Gunnar Waage, trommuleikari og umsjónarmaður vefsins Sandkassinn.com, hefur tilkynnt morðhótun í sinn garð til lögreglu og á pantaðan tíma í skýrslutöku vegna málsins á þriðjudaginn í næstu viku. Þetta segir hann í samtali við Stundina.
Ummælin birtust á Facebook-síðu Arnþrúðar Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu, í gær og hljóða svo: „Senda bara nokkra vaska menn og þagga niður í honum í eitt skipti fyrir öll ;)“
Gunnar hefur ítrekað gagnrýnt Arnþrúði Karlsdóttur og Útvarp Sögu fyrir rasisma og hatursorðræðu gegn minnihlutahópum.
Arnþrúður hefur meðal annars brugðist við þessari gagnrýni með því að hringja í vinnuveitanda Gunnars auk þess sem hún hefur auglýst sérstaklega heimilisfang hans á umræðuhópi Íslensku Þjóðfylkingarinnar. Meint morðhótun kom fram í kjölfar þess.
„Arnþrúður virðist vera fullmeðvituð um þessi ummæli, tjáir sig bæði fyrir og eftir, og virðist láta sér vel líka. Hún fjarlægir ekki ummælin, en þau eru látin falla í kjölfar þess að hún auglýsti sérstaklega adressuna mína á Facebook,“ segir Gunnar Waage í samtali við Stundina.
Arnþrúður birti eftirfarandi færslu í gær:
Einn þeirra sem setur inn athugasemd, Stefán Auðunn Stefánsson, vill að fólk taki sig saman, sæki manninn og afhendi hann lögreglu. P Valgerður Kristjánsdóttir hvetur til þess að fjöldi fólks taki sig saman og krefjist þess að Gunnar Waage verði lokaður inni á stofnun, til dæmis Kleppi. Þá skrifar Aðalheiður Magnúsdóttir, sem titlar sig sem starfsmann Kópavogsbæjar: „Bara senda hann til ISIS. hann verður sá fyrsti sem þeir nota í sprengjufóður“
Gunnar Waage hefur svarað ýmsum af ávirðingum Arnþrúðar á eigin Facebook-síðu:
Kvennablaðið greindi frá því í gær að hlustandi Útvarps sögu hefði hringt inn og hvatt til þess að ríkisstarfsmenn væru skotnir í höfuðið. Pétur Gunnlaugsson, sem stýrir Útvarps Sögu ásamt Arnþrúði, hreyfði ekki mótbárum við málflutningi innhringjandans sem sagðist vilja „setja kúlu í hausinn“ á háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum og láta „salla niður þetta óþarfa lið sem eru hér afætur í þjóðfélaginu“.
Athugasemdir