Kaupfélag Skagfirðinga boðaði forsvarsmenn samninganefndar bænda og forsvarsmenn Mjólkursamsölunnar á lokaðan fund í Þjóðmenningarhúsinu um miðjan janúar þar sem Ragnar Árnason kynnti niðurstöður sínar um neikvæðar, þjóðhagslegar afleiðingar af afnámi kvótakerfisins í mjólkuriðnaði. Þetta herma heimildir Stundarinnar. Ríkisútvarpið hefur áður greint frá því hvernig Kaupfélagið hefur reynt að beita sér gegn afnámi kvótakerfisins í mjólkuriðnaði.
Samningaviðræður standa nú yfir á milli samninganefndar bænda og íslenska ríkisins um nýja búvörusamninga og hefur „mikið gengið á“ í þeim viðræðum á bak við tjöldin samkvæmt einum heimildarmanni Stundarinnar. Hugmyndin sem er ofan á núna er að kvótakerfið í mjólk verði afnumið og þar með kerfi sem tryggir mjólkurbændum sem selja mjólk innan kerfisins ákveðið verð fyrir mjólkina innan kvótakerfisins. Kaupfélagi Skagfirðinga er mikið í mun að halda í þetta kerfi og var fundurinn í Þjóðmenningarhúsinu einn liður í þeirri viðleitni fyrirtækisins að þrýsta á hagsmunaðila að standa vörð um núverandi kerfi í mjólkuriðnaði.
Athugasemdir