Starfsmenn menntamálaráðuneytisins vissu ekki um náin vinatengsl og íbúðaviðskipti Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra og stjórnarformanns Orku Energy, Hauks Harðarsonar, þegar þeir unnu að því að skipuleggja Kínaferð ráðherrans þar sem Orka Energy lék stórt hlutverk.
Illugi hafði sannarlega unnið fyrir Orku Energy og voru það opinberar upplýsingar en þessi frekari nánu hagsmunatengsl hans við orkufyrirtækið og Hauk Harðarson voru ekki opinber fyrr en eftir að ráðherrann hafði farið í heimsókn sína til Kína í mars á þessu ári - raunar sagði Illugi ekki frá því að Haukur væri einn af hans „nánustu vinum“ fyrr en í október á þessu ári þrátt fyrir að hafa verið þráspurður um tengsl sín við hann frá því í apríl.
„Já, hann er einn af mínum nánustu vinum“
Starfsmenn menntamálaráðuneytisins komu því að því að skipuleggja opinbera heimsókn Illuga til Kína án þess að hafa vitað hveru nátengdur Illugi var Orku Energy og Hauki. Meðal þess stuðnings, sem kom sér vel fyrir viðskipti Orku Energy í Kína, sem ákveðinn var í menntamálaráðuneytinu í aðdraganda heimsóknarinnar var: (1) Gerð viljayfirlýsingar um samstarf Íslands og Kína í orkumálum; (2) Menntamálaráðuneytið ákvað að Orka Energy ætti að vera „framkvæmdaraðili“ íslenskra stjórnvalda í samstarfinu við Kína á sviði orkumála.
„Almennt er það svo af Íslands hálfu að ekki er getið um einkafyrirtæki í slíkum viljayfirlýsingum, enda hafa slíkir aðilar ekki stjórnskipulega stöðu.“
Fáheyrt er að einkafyrirtæki á Íslandi séu framkvæmdaraðilar ríkisvaldsins í samstarfssamningnum við erlend ríki þar sem slík skilgreining á stöðu þeirra veitir þeim í raun „stjórnskipulega stöðu“ sem yfirleitt aðeins ríkisfyrirtæki hafa erlendis. Hinn framkvæmdaraðili ríkisins í samstarfinu er Orkustofnun, ríkisrekið fyrirtæki. Eins og sagði í svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Stundarinnar: „Almennt er það svo af Íslands hálfu að ekki er getið um einkafyrirtæki í slíkum viljayfirlýsingum, enda hafa slíkir aðilar ekki stjórnskipulega stöðu. Ekkert útilokar þó slíkt ef íslenskum hagsmunum er best sinnt með þeim hætti.“ Utanríkisráðuneytið gat hins vegar ekki nefnt neitt annað dæmi um að einkafyrirtæki hefði verið veitt slíkt hlutverk framkvæmdaraðila fyrir hönd íslenska ríkisins í samstarfi við erlend ríki.
Samkvæmt vinnugögnum, meðal annars fjölda tölvupósta, um skipulagningu Kínaferðarinnar sem menntamálaráðuneytið hefur gert opinber voru ákvarðanir (1) og (2) sem nefndar eru hér að ofan teknar inni í ráðuneytinu eftir að byrjað var að skipuleggja Kínaferðina.
„Það liggur meðal annars fyrir beiðni frá okkur um að undirrita MoU [Viljayfirlýsingu]“
Helsti tengiliður menntamálaráðuneytisins í skipulagningu Kínaferðarinnar var Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri samkvæmt tölvupóstunum. Ákvörðunin um að gera viljayfirlýsinguna við Kína kom frá menntamálaráðuneytinu samkvæmt tölvupósti frá henni þann 18. febrúar 2015 þar sem sagði: „Það liggur meðal annars fyrir beiðni frá okkur um að undirrita MoU [Viljayfirlýsingu] um jarðhitarannsóknir, sem við fáum ekki svör við fyrr en eftir áramótaleyfin.“ Beiðnin um að gerea viljayfirlýsinguna kom því frá menntamálaráðuneyti Illuga Gunnarssonar - af hverju er mennta- og menningarmálaráðherra að hlutast til um milliríkjasamstarf í orkuiðnaði? - en á þessum tíma var ekki búið að ákveða að Orka Energy yrði framkvæmdaraðili í samningnum.
Ákvörðunin um að Orka Energy skyldi vera framkvæmdaraðili íslenska ríkisins var svo tekin inni í menntamálaráðuneytinu á milli 9. og 12. apríl 2015, samkvæmt tölvupóstsamskiptunum sem liggja fyrir, en í endanlegu viljayfirlýsingunni stendur orðrétt: „[M]enntamálaráðuneyti Íslands hefur skipað Orkustofnun, opinbers orkufyrirtækis á Íslandi, ásamt Orku Energy Energy Ltd. til að vera framkvæmdaraðila Íslands.“ Hvernig og af hverju tók ráðuneytið þessa ákvörðun?
