Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Stórtækir í afskriftum halda áfram að kaupa upp land

Bygg­inga­fé­lag Gylfa og Gunn­ars á í við­ræð­um við Lands­bank­ann um kaup á rúm­um 35 hekt­ur­um í Reykja­nes­bæ sem trygg­ir þeim bygg­ing­ar­rétt á allt að 485 íbúð­um. Keyptu Set­bergsland­ið fyr­ir einn millj­arð í janú­ar.

Stórtækir í afskriftum halda áfram að kaupa upp land
Múrarameistarar í stórsókn Þrátt fyrir milljarðaafskriftir eru þeir félagar Gylfi og Gunnar í stórsókn. Hér sjást þeir ásamt Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra í Garðabæ, þar sem þeir tóku skóflustungu við Strikið 1 í Sjáalandinu. Mynd: Bygg.is

Byggingafélag Gylfa og Gunnars átti hæsta boð í Miðland ehf., fjárfestinga- og fasteignafélag sem á yfir 35 hektara land á Neðra-Nikel svæðinu í Reykjanesbæ. Frá þessu er greint á vef Local Suðurnes. 

Þar kemur fram að fjögur tilboð hafi borist í þetta opna söluferli sem var auglýst á vef Landsbankans þann 1. október síðastliðinn en frestur til að skila inn tilboðum rann út miðvikudaginn 26. október. Þá segir einnig að Landsbankinn eigi nú í viðræðum við þann sem bauð hæst.

Stundin hafði samband við Landsbankann og fékk staðfest að fjögur tilboð hefðu borist Hömlum ehf, dótturfélagi bankans sem á og fer með allt útgefið hlutafé í Miðlandi ehf. Ekki fengust þó nánari upplýsingar um söluferlið, hvorki hvaða félög skiluðu inn tilboðum eða hversu hátt hæsta tilboðið var.

Þá var einnig óskað eftir upplýsingum um Miðland ehf, og verðmat þess þegar Landsbankinn tók það yfir með yfirtöku sinni á Sparisjóði Keflavíkur. Beðið er eftir umræddum upplýsingum frá bankanum en fyrirspurn þess efnis var send skriflega.

Uppfært 17:01- Svar Landsbankans

Allt hlutafé í Miðlandi ehf. var auglýst til sölu 1. október sl. og rann frestur til að skila tilboðum út í lok sama mánaðar. Fjögur tilboð bárust í útboðsferlinu. Landsbankinn á nú í viðræðum við hæstbjóðanda um kaup á félaginu. Á meðan á viðræðum stendur getur Landsbankinn ekki veitt frekari upplýsingar um málið.

Þá hafði Stundin samband við Byggingafélag Gylfa og Gunnars en eigendur félagsins voru ekki við. Þeim var send fyrirspurn í tölvupósti en svar hafði ekki borist fyrir birtingu fréttarinnar.

485 íbúðir á 35 hektara svæði

Eign Miðlands er tvíþætt en samkvæmt auglýsingu bankans frá því í október á þessu ári kemur fram að annars vegar er um að ræða eignarland upp á 34 hektara sem er skipulagt undir byggingu á allt að 485 íbúðum ásamt 1,4 hekturum undir atvinnuhúsnæði. Hins vegar er um að ræða samning við Reykjanesbæ um að Miðland annist gatnagerð á svæðinu og hljóti tekjur fyrir.

Þá segir einnig í auglýsingu bankans að deiliskipulag fyrir hluta byggingarlandsins hafi þegar verið samþykkt og gerir ráð fyrir byggingu á samtals 300 íbúðum. „Gatna-og holræsagerð hefur verið unnin að hluta til á svæðinu og hægt er að hefja framkvæmdir á hluta lóðanna nú þegar. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir byggingu allt að 185 íbúða til viðbótar.“

Keyptu landið á 867 milljónir árið 2007

Fjallað er um Miðland í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Þar kom meðal annars fram að félagið hefði verið einn af stærstu lántakendum hjá Sparisjóði Keflavíkur en samkvæmt veðbókarvottorði 18. mars 2009 voru áhvílandi á landinu, miðað við uppreiknaðan höfuðstól, tæplega 1,4 milljarðar króna og var sparisjóðurinn eini veðhafinn. Upphaf lánveitinga til Miðlands ehf. má rekja aftur febrúar 2006 þegar félagið keypti Nikel-svæðið af Húsagerðinni ehf. og yfirtók 150 milljóna króna lán frá Sparisjóðnum í Keflavík. Eigendur félagsins voru þá tveir, Elías Georgsson og Sverrir Sverrisson. Það átti þó ekki eftir að standa lengi.

