Útvarp Saga krefst 7,5 milljóna króna frá útgáfufélagi Stundarinnar vegna birtingar á myndum af útvarpsstjóranum Arnþrúði Karlsdóttur, sem stöðin deildi á Facebook-síðu sinni til kynningar á efni útvarpsstöðvarinnar. Krafan var send af lögfræðingnum Sævari Þór Jónssyni, sem er á þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður fyrir komandi Alþingiskosningar. Sævar hafði áður lýst því yfir að hann hyggðist leita uppi ærumeiðandi ummæli um forsvarsmenn Útvarps Sögu. Eftir að blaðamaður Stundarinnar falaðist eftir viðbrögðum Sævars Þórs var boðist til þess að afturkalla kröfuna gegn því að ekki yrði rætt um Sævar í samhengi við umfjöllun um Útvarp Sögu.
Sævar Þór tilkynnti um yfirvofandi lögfræðilegar aðgerðir vegna umræðunnar um rasisma á Útvarpi Sögu í bloggfærslu á Eyjunni í fyrra. Í færslunni, sem bar fyrirsögnina „Ekkert heilagt“, lýsti hann því að tjáningafrelsinu væru skorður settar og að fólk þyrfti að geta varið ummæli sín fyrir dómi. „Að undanförnu hef ég fyrir hönd stjórnenda útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu fylgst með umræðunni um stöðina og forsvarsmenn hennar og má með sanni segja að sú umræða er komin út fyrir öll velsæmismörk ... Stjórnendur útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu hafa falið mér að sækja þá til ábyrgðar sem harðast hafa gengið fram gegn persónum þeirra með óvægnum og ómálefnalegum hætti.“
Krafan 483 þúsund krónum hærri en verðskrá
Nú þegar tæpir ellefu mánuðir eru liðnir frá því að leit Sævars að fjandmönnum stöðvarinnar hófst er aðeins eitt mál á borði Sævars, og beinist það gegn Stundinni. Hann sækir ekki á grundvelli meiðyrða heldur birtinga á ljósmyndum af opinberri Facebook-síðu Útvarps Sögu, meðal annars ádeilumyndinni af Arnþrúði í búrku. Þann 31. ágúst sendi lögmannsstofan Lögmenn Sundagörðum innheimtuviðvörun á Stundina vegna notkunar á ljósmyndum í eigu útvarpsstöðvarinnar með fréttum á vef Stundarinnar. Sævar fer fram á 500 þúsund krónur fyrir hvert skipti sem mynd er birt af Arnþrúði af Facebook-síðu Útvarps Sögu.
Algengt er að fjölmiðlar birti kynningarmyndir fyrirtækja af Facebook-síðum þeirra. Hvað varðar höfundarrétt segir gjaldskrá Myndstefs að gjald fyrir prentaða ljósmynd sem er 1/8 úr blaðsíðu sé tæplega 17 þúsund krónur, eða 483 þúsund krónum lægra en krafa Sævars fyrir Útvarps Sögu í fimmtán tilfellum.
Athugasemdir