Félagið Atlantic Green Chemicals, AGC, hefur stefnt Reykjanesbæ, Reykjaneshöfn og Thorsil ehf. vegna deilna um úthlutun lóðar í Helguvík. Málið var þingfest í héraðsdómi Reykjaness í apríl en frávísunarkrafa Reykjanesbæjar og Thorsil verður tekin fyrir í lok ágúst. AGC fyrirhugar ad byggja lífalkóhól- og glýkólaverksmiðju við Helguvíkurhöfn en umhverfismat vegna fyrirhugaðra framkvæmda var samþykkt án athugasemda frá Skipulagsstofnun 2012.
Aðstandendur félagsins halda því fram að þeir hafi fengið vilyrði frá Reykjaneshöfn um að fá lóðina Berghólabraut 4 í Helguvík undir framkvæmdir. Nú hefur þessari lóð hinsvegar verið ráðstafað til Thorsil sem fyrirhugar að reisa þar kísilverksmiðju. „Þetta getur þýtt það að verkefnið bara dettur upp fyrir,“ segir Jón Jónsson lögmaður AGC í samtali við Stundina. „Þessi staðsetning var ákveðin forsenda fyrir verkefninu og forsenda fyrir hagkvæmni verkefnisins.“
Allt tilbúið
Lífalkóhól- og glýkólaverksmiðja AGC mun ekki hafa neinn útblástur af framleiðslu sinni og áformar að framleiða lífalkóhól úr grænni endurunni orku úr afgangsgufu frá kísilveri United Silicon. „Ástæðan fyrir því að þessi lóð er svona mikilvæg er að menn eru að stefna að því að nota ákveðna varmaorku frá kísilverinu og þess vegna geta menn ekkert farið á einhverja aðra lóð,“ segir Jón Jónsson, lögmaður AGC.
Athugasemdir