Samkvæmt minnisblaði sem lagt var fyrir stjórn Sparisjóðsins í Keflavík var ekki samstaða milli eigenda um framsetningu mála gagnvart skipulagsyfirvöldum og væri vandséð hvernig þau yrði leyst með óbreyttu eignarhaldi.

„Til að lágmarka áhættu sparisjóðsins gagnvart Miðlandi ehf. gæti sparisjóðurinn þurft að leysa til sín hluti í félaginu. Í niðurlagi minnisblaðsins kom fram að forráðamenn Reykjanesbæjar hefðu sýnt mikinn áhuga á því að vinna með sparisjóðnum eða öðrum. Sparisjóðsstjóri fór yfir stöðu Miðlands ehf. og taldi að hann þyrfti heimild stjórnar til að bregðast við stöðu félagsins svo tryggja mætti hagsmuni sparisjóðsins, hugsanlega með kaupum á svæðinu. Stjórnin heimilaði sparisjóðsstjóra að ljúka málinu,“ segir um málið í rannsóknarskýrslunni.

Þar kemur enn fremur fram að skrifað var undir kaupsamning milli Víkna ehf. annars vegar og Sverris Sverrissonar og Elíasar Georgssonar hins vegar 31. ágúst 2007. Víkur ehf. keyptu 100% hlut í Miðlandi ehf. fyrir 867 milljónir króna. Greitt yrði fyrir félagið við undirritun samnings með reiðufé, 300 milljónir króna til Elíasar og 299 milljónir króna til Sverris. Ákveðin skilyrði voru þó sett fyrir hluta greiðslna til Sverris. Afgangur kaupverðsins, 268 milljónir króna, skyldi greiddur með yfirtöku á skuldum Elíasar og Sverris við Miðland ehf.

Eins og áður segir er ekki vitað hvað tilboð Byggingafélags Gylfa og Gunnars hljóðaði upp á. Nánar er hægt að lesa um Miðland ehf. og hlut félagsins í rannsóknarskýrslunni hér neðst í fréttinni.

Byggja og byggja
Byggja og byggja Neðri-Nikel svæðið í Reykjanesbæ býður upp á byggingarétt á 485 íbúðum.

Kaupa land um allt land

Þetta mun vera önnur stóra landspildan sem þeir viðskiptafélagar og múrarameistarar Gylfi Ómar Héðinsson og Gunnar Þorláksson reyna að komast yfir á þessu ári en í janúar keyptu þeir hið svokallaða „Setbergsland“ fyrir einn milljarð. Sú sala var einnig á vegum Landsbankans en Stundin fjallaði um það söluferli í febrúar. Þar kom meðal annars fram að ríkisbankinn Landsbankinn hefði selt Setbergslandið í Garðabæ á rétt rúmlega einn milljarð króna um miðjan janúar eftir að hafa keypt landið á tæpa tvo milljarða króna árið 2012.

Samkvæmt því hafði verðmæti Setbergslandsins því minnkað um tæpan helming meðan á eignarhaldi bankans á því stóð.

Talað var um að mögulegt væri að byggja um 630 íbúðaeiningar á svæðinu og að um 2000 manns gætu búið þar. Þessi uppbygging hefur verið nefnd sem hluti aðgerða sem miða að því að tvöfalda íbúafjölda Garðabæjar í um 30 þúsund fyrir árið 2030.

