakra ríkja. Sá samningur var án hliðstæðu samkvæmt svari frá utanríkisráðuneytinu til Stundarinnar þar sem ráðuneytið gat ekki nefnt eitt annað dæmi um að einkafyrirtæki hefði komist í slíka stöðu. Ákvörðunin um að Orka Energy yrði framkvæmdaraðili fyrir hönd ríkisvaldsins var tekin í ráðuneyti Illuga Gunnarssonar.
Mútubrot í almennum hegningarlögum
Ef mál Wallström kallar á forathugun ákæruvaldsins í Svíþjóð hefði mál Illuga Gunnarssonar þá ekki að minnsta kosti líka átt að kalla á forathugun á Íslandi í ljósi staðreynda málsins? Mútur eru líka brot á Íslandi ef slík brot teljast sönnuð og ná ákvæði um mútur í almennum hegningarlögum bæði til þeirra sem teljast hafa mútað opinberum starfsmönnum og eins til opinberu starfsmannanna sjálfra. Í 128 grein laganna segir: „Ef opinber starfsmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta … fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“
„Samt gera rannsóknaraðilar á Íslandi ekkert.“
En hver er skýringin?
Hver er skýringin á þessum mun á milli Íslands og Svíþjóðar á því hvernig ákæruvaldið á Íslandi - já og samfélagið allt - bregst við spillingarmálum sem snerta fjárhagslega hagsmuni ráðherra? Í þessum tveimur málum eru staðreyndirnar svipaðar nema að fyrir liggja meiri upplýsingar í máli Illuga Gunnarssonar þar sem fyrirgreiðslan frá hans hendi til einkafyrirtækisins liggur líka fyrir. Samt gera rannsóknaraðilar á Íslandi ekkert þrátt fyrir að mál Illuga Gunnarssonar hafi verið til umfjöllunar frá því í apríl á síðasta ári á meðan ákæruvaldið í Svíþjóð bregst við á innan við viku.
Eru Íslendingar með meira umburðarlyndi en Svíar fyrir spillingu í stjórnmálum og takmarkaðra opinbert regluverk stofnana til að bregðast við henni? Það hlýtur að vera.
Pistill sem birtist í Stundinni þann 21. janúar 2016
Athugasemdir