Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) íhugar nú hvort sjóðurinn eigi að fjárfesta í kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins Thorsil í Helguvík á Reykjanesi. Stjórn sjóðsins fékk fjárfestingarkynningu á verkefninu nú í vor og hefur síðan íhugað möguleikann á því að setja fé í verkefnið og rætt um þann kost á fundum sínum. Þetta herma heimildir Stundarinnar.
Í samtali við Stundina staðfestir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, að fjárfestingin sé til skoðunar: „Við höfum verið að skoða mögulega fjárfestingu í Thorsil, en endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin.“ Verksmiðjan á að geta framleitt 54 þúsund tonn af kísilmálmi árlega.
Thorsil er að hluta til í eigu félags fjárfestisins Einars Sveinssonar, föðurbróður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Bjarni skipar sjálfur fjóra af átta stjórnarmönnum sjóðsins og sitja þau Gunnar Björnsson, Áslaug Friðriksdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Viðar Helgason í stjórn sjóðsins að beiðni ráðherra. Stjórn lífeyrissjóðsins fékk fjárfestakynninguna á Thorsil og það er stjórnin sem kemur að því að ákveða hvort peningar verða settar í verkefnið.
Athugasemdir