Báðir í Panama-skjölunum

Bæði Gylfi Ómar og Gunnar hafa verið stórtækir í alls kyns viðskiptum síðustu ár en hafa þó mest látið að sér kveða í byggingageiranum. Þannig hafa þeir byggt hátt í þrjú þúsund íbúðir ásamt því að fjárfesta í fjármálafyrirtækjum hér á landi. Nafn þeirra mátti einnig finna í Panama-skjölunum líkt og Stundin greindi frá en þeir áttu félag á Bresku Jómfrúareyjunum á árunum 2004 til 2012. Í frétt Stundarinnar frá því í maí á þessu ári kom fram að þeir hafi notfært sér þjónustu lögmannstofunnar Mossack Fonseca í gegnum Kaupþing í Lúxemborg og síðar bankann Banque Havilland sem var stofnaður upp úr rústum íslenska útibúsins.

Þá sýndu Panama-skjölin að Nóatúnsfjölskyldan, sem þeir Gylfi og Gunnar stofnuðu fjárfestingafélagið Saxbygg með, áttu einnig aflandsfélag á sömu eyjum.

Hundrað þúsund milljónir afskrifaðar

Saxbygg átti 5 prósenta hlut í Glitni í gegnum félagið Saxbygg Invest en jafnframt hlut í Smáralind og fjölda fasteigna á höfuðborgarsvæðinu. Þegar Saxbygg fór í þrot voru gerðar 130 milljarða kröfur í þrotabúið en aðeins 30 milljarðar skiluðu sér. Dótturfélag þess, Saxbygg Invest, fór einnig í þrot. Af þeim 42 milljarða kröfum sem gerðar voru í þrotabúið skiluðu sér aðeins 27 milljónir. Að sama skapi skildi eignarhaldsfélagið CDG, í eigu Gunnars og Gylfa, eftir sig um 16 milljarða króna skuldir sem nær ekkert fékkst upp í. Þannig er ljóst að félög í eigu Gunnars og Gylfa hafa fengið tugi milljarða afskrifaða af skuldum sínum eftir hrun. Eitthvað í kring um hundrað þúsund milljónir.

Þrátt fyrir það létu félagarnir ekki deigan síga og með afskriftum sem jaðra á við Íslandsmet var tilkynnt um stórsókn þeirra félaga í fjölmiðlum, meðal annars í DV árið 2012. Þar kom fram undir fyrirsögninni „Skuldarar í stórsókn“ að þeir væru „komnir á flug“ og á fleygiferð í uppbyggingu. Í nóvember 2012 greindi svo DV frá því að Gylfi væri að reisa sér 500 fermetra glæsihýsi í Kópavogi.

Rannsóknarskýrsla Alþingis

Miðland ehf. og Sparisjóðurinn í Keflavík

Miðland ehf. var dótturfélag Sparisjóðsins í Keflavík og átti um 33 hektara byggingarland á Miðnesheiði í Reykjanesbæ, svokallað „Nikel-svæði“. Um var að ræða jarðvegsskipt svæði þar sem búið var að skipuleggja götur og stóð til að byggja þar 600 íbúðir.110

Eigandi Miðlands ehf. frá október 2007 var NIKEL ehf. sem þá var í eigu fjögurra félaga: Víkur ehf. (55%), Fasteignafélagsins Þreks ehf. (20%), Ásbirninga ehf. (20%) og Vallaráss ehf. (5%).111 Víkur ehf. var að fullu í eigu Sparisjóðsins í Keflavík en auk þess sat forstöðumaður sparisjóðsins í stjórn Miðlands ehf. Félagið Ásbirningar ehf. var í eigu S-14 ehf. og Fuglavíkur ehf.112

Á tímabilinu frá mars 2006 til október 2008 jukust skuldbindingar Miðlands ehf. hjá Sparisjóðnum í Keflavík úr um 146 milljónum króna í um 998 milljónir króna. Til tryggingar útlánum sparisjóðsins til Miðlands ehf. gaf félagið út nokkur tryggingarbréf með veði í landspildunni „Neðra-Nikel“ sem er óbyggt land í Reykjanesbæ. Samkvæmt veðbókarvottorði 18. mars 2009 voru áhvílandi á landinu miðað við uppreiknaðan höfuðstól tæplega 1,4 milljarðar króna og var sparisjóðurinn í Keflavík eini veðhafinn.

