Fyrir nokkrum vikum heyrði ég viðtal við mann sem hafði sérhæft sig í að reka spilavíti. Hann þekkti Donald Trump frá Atlantic City – hafði komið að áætlunum fyrir Taj Mahal-spilavítið sem Trump ætlaði að gera áttunda undur veraldar. Eftir að hafa sett sig inn í rekstraráformin sagði hann Trump, og raunar hverjum sem heyra vildi, að eina hugsanlega framtíð þessa risaspilavítis væri að fara beinustu leið á hausinn. Trump brást að sjálfsögðu hinn versti við. Hann heimtaði að fyrirtækið sem ráðgjafinn starfaði fyrir bæðist opinberlega afsökunar á framkomu hans. Það var ekki gert. Þá hótaði hann málaferlum og ætlaði sannarlega að stúta þeim sem eitthvað væru að ybba gogg yfir hans miklu framtíðarsýn. En á endanum rak hann ráðgjafann með skömm.
Trump er enginn snillingur í að reka kasínó sagði ráðgjafinn í viðtalinu. Hann hefði kannski aldrei átt að fara út í þann bisness (Taj Mahal fór á hausinn og var keypt aftur af Trump samsteypunni nokkrum árum síðar. Það er í gjaldþrotaskiptum í dag. Í Atlantic city ku vera athafnamaður sem hefur hug á að gera „Taj Mahal great again“). Ráðgjafinn og fyrirtæki hans elduðu grátt silfur við Trump næstu ár á eftir. Það var óskemmtilegt sagði hann. En hvernig líst þér á að Trump verði forseti – var hann spurður. Ætlarðu að kjósa hann? Hann hikaði aðeins áður en hann svaraði. Já, ég kýs hann. Mér líst vel á að fá hann í Hvíta húsið. Hann kann kannski ekki að reka kasínó, en hann er hörku sölumaður. Hann verður góður í Washington.
Trump, Pútín og fjölpóla heimur
Já, Trump er hörku sölumaður, hvað sem öðru líður. Það eru merkilega margir sem telja einmitt að það sé kostur á honum. Hann er þó að minnsta kosti enginn ídeológ, hef ég heyrt marga segja. Þess vegna er hann óskrifað blað. Getur ekki vel verið að hann velji sér hófstilltari línu þegar til kastanna kemur? Sumir ganga svo langt að benda á að afstaða Trumps í utanríkismálum geti einmitt orðið til að hrista upp í alþjóðakerfi sem sé komið í sjálfheldu. Ríki heimsins – ekki síst stórveldin, þurfi að hugsa tengsl sín upp á nýtt, og Evrópusambandið riði jú til falls, eða því sem næst.
Röksemdina má heyra í útfærðara formi hjá áróðursmiðlum á borð við sjónvarpsstöðina Russia today. Þar heitir það að heimur framtíðarinnar sé „fjölpóla“ frekar en „tvípóla“ eða „einpóla“. En hugmyndin um „fjölpóla heim“ er þó fyrst og fremst hugarburður sem notaður er til að réttlæta framgöngu Rússa á alþjóðlegum vettvangi og ýta undir von þeirra um að einn daginn geti nokkur sterk ríki skipt heiminum upp í áhrifasvæði þar sem hvert fer sínu fram án afskipta hinna. Þessi hugsun komst strax á loft í fyrsta samtali Pútíns og Trumps nokkrum dögum eftir kosningarnar þar sem Pútín og verðandi Bandaríkjaforseti hétu hvor öðrum að samskipti ríkjanna yrðu framvegis byggð á gagnkvæmri virðingu, en það þýðir svo mikið sem að hvorugur aðili „blandi sér í innanríkismálefni“ hins.
Það er erfitt að gera of mikið úr þýðingu þessara orðaskipta. Í yfir sjötíu ár, alla tíð frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, hafa Bandaríkjamenn og önnur svonefnd lýðræðisríki Vesturlanda hafnað hugmyndinni um áhrifasvæði. Vesturlönd hafa alltaf áskilið sér rétt til að verja málstað mannréttinda, lýðræðis og frelsis, og hvað sem manni kann að finnast um afskipti þeirra hverju sinni, hræsnina og sérhagsmunina sem iðulega búa að baki, þá er algjör grundvallarmunur á því að segjast vera málsvari slíkra grundvallargilda eða lifa í heimi þöguls eða opinbers samkomulags um sjálfdæmi hinna sterku innan sinna áhrifasvæða.
Vald kerfisins og áhrif öfgahægrisins
En það er of snemmt að gefa sér að Trump muni þegar á hólminn er komið gera grundvallarbreytingar á alþjóðakerfinu. Þótt Pútín virðist sterkur stendur Rússland á brauðfótum, tekjumissir og vanhugsaðar ákvarðanir um flesta hluti, allt frá skipulagningu vetrarólympíuleika í Sotsjí til innlimunar Krímskaga, auk kostnaðarsamra hernaðaraðgerða í Sýrlandi hafa ekki aukið svigrúm stjórnvalda til að byggja upp iðnað og atvinnutækifæri heima fyrir. Ríkin sem Rússar vilja tengjast, ekki síst Kína, þurfa öll að treysta á að ekki verði stórkostlegar breytingar í alþjóðamálum á næstunni. Öll eru þau í einhverjum skilningi háð Bandaríkjunum.
