Fram undan eru tímar þar sem grípa þarf til ýmissa aðgerða til að tryggja öryggi og frið, meðal annars úrræða sem fólk gæti upplifað sem takmörkun á mannréttindum sínum. Þetta er fullyrt í skýrslu Ólafar Nordal innanríkisráðherra um mannréttindamál sem dreift var á Alþingi í gær. Í skýrslunni er hvatt til þess „að einstaklingar sem sýna af sér óæskilega hegðun séu tilkynntir til stjórnvalda svo hægt sé að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða“. Ekki kemur fram hvort þarna sé verið að boða forvirkar rannsóknarheimildir, en haft hefur verið eftir Ólöfu Nordal í fjölmiðlum að rétt sé að skoða möguleikann á heimildum til slíkra rannsóknarúrræða.
„Fram undan eru tímar þar sem ljóst er að grípa verður til ýmissa aðgerða á grundvelli alþjóðasamninga til að tryggja öryggi og frið. Hætt er við að litið verði á ýmsar af þeim aðgerðum sem takmörkun á mannréttindum einstaklinga þrátt fyrir að slíkir samningar séu almennt gerðir með þeim fororðum að virða beri mannréttindi að fullu,“ segir í kafla skýrslunnar sem fjallar um helstu áskoranir sem Íslendingar standa frammi fyrir. „Má hér nefna sem dæmi upplýsingaöflun vegna öryggismála annars vegar og friðhelgi einkalífs og vernd þess hins vegar. Mikilvægt er því að skapa traust um þær aðgerðir sem hugsanlega munu teljast nauðsynlegar.“
Bent er á að umræða um öryggismál sé nátengd mannréttindum. „Í sinni einföldustu mynd má skilgreina öryggi einstaklingsins eða samfélagsins út frá því hvort mannréttindi séu virt bæði af stjórnvöldum og öðrum,“ segir í skýrslunni.
Vaxandi útlendingahatur sérstakt áhyggjuefni
Fram kemur að öfgahyggja og vaxandi útlendingahatur vegna komu hælisleitenda og flóttamanna til Evrópu sé sérstakt áhyggjuefni.
„Barátta gegn öfgahyggju og hatursglæpum er mikilvægur liður í því að tryggja mannréttindi til framtíðar. Stjórnvöld þurfa að móta sér stefnu um forvarnir gegn öfgahyggju. Aukið samstarf félagsþjónustu og lögreglu getur skipt sköpum í baráttunni gegn öfgahyggju. Einnig þarf að byggja upp traust á milli almennings og stjórnvalda þannig að einstaklingar sem sýna af sér óæskilega hegðun séu tilkynntir til stjórnvalda svo hægt sé að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Viðbrögð stjórnvalda þurfa að vera með áherslu á forvarnir og að reynt sé að aðstoða viðkomandi einstaklinga til að taka eðlilegan þátt í samfélaginu. Má í þessu sambandi benda á að dönsk stjórnvöld hafa sett sér stefnu um ,,de-radicalisation“ sem byggir á handleiðslu fyrir einstaklinga sem aðhyllast öfgahyggju. Samstarfið byggir á náinni samvinnu skóla, félagsþjónustu og lögreglu.“
Athugasemdir