Upphaf lánveitinga til Miðlands ehf. má rekja aftur til febrúar 2006 þegar félagið keypti Nikel-svæðið af Húsagerðinni ehf. og yfirtók 150 milljóna króna lán frá Sparisjóðnum í Keflavík. Til tryggingar skuldinni var útgefið tryggingarbréf að sömu fjárhæð með 1. veðrétti í Neðra-Nikel í Reykjanesbæ. Þá veitti sparisjóðurinn Miðlandi ehf. aukna fyrirgreiðslu um 100 milljónir króna 23. október 2006 sem tryggð var með veði í sama landi.

Fyrirgreiðsla sparisjóðsins til Miðlands ehf. nam 452 milljónum króna í júlí 2007 en þá átti félagið í viðræðum við Reykjanesbæ um skipulag á Neðra-Nikel svæðinu. Samkvæmt minnisblaði sparisjóðsins frá 20. júlí 2007 kom fram að ágreiningur væri milli þáverandi eigenda Miðlands ehf. og Reykjanesbæjar og „vandséð […] hvernig leyst [yrði] úr honum með óbreyttu eignarhaldi á félaginu“. Lagt var til að sparisjóðurinn leysti til sín félagið og kæmi málum í farveg fyrir frekari framgang svæðisins. Á næsta stjórnarfundi sparisjóðsins 31. júlí 2007 var samþykkt að dótturfélag sparisjóðsins, Víkur ehf., keypti Miðland ehf. fyrir 867 milljónir króna. Nikel-svæðið var í þessum kaupum metið á 599 milljónir króna auk þess sem Víkur ehf. yfirtók 268 milljóna króna lán fyrri eigenda Miðlands ehf. til félagsins sjálfs. Í verðmati á svæðinu frá svipuðum tíma var byggingarréttur á því metinn á bilinu 1.945 til 2.345 milljónir króna.113

Í lok árs 2007 skuldaði Miðland ehf. sparisjóðnum 195 milljónir króna í íslenskum krónum, en þeim skuldbindingum var myntbreytt í mars 2008 með nýjum lánasamningi sem nam jafnvirði 200 milljóna króna. Lánveitingin var samþykkt á fundi lánanefndar sjóðsins 14. febrúar 2008. Skuldbindingar félagsins í erlendri mynt í árslok 2007 voru metnar að jafnvirði 304 milljóna króna. Öll lán félagsins voru endurfjármögnuð með nýjum lánasamningi í erlendri mynt sem nam jafnvirði 926 milljóna króna 23. mars 2009, og enn á ný 1. september 2009 með tveimur lánasamningum í íslenskum krónum. Annað lánið nam 221 milljón króna og var óverðtryggt og vaxtalaust. Ytri endurskoðandi sparisjóðsins benti á í skýrslu sinni um venslaða aðila sparisjóðsins 31. mars 2010 að samanburðarlán við lán Miðlands ehf. bæri 12% vexti meðan lán Miðlands ehf. bæri enga vexti.114

Sparisjóðurinn færði sérgreint afskriftarframlag upp á 139 milljónir króna vegna skuldbindinga Miðlands ehf. í lok árs 2009. Við mat á eignasafni Spkef sparisjóðs við samruna við Landsbankann hf. var miðað við að virði trygginga væri um 11 milljónir króna en Spkef sparisjóður mat verðmæti trygginga á 604 milljónir króna. Hinn mikla mun á mati trygginga má helst rekja til þess að Landsbankinn notaði lóðamat Fasteignamats ríkisins en sparisjóðurinn miðaði sitt mat við áætlaðan fjölda íbúða á svæðinu.115

Kaup á Miðlandi

Miðland ehf. var félag sem átti hið svokallaða „Nikelsvæði“ eða Neðra-Nikel. Svæðið hafði upphaflega verið tekið eignarnámi í síðari heimsstyrjöldinni en í mars 2003 auglýsti Ríkiskaup svæðið til sölu. Kaupandi svæðisins var Húsagerðin ehf. og kaupverðið 150 milljónir króna.206 Miðland ehf. keypti Nikelsvæðið af Húsagerðinni ehf. árið 2005 fyrir 150 milljónir króna. Var svæðið þá sagt vera 51,5 hektari að stærð. Sama ár seldi Miðland ehf. Reykjanesbæ 14,6 hektara af svæðinu fyrir 45 milljónir króna. Árið 2006 eignuðust Elías Georgsson og Sverrir Sverrisson hvor sinn helminginn í félaginu.

Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík fjallaði um Miðland ehf. á fundi 23. júlí 2007. Þá skuldaði félagið sparisjóðnum 452 milljónir króna. Í minnisblaði sem lagt var fyrir stjórn og unnið af G. Grétari Grétarssyni, fulltrúa sparisjóðsstjóra, kom fram að ágreiningur væri milli Miðlands ehf. og Reykjanesbæjar um ákvæði í samningi þeirra á milli. Ekki væri samstaða milli eigenda um framsetningu mála gagnvart skipulagsyfirvöldum og væri vandséð hvernig þau yrðu leyst með óbreyttu eignarhaldi. Til að lágmarka áhættu sparisjóðsins gagnvart Miðlandi ehf. gæti sparisjóðurinn þurft að leysa til sín hluti í félaginu. Í niðurlagi minnisblaðsins kom fram að forráðamenn Reykjanesbæjar hefðu sýnt mikinn áhuga á því að vinna með sparisjóðnum eða öðrum. Sparisjóðsstjóri fór yfir stöðu Miðlands ehf. og taldi að hann þyrfti heimild stjórnar til að bregðast við stöðu félagsins svo tryggja mætti hagsmuni sparisjóðsins, hugsanlega með kaupum á svæðinu. Stjórnin heimilaði sparisjóðsstjóra að ljúka málinu.207

Skrifað var undir kaupsamning milli Víkna ehf. annars vegar og Sverris Sverrissonar og Elíasar Georgssonar hins vegar 31. ágúst 2007. Víkur ehf. keyptu 100% hlut í Miðlandi ehf. fyrir 867 milljónir króna. Greitt yrði fyrir félagið við undirritun samnings með reiðufé, 300 milljónir króna til Elíasar og 299 milljónir króna til Sverris. Ákveðin skilyrði voru þó sett fyrir hluta greiðslna til Sverris. Afgangur kaupverðsins, 268 milljónir króna, skyldi greiddur með yfirtöku á skuldum Elíasar og Sverris við Miðland ehf.

Sparisjóðsstjóri kynnti stjórninni 3. september 2007 áreiðanleikakönnun lögmannsstofunnar Landslaga ehf. á Miðlandi ehf. fyrir sparisjóðinn. Könnunin hefði komið vel út og var kaupsamningur undirritaður 31. ágúst 2007.208 Í áreiðanleikakönnuninni kom þó meðal annars fram að samningar um sölu þriggja lóða hefðu aðeins verið gerðir munnlega og væru „fremur lausir í reipunum“. Einnig var bent á mat Skipulagsstofnunar um að deiliskipulag væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Breyta þyrfti aðalskipulagi til þess að hægt væri að breyta deiliskipulaginu. Breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar væri háð samþykki Reykjanesbæjar, leyfi Skipulagsstofnunar og staðfestingu umhverfisráðherra.209

Hinn 15. október 2007 var undirritaður kaupsamningur milli óstofnaðs félags, Nikel ehf., og Víkna ehf. um kaup þess fyrrnefnda á Miðlandi ehf. af Víkum ehf. fyrir 867 milljónir króna. Samkvæmt hluthafasamningi Nikel ehf. voru eigendur þess Víkur ehf. (55%), Fasteignafélagið Þrek ehf. (20%), Ásbirningar ehf. (20%) og Vallarás ehf. (5%). Miðland ehf. tapaði 27,4 milljónum króna á árinu 2006, 5,1 milljón króna ári síðar og 279 milljónum króna árið 2008.

Fjúk ehf. og kaup á Miðlandi ehf.

