Þegar fréttir berast af því að sjúklingar týnist á náttsloppnum í ranghölum Landspítalans, séu sendir heim fárveikir eða ruglað saman við aðra í aðgerðarherberginu verður manni hugsað til kvenna sem núna eru að hverfa af vinnumarkaði en héldu áður uppi stórum vinnustöðum með nánast undraverðri fórnfýsi.
Þetta eru konur sem misstu aldrei dag úr vinnu, þótt þær ynnu erfiðisvinnu og heima biði þeirra engin hvíld, heldur börn og barnabörn, óhreinn þvottur, matur sem þurfti að elda, gamalt fólk sem þurfti að sinna og hús sem þurfti að þrífa.
„Starfsstúlkur“
Á kvennavinnustöðum gengu yfirkonurnar hreint til verks, bjuggu til ósveigjanlegar vaktatöflur, margar grétu þann tíma, þar sem vinnuföt voru pressuð og stífuð. Starfskonurnar, sem oftar en ekki voru kallaðar starfsstúlkur þótt þær væru komnar á miðjan aldur eða rosknar, þær mættu til vinnu hvernig sem stóð á, veikar eða kræklóttar af gigt, þær bónuðu gólfin á sjúkrahúsinu, sótthreinsuðu áhöldin, svöruðu í símann, hreinskrifuðu sjúkraskýrslur og skiptu á rúmunum, sneru sjúklingunum oft á dag svo þeir fengju ekki legusár, elduðu matinn, tóku á móti börnum, hjúkruðu sjúklingunum og í stuttu máli, ráku sjúkrahúsin, án þeirra hefðu þau þurft að loka. Þær tóku ekki mikið í sinn hlut fyrir þessa vinnu. Þær fengu satt að segja smánarleg laun og af því að virðingin er svo nátengd peningum, uppskáru þær líka oft hreint og klárt vanþakklæti.
Þær voru nánast eins og þrælar.
Starfsmenning kvennavinnustaða
Þær héldu hver annarri að verki með því að vera gersamlega óaðfinnanlegar, falla aldrei verk úr hendi og fylgdust strangar með því að ungu konurnar breyttu í engu út af vananum. Yfirkonurnar á kvennavinnustöðunum þóttu þess vegna vera óþolandi yfirmenn og það með réttu. Það þurfti að heimfæra hverja sekúndu á vinnustað, það var ekki hægt að skreppa eða fara hálftíma fyrr til að ná í strætó og það var ekki hægt að smyrja sér brauðsneið af birgðum vinnustaðarins nema greiða fyrir.
Þessi menning loddi lengi vel við kvennavinnustaði.
Því hefur verið haldið fram að slík hollusta við vinnustaði hafi verið á undanhaldi með x-kynslóðinni sem er fædd eftir 1960. Hún hafi gert meiri kröfur um laun og sveigjanleika. Unga kynslóðin núna er síðan mun ákveðnari hvað þetta varðar. Ef að henni er boðið upp á vinnumóral fyrri kynslóðanna verður hún bara græn í framan og hringir sig inn veika.
Jafnréttisbaráttan hefur auk þess gert það að verkum að það er erfiðara að reka stofnanir réttum megin við núllið með því að styðjast við samviskubit, fórnfýsi og meðvirkni kvenna.
En hvað er þá til ráða?
Barmafullar af hollustu
Mesta erfiðisvinnan og sú óþrifalegasta fellur nú að mestu í hlut útlendra kvenna sem núna bóna gólfin, elda matinn og sjá um að manna elliheimilin, skeina og skipta á rúmunum. Til að hífa upp launin þrífa þær heimilin okkar líka, þegar við nennum því ekki sjálf. Þær eru ekki meðvirkar og barmafullar af hollustu við vinnustaðinn eins og fyrirrennarar þeirra, þær neyðast bara til að vinna mikið fyrir lág laun. Og það er líka forsenda þess að þær fá að dvelja í landinu.
Aðstæður þeirra minna stundum á þrælahald.
Í dag er það þó ekki bara ófaglært starfsfólk eða ræstingafólk sem kemur frá útlöndum til að vinna á heilbrigðisstofnunum vegna þess að ekki er hægt að manna þær. Í vikunni bárust fréttir af því að þriðjungur hjúkrunarfræðinga á Droplaugarstöðum kæmi frá Filippseyjum, fyrir ári kom fram að nær helmingur hjúkrunarfræðinga á Eir kæmi þaðan.
Það vantar alls staðar hjúkrunarfræðinga.
Það eru fjörutíu auð rúm á Landspítalanum vegna manneklu. Það eykur álagið á þá sem eru fyrir á spítalanum með tilheyrandi ruglingi, magnar upp óánægju og biðlistar lengjast.
Ástæðan er ekki bara fjársvelti heilbrigðiskerfisins eða fólksfjölgun. Námið er langt, launin ekkert til að hrópa húrra fyrir. Kvöld- og næturvinna er erfið og heilsuspillandi og það þarf að bæta fólki þær upp, ekki halda því á lægri launum þar sem það eigi kost á ómældri næturvinnu til að vinna sig upp í mannsæmandi laun.
Vinnuframlag á afslætti
Stjórnmálamenn og stjórnendur heilbrigðisstofnana þurfa að átta sig á því að mömmur þeirra og ömmur eru sestar í helgan stein. Það er enginn að fara að gera þetta fyrir ekki neitt ef farið er að leikreglunum. Og það eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að draga úr þörf fyrir hjúkrun með því að auka sjúklingaveltu, svo vitnað sé í stofnanamál, nema auðvitað með þvi að velta sjúklingunum beinlínis fram úr rúmunum þegar þeir eru of veikir til að bera hönd fyrir höfuð sér.
Og þá komum við aftur að filippeysku hjúkrunarfræðingunum á elliheimilunum sem skipta nú tugum. Þeir byrja sem almennir starfsmenn og þegar þeir hafa fengið hjúkrunarleyfi, og komast inn í starfið, geta þeir sótt um að verða metnir til launa sem hjúkrunarfræðingar. Vinnuveitendur geta gert kröfu um tungumálakunnáttu og þá sækja þeir ýmis námskeið til að uppfylla það. Þegar þeir eru samþykktir sem hjúkrunarfræðingar fara þeir á byrjunarlaun, alveg óháð því hversu langa starfsreynslu þeir hafa í heimalöndum sínum.
Þetta er því hjúkrun með talsverðum afslætti.
Það er gott og blessað að reiða sig á erlent vinnnuafl að einhverju leyti en þegar það tekur yfir heilu starfsstéttirnar grunar mann að það sé vegna þess að það er ekki allt með felldu í starfsumhverfinu.
Athugasemdir