Stundin hefur nú árangurslaust í tvær vikur reynt að fá svör við því frá Illuga, í gegnum aðstoðarmann hans Jóhannes Stefánsson, hvernig þessar tvær ákvarðanir um viljayfirlýsinguna og að Orka Energy skyldi vera framkvæmdaraðili íslenska ríkisins voru teknar. Þessum spurningum hefur ekki verið svarað þrátt fyrir að ráðuneyti eigi að svara spurningum fjölmiðla innan tveggja vikna frá því þær berast.
„[M]enntamálaráðuneyti Íslands hefur skipað Orkustofnun, opinbers orkufyrirtækis á Íslandi, ásamt Orku Energy Energy Ltd. til að vera framkvæmdaraðila Íslands.“
Þá hefur Stundin ítrekað reynt að ná tali af Ástu Magnúsdóttur ráðuneytisstjóra til að spyrja hana þessara spurninga en án árangurs þrátt fyrir að fjöldi skilaboða hafi verið skilin eftir handa henni, henni hafi verið sendur tölvupóstur og reynt að hringja í hana. Þá hafa spurningar verið sendar til Þorgeirs Ólafssonar, upplýsingafulltrúa menntamálaráðneytisins, en hann hefur vísað spurningunum til Illuga og aðstoðarmanna hans sem engu svara.
Eftir stendur að hvorki Illugi, ráðuneytisstjórinn né ráðuneytið sjálft hafa svarað þessum spurningum. Þá stendur það einnig eftir að það er ekki lengur bara Illugi Gunnarsson sem þarf að svara spurningum um spillingarmál sem hann hefur komið sjálfum sér í heldur líka ópólitískir undirmenn hans í ráðuneytinu, eins og Ásta Magnúsdóttir, sem ekkert vissu um þessi persónulegu hagsmunatengsl Illuga við orkufyrirtækið sem Kínaferð hans var að hluta til skipulögð í kringum.
Illugi hefur með öðrum orðum gert starfsfólk menntamálaráðuneytisins, nauðugt viljugt, samábyrgt í eigin spillingarmáli. Í ljósi hagsmunatengsla Illuga við Orku Energy hefði ráðuneyti hans aldrei átt að koma að skipulagningu opinberrar heimsóknar þar sem fyrirtækið var með í för og naut góðs af ákvörðunum Illuga. Enn er ekki á vitað af hverju menntamálaráðuneytið tók þessar tvær ákvarðanir um viljayfirlýsinguna sem snertu Orku Energy beint. Slík framkoma ráðherra gagnvart starfsfólki ráðuneytis er auðvitað óheppileg. Eftir stendur að Ásta þarf nú að svara spurningum um Kínaferðina sem Illugi virðist ætla að þegja um eins lengi og hann getur.
Nokkrar spurningar um skipulagningu Kínaferðarinnar sem Illugi Gunnarsson hefur ekki svarað:
1. Var starfsmönnum menntamálaráðuneytisins, meðal annars Ástu Magnúsdóttur ráðuneytisstjóra, kunnugt um tengsl Illuga Gunnarssonar og Orku Energy þegar Kínaferðin var skipulögð? Var starfsmönnunum ráðuneytisins kunnugt að menntamálaráðherra og stjórnarformaður Orku Energy eru nánir vinir?
2. Af hverju átti menntamálaráðuneytið frumkvæði að því að gerður var samstarfssamningur við Kína?
3. Af hverju taldi menntamálaráðuneytið að það þjónaði betur hagsmunum Íslands að Orka Energy, og ekki bara Orkustofnun, væri framkvæmdaraðili Íslands í slíkum samningi?
4. Hversu algengt er að menntamálaráðuneytið ákveði að tiltekin einkafyrirtæki með starfsemi erlendis séu framkvæmdaaðilar (executive bodies) fyrir hönd íslenska ríkisins í öðrum löndum? Þá er átt við þegar viljayfirlýsingar um samstarf og annað slíkt eru undirritaðar. Get ég vinsamlegast fengið dæmi um slík ef þau eru fyrir hendi?
5. Hvernig var sú ákvörðun ákvörðun tekin innan menntamálaráðuneytisins að Orka Energy yrði framkvæmdaraðili viljayfirlýsingarinnar um samstarf í orkumálum sem gert var við kínverska ríkið í mars þegar menntamálaráðherra var þar í landi í opinberri heimsókn? Ég vísa til gagnanna um Kínaferðina sem ráðuneytið gerði opinber.
Athugasemdir