Umboðsmaður Alþingis hefur farið fram á að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra skýri hvort, og þá hvernig, reglum stjórnsýslulaga hafi verið fullnægt þegar félag Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna, fékk að kaupa hlut í Íslandsbanka.
Óskar umboðsmaður eftir því að Bjarni skýri hvort hann hafi gætt þess að ákvæðum um sérstakt hæfi hafi verið fylgt, en í stjórnsýslulögum kemur fram að menn séu vanhæfir í málum þar sem þeir sjálfir eða venslamenn þeirra eigi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Þá óskar umboðsmaður eftir því að Bjarni skýri hvort hann hafi gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga þegar hann tók ákvörðun um hvort hafna skyldi eða samþykkja tilboð í bankann og þegar hann undirritaði samninga um söluna fyrir hönd ríkisins. Vekur umboðsmaður sérstaka athygli á því að Bjarni hafi lýst því í fjölmiðlum að hann hafi ekki vitað að pabbi sinn væri meðal kaupenda. Í þriðja lagi fer umboðsmaður fram á að Bjarni taki afstöðu til þess hvort hann hafi borið lagalega ábyrgð á sölunni.
Í bréfi umboðsmanns til ráðherra, sem hann sendi í gær, kemur fram að ekki virðist sem fjallað hafi verið sérstaklega um sölu á á hlutum í Íslandsbanka til Hafsilfurs, félags Benedikts föður Bjarna, í skýrslu Ríkisendurskoðuna um söluna. Því hafi heldur ekki verið fjallað um álitamál í um hæfi Bjarna í því sambandi. „Í þessu ljósi get ég heldur ekki séð að með umfjöllun sinni um skýrsluna hafi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekið rökstudda afstöðu til slíkra atriða.“
Í bréfi umboðsmanns segir að í framkvæmd starfa embættisins hafi ítrekað verið vísað til mikilvægis þess að traust ríki um málefni stjórnsýslunnar, „ekki síst þegar um er að ræða ráðstöfun stjórnvalda á eignum eða öðrum takmörkuðum gæðum.“
Spyr Bjarna hvort hann hafi gætt að hæfi sínu
Erindi umboðsmanns er til Bjarna er þríþætt en hann óskar í fyrsta lagi svara um hvort, og þá með hvaða hætti, reglum stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi hafi verið fullægt er varðar sölu á eignarhlut ríkisins til Hafsilfurs. Vísar umboðsmaður þar einkum til 3. greinar stjórnsýslulaganna þar sem fram kemur að vanhæfi skapist ef menn eigi sjálfir eða venslamenn þeirra sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta við meðferð máls. Bent er á að samkvæmt lögunum gildi þau ákvæði einnig um gerð samninga einkaréttarlegs eðlis.
„Er þá m.a. haft í huga að í fjölmiðlum hefur komið fram að yður hafi verið ókunnugt um að Hafsilfur ehf. hafi verið meðal kaupenda“
Í öðru lagi fer umboðsmaður fram á að Bjarni skýri hvort, og þá hvernig, hann hafi gætt ákveða stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi þegar hann tók ákvarðanir um hvort tilboðum í hlut ríkisins í bankann yrði tekið eða þeim hafnað, sem og þegar hann undirritaði samninga um söluna fyrir hönd ríkisins. Vísar umboðsmaður til þess að Bjarni hafi mögulega ekki kynnt sér undir hvað hann var að skrifa en í erindi umboðsmanns segir: „Er þá m.a. haft í huga að í fjölmiðlum hefur komið fram að yður hafi verið ókunnugt um að Hafsilfur ehf. hafi verið meðal kaupenda.“
Í þriðja lagi fer umboðsmaður fram á að Bjarni setji fram rökstudda afstöðu sína til þess hvort, og þá upp að hvaða marki, hann hafi sem ráðherra borið lagalega og stjórnskipulega ábyrgð á því að söluferli Íslandsbanka færi fram í samræmi við lög. Vísar umboðsmaður þar til stjórnsýslulaga en einnig til eftirlitshlutverks Bjarna sem ráðherra með Bankasýslu ríkisins.
Í erindi umboðsmanns segir að starfssvið hans taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, þar á meðal ríkisendurskoðanda. Hið sama eigi við um niðurstöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í málinu. Þar að auki fjalli umboðamðu alment ekki um mál samtímis því að þau séu til meðferðar hjá Alþingi á grundvelli eftirlitshlutverks þess með stjórnsýslunni og því hafi umboðsmaður haldið að sér höndum til þessa í málinu.
Hins vegar liggi nú fyrir niðurstöður Ríkisendurskoðunar, sem og álit stjórnskipunar og eftirlitsnefndar, og í ljósi þess sem fyrr er nefnt, um að í hvorugu tilvikinu hafi verið fjallað sérstaklega um söluna á hlut í Íslandsbanka til félags föður Bjarna, hefur umboðsmaður ákveðið að óska eftir skýringum á þeim þætti málsins sérstaklega. Er Bjarna veittur frestur til 24. mars næstkomandi til að svara erindinu.
Athugasemdir (1)