Ýmis merki eru um að innflytjendahatur, rasísk hegðun og áreiti í garð útlendinga hafi náð nýjum hæðum í Bretlandi eftir að brotthvarfssinnar báru sigurorð af Evrópusinnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild Bretlands að Evrópusambandinu.
Kosningabarátta brotthvarfssinna var að miklu leyti knúin áfram af þjóðernishyggju og áróðri gegn innflytjendum. Eftir sigurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni virðast rasistar hafa öðlast aukið sjálfstraust. Á Facebook og Twitter ganga ótal sögur af atvikum þar sem innflytjendur og fólk af erlendu bergi brotið hefur orðið fyrir aðkasti.
Stofnaðar hafa verið síður, bæði á Facebook og Twitter, undir yfirskriftinni Post Ref Racism til að halda utan um sögurnar. „Það að við höfum greitt atkvæði um að ganga úr Evrópusambandinu þýðir EKKI að neinn hafi fengið lýðræðislegt umboð til rasísks áreitis, yfirgangs, kúgunar eða hatursáróðurs,“ segir í yfirlýsingu á Facebook-síðunni. Grófustu atvikin, svo sem eignarspjöll á húsnæði Pólska félags- og menningarsambandsins í London, eru til rannsóknar hjá lögreglu.
Stundin tók saman nokkrar sögur sem vakið hafa athygli. Áður hafa Huffington Post, Guardian, Washington Post og fleiri miðlar fjallað um málið.
Athugasemdir