Bæta má lífskjör og starfsánægju með öðru en beinum launahækkunum,“ segja Samtök atvinnulífsins (SA) í bréfi sem lýsir stefnu þeirra í komandi kjarasamningum. Lögð er áhersla á aukið framboð húsnæðis fyrir tekjulága, sveigjanlegri vinnutíma og aukinn veikindarétt.
Bréfið lýsir þeim áskorunum sem SA sjá í komandi kjaraviðræðum og óska þau eftir formlegum umræðum um þessi atriði. Almennir kjarasamningar SA og ASÍ losna um áramótin og taka til um 110 þúsund starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Undir bréfið skrifa Eyjólfur Árni Rafnsson formaður og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA.
Samtökin benda á hækkun launa muni skila sér í verðbólgu. Miklar launahækkanir undanfarið hafi dregið úr samkeppnishæfni íslenska fyrirtæki, sem sjáist í hækkun raungengis íslensku krónunnar, sem sé einfaldur og skýr mælikvarði á samkeppnisstöðu atvinnulífsins.
„Á tímabilinu frá fyrra árshelmingi 2015 til fyrra árshelmings 2018 hækkaði raungengi á mælikvarða launa um 55% og á mælikvarða verðlags um 31%. Í þessu felst að launakostnaður á Íslandi hækkaði um 55% umfram erlenda keppinauta og innlent verðlag um 31% umfram verðlag í viðskiptalöndunum, allt mælt í sameiginlegri mynt. Það er fordæmalaust að samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs versni jafn mikið jafn á skömmum tíma og við því þarf að bregðast í komandi kjarasamningum,“ segir í bréfinu.
Vilja taka upp „virkan vinnutíma“
Leggja SA því til aðgerðir á fasteignamarkaði til að mæta þörfum tekjulágra og erlends starfsfólks. Slíkt sé betur leyst með auknu framboði á húsnæði en beinum launahækkunum. Þá eru lagðar til aðgerðir til að gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni, til dæmis með auknum hlut dagvinnulauna í heildarlaunum.
Loks leggja SA til upptöku „virks vinnutíma“, með það fyrir augum að auka framleiðni á íslenskum vinnumarkaði. „Virkur vinnutími er sá mælikvarði á vinnutíma sem aðrar þjóðir byggja á og er skilgreindur sem sá tími starfsmanna sem er vinnuveitendum þeirra til ráðstöfunar,“ segir í bréfinu. „Í því felst að neysluhlé, einkum svokallaðir kaffitímar, teljast ekki til vinnutíma. Breytingunni er ætlað að koma af stað umræðu innan vinnustaða um skipulag vinnutíma, jafnt fyrirtækjum sem starfsmönnum þeirra til hagsbóta. Bætt skipulag getur leitt til styttri heildarvinnutíma og fjölskylduvænni vinnumarkaðar.“
Athugasemdir