Þetta og ekki svo margt fleira er á döfinni næstu vikurnar. Athugið að tímasetningar gætu breyst með stuttum fyrirvara. Allir viðburðirnir eru ókeypis, en hvatt er til þess að styðja listamennina.
Kúltúr klukkan 13
Hvar? Menningarhúsin í Kópavogi
Hvenær? Mánu-, miðviku- og föstudaga kl. 13.00
Streymi: Stundin.is
Á meðan að samkomubannið stendur yfir leggur Stundin sitt í púkkið og sendir út menningarviðburði á vegum Menningarhúsanna í Kópavogi. Hægt er að fylgjast með streyminu í beinni á vefsíðu og Facebook-síðu Stundarinnar. Á dagskránni koma meðal annars fram höfundurinn Þorgrímur Þráinsson 8. apríl og Kordo kvartettinn flytur lög 10. apríl. Rithöfundurinn og hamfarahlýnunarsérfræðingurinn Andri Snær Magnason ræðir við Höllu Oddnýju 13. apríl., vísindafólkið Sævar Helgi og Hrönn Egilsdóttir ræða saman 15. apríl og myndlistarmennirnir Bergur Thomas Anderson, Logi Leó Gunnarsson og Una Margrét Árnadóttir leiða skapandi fjölskyldusmiðju í GerðarStundinni 17. & 24. apríl. Bæjarlistamaðurinn Ragna Fróðadóttir heldur erindi 20. apríl, SumarJazz verður fluttur 22. apríl.
Bílabíó
Hvar? Smárabíó
Hvenær? 8. apríl kl. 17.00 & 21.00
Streymi: Bílastæði Smáralindar
Smárabíó hefur sett upp tjald á efra plani Smáralindar við inngang bíósins, en þar verður varpað klassísku íslensku kvikmyndunum Jón Oddur og Jón Bjarni kl. 17.00 og Löggulíf kl. 21.00 þann 8. apríl. Sýningarnar eru gestum að kostnaðarlausu, en áhorfendur eru beðnir um að fara ekki úr bílum sínum og koma með eigið snakk.
Tómamengi
Hvar? Mengi
Hvenær? 8. & 10. apríl kl. 20.00
Streymi: Youtube siða Mengis
Mengi hefur brugðist við samkomubanninu með því að færa tónleikahald yfir á Youtube-rás sína. Tónleikar eru haldnir í hverri viku, en að sinni er aðeins búið að tilkynna tónleika Péturs Ben 8. apríl og Magnúsar Jóhanns Ragnarssonar 10. apríl. Tónleikarnir eru ókeypis, en áhorfendur eru hvattir til að greiða listamönnum.
RASK #3
Hvar? Reykjavík
Hvenær? 9. apríl kl. 14.00–23.00
Streymi: raskcollective.com
RASK #3 er þriðji liður í nýrri viðburðaseríu í Reykjavík sem leggur áherslu á nýmiðlalistir, tækniþróun og tilraunir. Sýning eftir fimm listamenn verður opnuð á vefsíðu Rasks, en hún stendur til 30. apríl. Þar að auki verða streymdir í beinni tónleikar með Áslaugu Magnúsdóttur, Miu Ghabarou, Geigen og sideproject.
Listaverk dagsins
Hvar? Listasafn Reykjavíkur
Hvenær? Daglega
Streymi: FB-síða Listasafnsins
Safnið svalar myndlistarþörf listasólgins almennings með daglegum færslum þar sem gluggað er í gegnum safneign Listasafns Reykjavíkur. Í þessum færslum eru myndir og ítarlegar lýsingar á listamönnunum og -konunum að baki þeim. Göngugarpar geta sótt smáforritið Útilistaverk í Reykjavík og fræðst þannig um 200 útilistaverk sem safnið heldur utan um.
Fjarkennsla Kramhússins
Hvar? Kramhúsið
Hvenær? Hvenær sem er
Streymi: kramhusid.is/fjarkennsla
Kennarar Kramhússins hafa fært alla kennslu sína yfir á netið, en stór hluti námsefnisins er aðgengilegur án áskriftar. Má þar á meðal nefna tíma með morgunrútínum, pilates, yoga-tíma, dansleikfimi, danspartí, afródans og danstíma þar sem hreyfingar í anda Lizzo og RuPaul’s Drag Race. Áskrifendum bjóðast síðan enn fleiri fjarkennslutímar.
Heima í Hörpu
Hvar? Harpa
Hvenær? 8. apríl kl. 11.00
Streymi: FB-síða Hörpu
Harpa, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan taka höndum saman og bjóða upp á lifandi tónlistarstreymi úr Eldborg klukkan 11 flesta morgna á meðan samkomubann varir. Síðustu tónleikarnir í röðinni eru 8. apríl, þar sem Þórir Jóhannsson, kontrabassaleikari í Sinfó og píanóleikarinn Ingunn Hildur Hauksdóttir flétta saman spennandi tónlist, en ekki er útilokað að serían verði framlengd.
Borgó í beinni
Hvar? Borgarleikhúsið
Hvenær? Óvissar dagsetningar
Streymi: Youtube-síða Borgarleikhússins
Borgarleikhúsið hefur haldið úti beinu streymi af ýmsu efni út mars. Ekki er búið að tilkynna fleiri viðburði, en enn er hægt að horfa á tónleika með Bubba Morthens, leiklestur á leikritinu Hystory, upptöku af sýningunni Ríkharður III, leikara Borgarleikhússins spila D&D saman, listamannaspjöll og margt fleira.
Leikhúsveisla í stofunni
Hvar? Þjóðleikhúsið
Hvenær? Út apríl
Streymi: RÚV 2
Þjóðleikhúsið sýnir upptökur af mörgum af af ástsælustu leiksýningum síðustu ára. Sýnir hún til dæmis Kugg og leikhúsvélina á föstudaginn langa, Engla alheimsins 11. apríl, Íslandsklukkuna á páskadag, Með fulla vasa af grjóti 18. apríl og Sjálfstætt fólk á sumardaginn fyrsta. Einnig verður sjónvarpað viðtölum við leikara og leikstjóra fyrir hverja sýningu.
Stúdíó Kristall
Hvar? Þjóðleikhúsið
Hvenær? Þriðju- og fimmtudaga kl. 13.00
Streymi: Youtube-síða Þjóðleikhússins
Ólíkir þáttastjórnendur úr röðum skálda, leikara og fleira starfsfólks leikhússins munu bjóða upp á viðtöl, fróðleik og ýmsa skemmtan fyrir landsmenn í beinu streymi tvisvar í viku. Starfsfólkið lætur samkomubann ekki stoppa sig og leitar nú enn nýrra leiða til að nálgast áhorfendur sína. Þjóðleikhúsið beint til þín úr Stúdíó Kristal á Kristalssal Þjóðleikhússins.
Athugasemdir