Eignarhaldsfélagið Verne ehf. var stofnað í júlí 2007 af lögmannsstofunni Landslögum ehf. sem var skráð fyrir öllu hlutafé í félaginu. Í nóvember 2007 var nafni félagsins breytt í Fjúk ehf. Sparisjóðurinn í Keflavík leitaði til lögmannsstofunnar um kaup á félagi til þess að sinna ákveðnum verkefnum á vegum sparisjóðsins og seldi lögmannsstofan sparisjóðnum Fjúk ehf. Sparisjóðsstjóri varð stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Fjúks ehf. en aldrei var gengið formlega frá framsali hlutanna til sparisjóðsins þó lögheimili þess væri flutt í höfuðstöðvar hans.

Með því að sparisjóðsstjóri settist í stjórn Fjúks ehf. varð félagið venslaður aðili sparisjóðsins, sbr. 4. tl. 1. mgr. 26. gr. starfsreglna stjórnar, og sparisjóðsstjóra og var getið sem slíks í skýrslu til fjármálaeftirlitsins í lok árs 2007. Sparisjóðurinn í Keflavík veitti Fjúki ehf. 125 milljóna króna yfirdráttarheimild í nóvember 2007. Samkvæmt upplýsingum úr kerfum sparisjóðsins sá fyrirtækjasvið sparisjóðsins um að ganga frá lánveitingunni. Þar sem Fjúk ehf. var aðili venslaður sparisjóðnum hefði lánveitingin átt að koma fyrir stjórn sparisjóðsins en fundargerðir stjórnar bera ekki með sér að hún hafi haft lánveitinguna til umfjöllunar. Þá er ekki að finna umfjöllun um lánið í fundargerðum lánanefndar, en lánið var það hátt að það hefði átt að fara fyrir þá nefnd. Má því ætla að sparisjóðsstjóri hafi sjálfur tekið ákvörðun um lánveitinguna án aðkomu lánanefndar eða stjórnar.

Fjármagnshreyfingar í tengslum við lánveitinguna til Fjúks ehf. eru raktar í minnisblaði sem unnið var af Landsbankanum hf. Þar kemur fram að lán til félagsins hafi verið notuð til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum í VBS Fjárfestingarbanka hf. Sama dag og fyrirgreiðslan til Fjúks var veitt hafi 120 milljónir króna verið færðar af reikningi félagsins yfir á bakreikning verðbréfaviðskipta hjá Sparisjóðnum í Keflavík í eigu sjóðsins. Af þessum bakreikningi hafi 120 milljónir króna verið millifærðar inn á reikning Víkna ehf., dótturfélags sparisjóðsins. Fasteignafélagið Þrek ehf. var seljandi hlutabréfanna í VBS Fjárfestingarbanka hf. sem Fjúk ehf. keypti. Samkvæmt minnisblaði Landsbankans hf. má tengja viðskiptin við stofnun Nikel ehf. og að 120 milljóna króna hlutur Fasteignafélagsins Þreks ehf. í Nikel ehf. hafi verið fjármagnaður með framangreindum viðskiptum. Tölvupóstur 28. nóvember 2007, frá starfsmanni sparisjóðsins til forstöðumanns fjármálasviðs sparisjóðsins og eins eiganda Húsaness ehf. sem átti Fasteignafélagið Þrek, staðfestir þetta. Í tölvupóstinum segir starfsmaðurinn að hann og sá eigandi Húsaness ehf. sem fékk póstinn hafi rætt saman um frágang vegna viðskipta með hlutabréf Fasteignafélagsins Þreks ehf. í VBS Fjárfestingarbanka hf. sem ráðstafað yrði til kaupa á eignarhlut í Miðlandi ehf. Fasteignafélagið Þrek ehf. átti 3.522.648 hluti í bankanum. Samkvæmt tölvupóstinum stóð til að keyptir yrðu af þeim 3 milljónir hluta á genginu 40 fyrir samtals 120 milljónir króna. Engin þóknun yrði greidd og andvirðinu ráðstafað inn á reikning Víkna ehf. Eftir eitt ár yrði afgangurinn, 522.648 hlutir, keyptur á genginu 46, einnig án þóknunar.210 Gengið var frá þeim viðskiptum í nóvember 2008 á genginu 46.211

Í minnisblaði Landsbankans var talið að hagsmunir sparisjóðsins hefðu ekki verið hafðir í fyrirrúmi við þessa lánveitingu þar sem engar tryggingar hefðu verið fyrir henni. Gögn sem eðlilegt hefði verið að fylgdu fyrirgreiðslunni hefðu ekki verið til staðar. Enginn lánssamningur hefði legið fyrir og hvorki mat á greiðsluhæfi né tryggingar eða önnur gögn sem tryggja hefðu átt eðlilegar endurheimtur á láninu.

