Júlíus Vífill Ingvarsson hóf borgarstjórnarfund í dag á því að segja af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Á fundinum svaraði Júlíus spurningum varðandi eign hans í Panama. Útskýrði hann að um lífeyrissjóð væri að ræða en ekki félag sem gæti átt í viðskiptum. Sagði hann jafnframt að mikilvægt væri að farið yrði yfir hagsmundaskráningu borgarstjórnar. Þar væri þess ekki getið að skrá ætti lífeyris- og séreignasjóði, og þessvegna hefði hann ekki skráð eignir sínar í Panama þar.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, þakkaði Júlíusi fyrir vel unnin störf og bætti því við að hann hefði tekið hárrétta ákvörðun.
Fundur borgarstjórnar hófst klukkan tvö í dag. Þar á að ræða tillögu forsætisnefndar um að skoða hvort borgarfulltrúarnir Júlíus Vífill Ingvarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hafi farið á svig við lög með því að eiga félög á þekktum aflandseyjum.
Nafn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttir kemur einnig fram í skjölum Panama-lekans. Tengist hún tveimur aflandsfélögum, annað skráð á Tortóla og hitt á Panama. Félagið sem skráð er á Panama ber nafnið Ice 1 Corp og er í eigu einkahlutafélagsins P-10 ehf. og er Sveinbjörg er skráður stjórnarformaður. „Samkvæmt nýjasta ársreikningi P-10 ehf. á félagið íbúðir í byggingu í Panama að verðmæti 177.625.050 króna.” segir á vefsíðu Reykjavík media. Segist Sveinbjörg hafa talið að búið væri að slíta félaginu.
Aflandsfélag Júlíusar Vífils í Panama var stofnað árið 2014. Á föstudaginn sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann hafi hugsað sér sjóðinn í eftirlaunatilgangi. Hann er einnig varamaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar.
Er Sveinbjörg Birna í fæðingarorlofi, en sendi hún frá sér yfirlýsingu, þar sem hún sagðist ætla í tímabundið leyfi þar til rannsókn á því hvort lög hefðu verið brotin yrði lokið.
Athugasemdir