Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, býr í leiguhúsnæði á vegum bæjarins sem hann leigir jafnframt út til ferðamanna í gegnum söluvefinn Airbnb. Um er að ræða 145 fermetra einbýlishús, auk bílskúrs, en samkvæmt fasteignaskrá er húsið metið rúmar 32 milljónir. Róbert leigir út herbergi í húsinu og hafa gestir aðgang að eldhúsi, baðherbergi og stofu. Hjálmar Hallgrímsson, forseti bæjarstjórnar, staðfesti í samtali við Stundina að hann hefði heyrt af þessu, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Aðspurður hvort íbúðin væri leigð út með leyfi bæjarstjórnarinnar vísaði Hjálmar í fyrra svar, hann gæti ekki tjáð sig um málið að svo stöddu.
Tekur 60 þúsund krónur fyrir vikuna
Stundin náði tali af Róbert í morgun sem staðfetsi að hann væri með herbergi í útleigu. „Ég bý einn og fannst tilvalið að prófa að leigja út herbergi. Ég er búinn að fá tvo gesti. Mér finnst skemmtilegt að hafa gesti þegar ég kem heim úr vinnunni,” segir Róbert. Hann segir að leigan sé fyrir opnum tjöldum. Hann hafi ákveðið að prófa að leigja út herbergi til þess að átta sig á því hvernig þetta gengur fyrir sig og hvernig kerfið virkar. „Þetta er lítið mál og einfalt. Ég hef núna sótt um starfsleyfi til sýslumanns,” segir Róbert. Hann gefur hins vegar ekkert út á það hvort útleigan sé með vitund bæjarstjórnarinnar.
Athugasemdir