Sigríður Andersen dómsmálaráðherra lýsti efasemdum fyrir Íslands hönd gagnvart fyrirhuguðum breytingum á Dyflinnarreglugerðinni og áformum um aukna samábyrgð Evrópuríkja vegna flóttamannavandans á fundi dómsmálaráðherra og innanríkisráðherra í Valetta á Möltu í síðustu viku.
Þetta kemur fram á vef innanríkisráðuneytisins en á fundinum voru Schengen-samstarfið og málefni hælisleitenda til umræðu.
„Ráðherra greindi þar frá áherslum nýrrar ríkisstjórnar Íslands í hælismálum ásamt efasemdum Íslands gagnvart fyrirhuguðum breytingum á Dyflinnarreglugerðinni, þ.e. aukinni samábyrgð vegna afgreiðslu hælisumsókna og áframflutningi hælisleitenda frá þeim ríkjum Evrópu sem taka á móti flestum hælisumsóknum til ríkja sem ekki sæta sambærilegri ásókn hælisleitenda,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
„Eigum að mæta þeim með hörðum stálhnefa“
Aukinnar hörku hefur gætt í málflutningi íslenskra stjórnmálamanna í umræðum um útlendingamál undanfarnar vikur.
„Við ætlum ekki að láta það átölulaust ef menn ætla að misnota þá velvild sem við viljum sýna og ég held að öll þjóðin vilji sýna stríðshrjáðu fólki, ef menn vilja misnota hana með tilhæfulausum umsóknum um hæli,“ sagði nýr dómsmálaráðherra í viðtali við RÚV á dögunum.
Eins og Stundin greindi frá í gær kallaði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eftir því að hópi hælisleitenda sem hann telur að leiti hingað til lands til að „misnota velferðarkerfið“ yrði sýnd harka. Íslendingar hafi „villst töluvert mikið af leið“ í málefnum útlendinga. Þetta kom fram í viðtali við hann á Útvarpi Sögu á dögunum.
„Þegar kemur að útlendingamálum þá held ég að við höfum villst töluvert mikið af leið. Ég vil orða þetta þannig: Við eigum að opna faðminn mjúkan, gagnvart því fólki sem þarf tímabundið eða jafnvel til langframa að leita sér raunverulegs skjóls. En við eigum að mæta öllum þeim með hörðum stálhnefa sem ætla að koma hingað til Íslands sem, í rauninni ja eigum við að segja, misnota velferðarkerfið okkar,“ sagði Óli Björn.
Eins og tilkynningin á vef innanríkisráðuneytisins sýnir er þessum málflutningi fylgt eftir á alþjóðavettvangi þar sem Ísland beitir sér gegn aukinni samábyrgð Evrópuríkja vegna afgreiðslu hælisumsókna.
Sjá einnig:
Nýr mannréttindaráðherra ritstýrði vefriti sem
hæddist að flóttafólki og mannréttindaumræðu
Athugasemdir