Þingmenn leggja afskaplega mismunandi skilning í endurskoðunarákvæði búvörufrumvarpsins sem samþykkt var á Alþingi í síðustu viku.
Hjá Samfylkingunni eru ekki aðeins ólíkar túlkanir á kreiki innan eins og sama þingflokksins heldur hefur líka málflutningur þingmanna tekið stakkaskiptum eftir að búvörufrumvarpið var samþykkt.
Það endurskoðunarákvæði sem rataði á endanum inn í búvörulögin, lögfest þann 13. september, hljóðar svo:
Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019. Skulu bændur eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.
Um er að ræða sama ákvæði og meirihluti atvinnuveganefndar lagði til í 2. umræðu um málið samkvæmt þingskjali frá 29. ágúst.
Þennan dag lagði Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, einnig fram breytingartillögu sem fól meðal annars í sér að gildistími búvörusamninganna yrði styttur og stæði til ársins 2019 frekar en 2026.
Í umræðum þann 30. ágúst hvatti Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, eindregið til þess að breytingartillaga Kristjáns yrði samþykkt. Taldi hann endurskoðunarákvæðið sem meirihluti atvinnuveganefndar hafði lagt til ganga of skammt.
„Það er fagnaðarefni að nefndin skuli leggja upp með þetta víðtæka samráð á næsta kjörtímabili, en það er algjörlega fráleitt að byrja á að gera samning til 10 ára og fara svo í að leita samráðs um hvernig haga eigi samráðsgerðinni,“ sagði Árni sem jafnframt gagnrýndi meirihluta atvinnuveganefndar fyrir að hafa „gefið í skyn að samningurinn sem nú verði staðfestur sé einungis til þriggja ára“. Sagði hann að sér þætti ákvæðið veikburða í ljósi þess að í fjölmörgum greinum frumvarpsins væri vísað til ársins 2026. „Þannig að við erum að fara að lögfesta skuldbindingar til 2026.“
Þá beindi hann sérstaklega orðum sínum til sjálfstæðismanna: „Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli að standa að því að binda hér afturhald og forsjárhyggju í sessi næstu 10 árin með óafturkræfum hætti. Ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt að gengið verði ríkt eftir því að það sé ótvírætt að ný stjórnvöld hafi fullt frelsi til þess að taka ákvarðanir á miðju næsta kjörtímabili.“
Síðar í sömu umræðum sagðist Árni Páll telja að það stæðist ekki stjórnskipan Íslands „að binda svo hendur Alþingis um ókomin ár“.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður sama flokks, greindi frá því í ræðu sama dag að sérfræðingar í samningarétti hefðu komið fyrir viðeigandi þingnefndir og bent þingmönnum á að „meðan það væri ekki sérstaklega tekið fram af þinginu, meiri hlutanum, og sérstök bókun gerð af hálfu bæði Bændasamtakanna og fjármálaráðuneytisins um að sá skilningur væri fyrir hendi og sameiginlegur að það yrði skoðað aftur og endurskoðað eftir þrjú ár, þá gæti þessi samningur þess vegna siglt til tíu ára“. Þá sagðist Össur telja að Bændasamtökin, og eftir atvikum stjórnmálamenn, þyrftu ekki að gera annað en að þvælast fyrir samráðinu árið 2019 til þess að búvörusamningarnir myndu „feta áfram í tíu ár“.
Sigríður Á. Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi búvörusamningana harðlega í umræðunum þennan dag, rétt eins og þingmenn Samfylkingarinnar höfðu gert. Össur Skarphéðinsson beindi eftirfarandi orðum til hennar í kjölfarið: „… langaði mig til þess að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirrar niðursallandi gagnrýni sem hún hefur sett fram á frumvarpið, sem er hnúturinn um búvörusamninginn: Sér hún tilefni til þess að gefa þinginu upp hvaða afstöðu hún hyggst taka? Getur hv. þingmaður annað en greitt atkvæði gegn þessum samningi eftir að hafa hér í mörgum atriðum sett fram mjög vel rökstudda gagnrýni á flest meginatriðin í samningnum?“
Sigríður neitaði að svara spurningunni en aðspurð hvort hún teldi búvörusamningana og lögfestingu þeirra á Alþingi binda hendur löggjafans á næsta kjörtímabili sagði hún: „Bæði rammasamningurinn og þessir þrír samningar sem gerðir eru eru gerðir með fyrirvara um breytingar á nauðsynlegum lögum. Auðvitað getur Alþingi alltaf breytt lögunum. Það breytir því hins vegar ekki að svona langir samningar, ég er þá að tala um til tíu ára, skapa mönnum einhvern rétt. Ég held að ekki verði litið fram hjá því. Þegar menn hafa undirritað samning við ríkið til tíu ára skapar það þeim einhvern rétt jafnvel þótt þessi fyrirvari sé fyrir hendi. Það gæti nefnilega verið erfitt að breyta lögum þannig að það yrði veruleg röskun á högum þeirra sem njóta samningsins. Það er einmitt þess vegna sem ég er á móti því að samningar séu gerðir til svona langs tíma eins og þessi samningur.“
Daginn eftir, þann 31. ágúst, sagði Valgerður Bjarnadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, að endurskoðunarákvæðið væri loðið og að hún treysti því ekki. Þetta endurtók hún í annarri þingræðu sama dag: „Ég segi það líka alveg hreint eins og er að því miður treysti ég ekki alveg þessu endurskoðunarsamkomulagi eftir þrjú ár.“
Þegar annarri umræðu lauk og greidd voru atkvæði um frumvarpið 1. september sagði Össur Skarphéðinsson að það væri ekki hægt að samþykkja svo viðamikinn samning til tíu ára.