Í lok árs 2008 höfðu 60 milljónir króna verið færðar í afskriftareikning vegna lánveitingarinnar til Fjúks ehf. og ári síðar nam niðurfærslan 164 milljónum króna. Fjúk ehf. var úrskurðað gjaldþrota í júní 2012.

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Fjármálahrunið

Jón Ásgeir var á „djöflamergnum“ og reyndi að fá Samherja inn í Stím
FréttirFjármálahrunið

Jón Ás­geir var á „djöfla­mergn­um“ og reyndi að fá Sam­herja inn í Stím

Tölvu­póst­ur frá Sam­herja, sem send­ur var fyr­ir hönd Þor­steins Más Bald­vins­son­ar, til Jóns Ás­geirs Jó­hann­es­son­ar sýn­ir hvernig það var Jón Ás­geir sem reyndi að setja sam­an fjár­festa­hóp­inn í Stím. Lár­us Weld­ing var dæmd­ur í fimm ára fang­elsi í mál­inu en Jón Ás­geir sagði fyr­ir dómi að hann hefði ekk­ert kom­ið að við­skipt­un­um.

Mest lesið

Fyrsta barnið fætt á Seyðisfirði í yfir 30 ár - „Fór allt á besta veg miðað við aðstæður“
1
Fréttir

Fyrsta barn­ið fætt á Seyð­is­firði í yf­ir 30 ár - „Fór allt á besta veg mið­að við að­stæð­ur“

Fyrsta barn­ið í yf­ir þrjá ára­tugi fædd­ist á Seyð­is­firði í dag eft­ir snjó­þunga nótt þar sem Fjarð­ar­heið­in var ófær. Varð­skip­ið Freyja var einnig til taks ef flytja þyrfti móð­ur­ina á Nes­kaups­stað. „Þetta er enn ein áminn­ing­in um ör­ygg­is­leys­ið sem við bú­um við,“ seg­ir ný­bök­uð móð­ir­in.
Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI ævaforn rómversk kveðja
2
Flækjusagan

Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI æva­forn róm­versk kveðja

Hin við­ur­styggi­lega nas­ista­kveðja Elons Musks dag­inn sem Don­ald Trump var sett­ur í embætti hef­ur að von­um vak­ið mikla at­hygli. Kannski ekki síst vegna þess að kveðj­una lét Musk flakka úr ræðu­stól sem var ræki­lega merkt­ur for­seta Banda­ríkj­anna. Hin fasíska til­hneig­ing margra áhang­enda Trumps hef­ur aldrei fyrr birst á jafn aug­ljós­an hátt — enda lét Musk sér ekki nægja að heilsa...
Sigmundur Davíð ver Musk með hæpnum samanburði
3
Greining

Sig­mund­ur Dav­íð ver Musk með hæpn­um sam­an­burði

Á með­an að öfga­menn og nýnas­ist­ar víða um heim upp­lifa vald­efl­ingu og við­ur­kenn­ingu og fagna an­kanna­legri kveðju Elons Musks spyr fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Ís­lands hvort ís­lensk­ir fjöl­miðl­ar ætli í al­vöru að flytja þá fals­frétt að handa­hreyf­ing sem leit út eins og nas­ista­kveðja, frá manni sem veit­ir öfga­full­um sjón­ar­mið­um vængi flesta daga, hafi ver­ið nas­ista­kveðja.
Yfirgangstal með óþægilega hliðstæðu
4
StjórnmálBandaríki Trumps

