Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir óábyrgt að nota 100 milljarða arðgreiðslur vegna lækkunar eiginfjár viðskiptabankanna til stórfelldrar útgjaldaaukningar samhliða skattalækkunum.
„Það gengur ekki að menn fyllist örvæntingu og fari fram úr sér í kosningabaráttunni með þessum hætti, og það gildir jafnt til hægri og vinstri. Við verðum að fara varlega nú þegar við erum á toppi hagsveiflunnar,“ segir hún.
„Einskiptistekjur á borð við óreglulegar arðgreiðslur úr bönkunum ættu auðvitað að fara í niðurgreiðslu skulda, til að lækka vaxtakostnað hins opinbera og skapa svigrúm í ríkisfjármálum svo hægt sé að byggja upp til langs tíma.“
Eins og Stundin fjallaði um í gær vill Sjálfstæðisflokkurinn „bæta 100 milljörðum við í innviðauppbyggingu“ á næstu árum umfram það sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar.
Um leið vill flokkurinn lækka skatta, m.a. tryggingargjald og tekjuskatt, og stórauka framlög til velferðarmála.
Hagdeild ASÍ telur að loforðin stangist á við sjálfbærnimarkmið laga um opinber fjármál og hagfræðingar sem Stundin hefur rætt við telja óæskilegt að verja einskiptistekjum til aukinna ríkisútgjalda samhliða skattalækkunum. Slíkt geti kynt undir verðbólgu og háu vaxtastigi.
Þorgerður Katrín tekur undir þessa gagnrýni. „Auðvitað eiga einskiptistekjur fyrst og fremst að vera nýttar til niðurgreiðslu skulda hins opinbera. Annað er óábyrgt og ég hélt satt að segja að flestir væru sammála um þetta, að minnsta kosti fráfarandi stjórnarflokkar.“
Hún bendir á að Viðreisn tali fyrir hóflegri lækkun tryggingargjalds og vilji halda áfram kraftmikilli uppbyggingu innviða. Hins vegar verði alltaf að hugsa til þess hvernig hlutirnir eru fjármagnaðir.
„Það gengur ekki að stökkva til í kosningabaráttu og fara að lofa bæði stórkostlegum skattalækkunum og gríðarlegri útgjaldaaukningu, tugmilljarða breytingum á fjármálaáætlun,“ segir hún.
Í gær kynnti Viðreisn kosningaáherslur sínar og útskýrði hvernig staðið yrði undir kostnaði við aukin útgjöld á næsta kjörtímabili. Áður höfðu Píratar boðað til blaðamannafundar og kynnt hvernig þeir sjá fyrir sér fjárlög næsta árs. „Það er mikilvægt að flokkarnir útskýri og útfæri hvernig staðið verði undir kosningaloforðunum,“ segir Þorgerður og skorar á aðra flokka að gera slíkt hið sama.
Athugasemdir