„Það kom fram fyrir fagnefndinni að miðað við það hvernig samningurinn liggur fyrir sé verið að samþykkja hann til tíu ára. Ég tel þess vegna að hér sé Alþingi að fara út yfir það sem því er heimilt. Hér er verið að framselja gríðarlega mikið vald út fyrir veggi Alþingishússins. Ef þessi samningur verður samþykktur mun það þýða að við getum ekki breytt búvörulögum næstu tíu árin án samþykkis Bændasamtakanna. Við getum heldur ekki gert alþjóðasamninga um lækkun á tollum á innfluttum landbúnaðarvörum til næstu tíu ára án samþykkis Bændasamtakanna. Ég tel þetta óheimilt samkvæmt stjórnarskrá Íslands, hana ber að virða og þess vegna get ég ekki samþykkt þennan samning,“ sagði Össur.
Málið gekk aftur til atvinnuveganefndar ásamt endurskoðunarákvæði meirihlutans. Þann 8. september lagði Kristján Möller fram breytingartillögu sem fól meðal annars í sér nýtt endurskoðunarákvæði. Lagt var til að það yrði orðað á þessa leið:
Eigi síðar en í lok janúar 2019 skal ráðherra sem fer með landbúnaðarmál leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um samningsmarkmið ríkisins við endurskoðun búvörusamninga og búnaðarlagasamnings.
Í nefndaráliti sínu sagðist Kristjan telja það „afleita stöðu fyrir Alþingi“ að hafa svo takmarkaða möguleika til að gera breytingar á frumvarpinu. „1. minni hluti leggur því til að ráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um samningsmarkmið ríkisins um endurskoðun búvörusamninga og búnaðarlagasamnings eigi síðar en í lok janúar 2019. Þau samningsmarkmið sæti þinglegri meðferð og við þau yrði stuðst í viðræðum við bændur og í fyrirhugaðri endurskoðun“.
Þegar lokaatkvæðagreiðslur um búvörufrumvarpið fóru fram þriðjudaginn 13. september, var breytingartillaga Kristjáns Möllers felld.
Eftir þinglega meðferð frumvarpsins og hvöss orðaskipti milli stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðu var orðalag endurskoðunarákvæðisins ennþá nákvæmlega eins og það hafði verið kynnt í upphafi. Stjórnarandstöðunni hafði semsagt ekki tekist að knýja í gegn breytingar á búvörufrumvarpinu sem fælu í sér ótvíræða möguleika löggjafans á því að endurskoða búvörusamningana árið 2019.
Þrátt fyrir að hafa varað eindregið við ákvæðinu í þessari mynd, skammast í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir að leggja blessun sína yfir það, og fullyrt að það gengi gegn stjórnarskrá og framseldi vald til Bændasamtakanna, ákváðu þingmenn Samfylkingarinnar að sitja hjá ásamt þingmönnum Vinstri grænna og Pírata.
Árni Páll Árnason, Össur Skarphéðinsson og Valgerður Bjarnadóttir sátu öll hjá, þrátt fyrir að hafa vantreyst endurskoðunarákvæðinu og óttast að það byndi hendur löggjafans á næstu kjörtímabilum.
Eftir að gríðarleg reiði blossaði upp vegna hjásetunnar skrifaði Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, pistil á vef Kjarnans. Þar segir hún meðal annars: „Búvörusamningurinn var upphaflega ætlaður til 10 ára með um 14 milljarða kostnaði á ári, en engin svör var að fá við spurningum okkar um það hvernig neytendur gætu hagnast af samningnum, hvað þá bændur. Nú hefur hann verið styttur niður í þrjú ár og við ætlum leggja allt kapp á breyta kerfinu fyrir þann tíma, og vanda okkur við það.“
Árni Páll tók í sama streng í tölvupósti til Stundarinnar fyrir helgi: „Hjáseta okkar við lokaafgreiðslu skýrðist af því að einhver samningur þarf að vera í gildi og við höfum kreist það skýrt út úr stjórnarmeirihlutanum að nýr þingmeirihluti getur tekið samninginn upp. Það er því yfirlýst af löggjafanum að þetta sé ekki samningur til 10 ára.“
Skiptar skoðanir eru um þessa túlkun á nýju lögunum. Ef marka má orð Össurar frá 30. ágúst gengur túlkunin í berhögg við ábendingar frá sérfræðingum í samningarétti sem þingnefndir ráðfærðu sig við.
Í pistli sem birtist á vef ASÍ í dag er fullyrt að endurskoðunarákvæðið sé „afar skýrt og engin launung á að búvörusamningar gilda til 10 ára og bændur hafa fullt neitunarvald til að hafna þeim breytingum sem samráðshópurinn leggur til“.
Bent hefur verið á að greiðslur vegna búvörulaga þarf að samþykkja á fjárlögum hvers árs, rétt eins og gildir um aðrar fjárveitingar hins opinbera. Ef gerðar verða verulegar breytingar á búvörusamningunum á næsta kjörtímabili – svo mjög að þær raski starfsskilyrðum bænda eða annarra úr landbúnaðargeiranum – má þó ætla að þeir sem bera skarðan hlut frá borði leiti réttar síns.
Þá fyrst mun reyna á vægi endurskoðunarákvæðisins og þingflokkur Samfylkingarinnar getur gert upp hug sinn ef hann verður ennþá til.
Athugasemdir