Atvinnuveganefnd Alþingis hefur bætt ákvæði um niðurfellingu ríkisstyrkja vegna dýraníðs inn í frumvarpið um búvörusamningana. Þessi breyting var gerð í hádeginu í dag en margir lýstu óánægju þegar Stundin greindi frá því í gær að breytingartillaga um að heimilt yrði að fella niður stuðningsgreiðslur til þeirra sem brjóta „gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um velferð dýra“ hefði verið felld af 26 þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Mbl.is segir frá því að ákveðið hafi verið að bæta inn ákvæði gegn dýraníði þegar frumvarpið var afgreitt úr atvinnuveganefnd í hádeginu í dag. Gert er ráð fyrir að málið fari til þriðju umræðu og afgreiðslu þingsins í næstu viku. „Við bætum við þeirri heimild Matvælastofnunnar að svipta menn framlögum ef um er að ræða illa meðferð á dýrum og sviptingu leyfa á þeim grunni. Þannig að það er komið inn í lög,“ er haft eftir JóniGunnarssyni, formanni atvinnuveganefndar.
Samfylkingin deilir fréttinni á Twitter og skrifar: „Þrýstingur hefur stundum áhrif! Meirihluti atvinnuveganefndar hlustaði á okkur og tók inn dýraverndunarákvæðið.“
Athugasemdir