Yf­ir­gangstal með óþægi­lega hlið­stæðu

Embætt­i­staka Don­alds Trumps vek­ur upp spurn­ing­ar sem við Ís­lend­ing­ar þurf­um að hugsa alla leið, með­al ann­ars í ljósi yf­ir­lýs­inga hans gagn­vart Græn­landi og Kan­ada, seg­ir Frið­jón R. Frið­jóns­son borg­ar­full­trúi. Hann kveðst einnig hafa „óþæg­inda­til­finn­ingu“ gagn­vart því að vellauð­ug­ir tækni­brós­ar hjúfri sig upp að Trump, sem nú fer á ný með fram­kvæmda­vald­ið í lang­vold­ug­asta ríki heims.
Sólveig Anna sendi bréf á móðurfélög Subway og Hard Rock Cafe
6
Fréttir

Sól­veig Anna sendi bréf á móð­ur­fé­lög Su­bway og Hard Rock Ca­fe

Fé­lög­in sem reka Su­bway og Hard Rock Ca­fé á Ís­landi eru að­il­ar að SVEIT, sem Efl­ing seg­ir að stað­ið hafi fyr­ir stofn­un gervistétt­ar­fé­lags til að rýra kjör starfs­manna í veit­inga­geir­an­um. Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir formað­ur fé­lags­ins hef­ur nú skrif­að bréf út til al­þjóð­legra móð­ur­fé­laga þess­ara tveggja veit­inga­staða­keðja og beð­ið þau um að rann­saka starfs­hætti sér­leyf­is­haf­ana hér­lend­is.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Sigurjón sagði hana einfalda en skemmtilega - Enginn mannanna fékk samþykki
3
Fréttir

Sig­ur­jón sagði hana ein­falda en skemmti­lega - Eng­inn mann­anna fékk sam­þykki

Eng­inn þeirra karl­manna sem komu á heim­ili þroska­skertr­ar konu til að hafa kyn­mök við hana var ákærð­ur. Þó hafði eng­inn þeirra feng­ið sam­þykki henn­ar. Sál­fræð­ing­ur seg­ir hana hafa upp­lif­að sjálfs­vígs­hugs­an­ir á þessu tíma­bili. Óút­skýrð­ar taf­ir á lög­reglu­rann­sókn leiddu til mild­un­ar refs­ing­ar yf­ir Sig­ur­jóni Ól­afs­syni, fyrr­ver­andi yf­ir­manni kon­unn­ar.
Það rís úr djúpinu 1: Gríðarlegt vatnsmagn leynist á 660 kílómetra dýpi, og demantar
4
Flækjusagan

Það rís úr djúp­inu 1: Gríð­ar­legt vatns­magn leyn­ist á 660 kíló­metra dýpi, og dem­ant­ar

Fyr­ir fá­ein­um dög­um birti vef­rit­ið Science Al­ert fregn um rann­sókn, sem raun­ar var gerð ár­ið 2022, en hef­ur ekki far­ið hátt fyrr en nú. Hér er frá­sögn Science Al­ert. Rann­sak­að­ur var ör­lít­ill dem­ant­ur sem fund­ist hafði í dem­antanámu í rík­inu Bótsvana í suð­ur­hluta Afr­íku. Hér er sagt frá þeirri rann­sókn í vef­rit­inu Nature.com. Í ljós kom að dem­ant­ur­inn hafði mynd­ast...
Fyrsta barnið fætt á Seyðisfirði í yfir 30 ár - „Fór allt á besta veg miðað við aðstæður“
6
Fréttir

Fyrsta barn­ið fætt á Seyð­is­firði í yf­ir 30 ár - „Fór allt á besta veg mið­að við að­stæð­ur“

Fyrsta barn­ið í yf­ir þrjá ára­tugi fædd­ist á Seyð­is­firði í dag eft­ir snjó­þunga nótt þar sem Fjarð­ar­heið­in var ófær. Varð­skip­ið Freyja var einnig til taks ef flytja þyrfti móð­ur­ina á Nes­kaups­stað. „Þetta er enn ein áminn­ing­in um ör­ygg­is­leys­ið sem við bú­um við,“ seg­ir ný­bök­uð móð­ir­in.

Mest lesið í mánuðinum

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
1
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
2
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
4
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár