Lögreglan á Akureyri lagði í gær hald á nokkra tugi lítra af natríumklóríð ásamt sítrónusýru og umbúðum til framleiðslu á svokallaðri kraftaverkalausn eða MMS. Nokkrir hafa verið yfirheyrðir í tengslum við málið og er rannsókn langt komin samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Engin hætta var talin stafa af efnunum.
Stundin greindi frá því í gær að húsleit hefði verið gerð í verksmiðju á Akureyri og þar lagt hald á „kraftaverkalausnina“ MMS. Varað hefur verið við því að kraftaverkalausnin geti valdið veikindum eða dauða. Framleiðandinn, Jóhannes Bjarmarsson, fullyrðir hins vegar að lyfið geti læknað allt frá krabbameini til malaríu.
„Þetta var nú engin verksmiðja,“ segir Gunnar Jóhannsson, hjá rannsóknarlögreglunni á Akureyri, í samtali við Stundina. „Á heimasíðunni auglýsa þeir að það sé verksmiðja í þessu ákveðna húsnæði. Okkur barst kæra frá Heilbrigðiseftirliti norðurlands eystra, sem hafði haft af því spurnir að þarna væri verið að reyna að búa til þetta efni, MMS. Við fórum og könnuðum þetta og þarna var aðstaða til að blanda saman þessum efnum. Þetta var allt mjög lítið í sniðum,“ segir hann.
Lögreglan lagði þó ekki einungis hald á klór heldur voru einnig lagt hald á 58 kannabisplöntur og um 100 grömm af kannabisefnum. Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á Akureyri fundust fíkniefnin ekki í verksmiðjunni á Akureyri heldur á sveitabæ í umdæminu. Ljóst er af Facebook síðu Jóhannesar að hann er áhugamaður um kannabis og af myndunum sem hann deilir að dæmi virðist hann trúa á lækningarkraft plöntunnar.
Athugasemdir