Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og fyrrverandi eiginkona hans, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, hafa afsalað sér hlutabréfaeign sinni í Samherja hf. til barna sinna, Baldvins og Kötlu Þorsteinsbarna. Hið sama hafa þau Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri fyrirtækisins, og eiginkona hans, Kolbrún Ingólfsdóttir, gert en börn þeirra, Dagný Linda, Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín Kristjánsbörn hafa tekið við hlut foreldra sinna. Enn er ólokið rannsókn á mútugreiðslum dótturfélags Samherja í Namibíu og aðkomu þeirra Þorsteins og Kristjáns þar að.
Þau Þorsteinn Már, Helga Steinunn og hjónin Kristján og Kolbrún voru fyrir aðaleigendur Samherja hf. og héldu á 86,5 prósenta hlut í fyrirtækinu. Eftir breytingar halda þau samanlagt á tveggja prósenta hlut í fyrirtækinu. Þau Baldvin og Katla fara nú samanlagt með 43 prósenta hlut í fyrirtækinu og þau Dagný, Halldór, Kristján og Katrín Kristjánsbörn fara með 41,5 prósent hlut.
Í tilkynningu á vef Samherja kemur fram að unnið hafi verið að þessum breytingum undanfarin tvö ár, og með þeim vilji stofnendur Samherja „treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið hornsteinn í rekstrinum.“ Eftir sem áður munu þeir Þorsteinn og Kristján gegna störfum sínum hjá Samherja.
Í tilkynningunni segir enn fremur að þeir frændur, Þorsteinn og Kristján, hafi fullan hug á að halda áfram þátttöku sinni í rekstri Samherja. „Nú fáum við nýja kynslóð til liðs við okkur. Við fáum tækifæri til að halda áfram að skapa verðmæti með fullnýtingu hráefnis, veita vinnu og starfsöryggi og tryggja enn frekar þau mikilvægu gildi um sjálfbærni og vandaða umgengni um auðlindina sem verið hefur stefna Samherja frá upphafi.“
Samherji hf. fer í meginatriðum með innlenda starfsemi fyrirtækisins en erlend starfsemi heyrir undir Samherja Holding ehf. Undir Samherja Holding heyrir fjárfestingafélagið Sæból, áður Polar Seafood. Sæból á síðan dótturfélögin Esju Seafood Ltd. og Esju Shipping Ltd. sem héldu utan um hestamakrílveiðar Samherja í Namibíu.
Stundin greindi frá því í nóvember á síðasta ári að félög í eigu Samherja hefðu frá árinu 2012 greitt mörg hundruð milljónir króna í mútur til að trygga fyrirtækinu hestamakrílkvóta í Namibíu. Samherji nýtti sér þá skattaskjól á Marshall-eyjum og á Máritíus í viðskiptum sínum og átti einnig í miklum viðskiptum á lágskattasvæðinu Kýpur. Norski bankinn DNB lokaði þá á viðskipti félaga Samherja sökum gruns um að þau væru notuð til að stunda peningaþvætti.
Samherjamálið er enn til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og greindi forstjóri þess, Ólafur Þór Hauksson, frá því í samtali við Stundina í lok apríl að meðferð málsins myndi tefjast vegna Covid-19 faraldursins.
Athugasemdir