Nei Trump er sölumaður – ekki ídeológ. Það þýðir að hann þarf að gera tvennt. Hann þarf að selja sjálfan sig kerfinu í Washington, því án þess getur hann varla þrifist til lengdar, og það þarf hann að gera með því að selja þau málefni sem Repúblikanar leggja höfuðáherslu á næstu tvö árin. En til þess að þetta virki þarf hann þar að auki að selja sig sem sem árangursríkan forseta. Þess vegna skiptir svo miklu máli fyrir hann að halda andkerfisyfirbragði kosningabaráttunnar um leið og hann er handbendi andstyggilegustu aflanna í iðrum bandarísks afturhalds. Þetta kom fram í fyrstu ráðningum hans í starfslið sitt. Í stöðu starfsmannastjóra Hvíta hússins var settur maður sem er innsti koppur í búri kerfisins – formaður landsnefndar Repúblikana Reince Priebus. Steve Bannon, hægriöfgamaður sem síðustu ár hefur aðallega getið sér orð fyrir að stýra fréttavefnum Breitbart news, var gerður að nánasta stefnuráðgjafa forsetans – en það er hlutverk sem fólk að borð við Karl Rove ráðgjafa George W. Bush hafa haft áður. Priebus er í hinni eiginlegu valdastöðu, Bannon getur hins vegar haft lykiláhrif á þann pólitíska prófíl sem forsetinn velur sér. Og hann verður ófagur ef að líkum lætur. En hann þarf ekki að vera fagur eða fágaður ef hann þjónar sínu hlutverki: Að fjarlægja forsetann kerfinu. Þá getur Trump haldið áfram að selja sig sem andstæðing kerfisins jafnvel þegar hann er orðinn partur af því. Þegar fram líða stundir gæti það reynst mikilvægur hluti af ímynd hans.
Framtíð hatursorðræðu
Trump seldi sig í kosningabaráttunni með orðræðu sem var í senn hatursfull, heimskuleg og fölsk. Hann gaf loforð sem hann mun aldrei geta staðið við, staðhæfði alls konar vitleysu og kynti undir rasisma, útlendingahatur og fordómum. Það kann að vera að þegar kemur að stefnumótun og lagasetningu muni hann að einhverju leyti falla í far hefðbundins Repúblikana – í rauninni verða farvegur lagasetningar sem ekkert hefur komið í veg fyrir síðustu ár annað en Barack Obama. En hann mun þurfa á hatursorðræðunni að halda.
Af þessum ástæðum er algjör barnaskapur að halda að stefnumálin ein, einstök málefni sem ákveðin eru svona eða hinsegin, íhaldssamar (en hefðbundnar) ráðningar hæstaréttardómara og fleira af því tagi sé aðalatriðið þegar við reynum að átta okkur á því hvað fram undan er í bandarískri pólitík og alþjóðapólitík. Mælskulistin skiptir jafnmiklu máli – kannski meira. Viðhorf sem kynt verður undir, viðbrögð við erfiðum eða óvæntum atvikum, skilaboðin sem frá forsetanum berast til yfirmanna í hernum, embættismanna alríkisstjórnarinnar og einstakra ríkja, til almennings, ólíkra hópa og hagsmunaafla.
Við eigum eftir að sjá nákvæmlega þau viðhorf sem fólk hryllti við þegar Trump var í framboði festa sig í sessi eins og þau væru heilbrigð skynsemi. Við eigum eftir að sjá jaðarinn færast inn á miðjuna og miðjuna út á jaðarinn. Við eigum eftir að sjá samfélagsþróun sem kannski mun að einhverju leyti svipa til þeirrar þróunar sem hefur orðið í Rússlandi á síðustu fjórum árum. Tómlæti um sjálfstæði stofnana, þar á meðal fjölmiðla. Áhugaleysi um niðurstöður vísinda og sterka tilhneigingu til að saka vísindamenn um hlutdrægni haldi þeir fram viðhorfum sem henta ekki valdhöfum. Að ógleymdri andúðinni á minnihlutahópum öðrum en hinum reiða, miðaldra, hvíta karlmanni.
Í kosningunum kom fram sami munur og við sáum birtast og styrkjast í kringum Brexit – það má aftur nefna Rússland: Vinsældir Pútíns eiga sér lýðfræðilegar skýringar. Langstærstur hluti þjóðarinnar þjáist af sama óttanum og einkennir þá sem eru minna menntaðir, búa við lakari kjör og þurfa að horfast í augu við algjört óöryggi frá degi til dags í Bretlandi og Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum. Þessum hópum þarf að halda í spennu og ótta við allt frá íslömskum terrorisma til fóstureyðinga. Til þess þarf harðan sölumann.
Sýnd og sannleikur
Pólitík er að stórum hluta sýndarmennska. Stjórnmálamaður þarf fyrst og fremst að láta fólk trúa því sem hann vill að það trúi. Besta leiðin til þess er ekki endilega að gera það sem maður hefur lofað að gera, hún getur einmitt verið sú að gera eitthvað allt annað eða ekki neitt, en halda dampi áróðursins, búa til óvini og deila út smjörklípum svo andstæðingarnir séu uppteknir. Þess vegna getur góður sölumaður náð stórkostlegum árangri í pólitík, ekki síst ef hann getur sáð fræjum tortryggni gagnvart þeim sem gagnrýna hann eða benda á staðreyndir.
Það sem einkennir áróðursstarf fréttaveitna á borð við Russia today og Breitbart news – og sama má reyndar segja um flesta rússneska fjölmiðla, einkum sjónvarpsstöðvarnar, er skeytingarleysi um staðreyndir. Það er ekki þar með sagt að menn þykist ekki stöðugt vera að fara með staðreyndir. Vandinn er sá að það er ákveðið fyrir fram hverjar staðreyndirnar eru og fréttaflutningi svo hagað þannig að sýnt sé fram á einmitt þessar staðreyndir.
Hvað sem segja má um vestræna spillingu og hræsni, þá eru tengsl fjölmiðlunar við staðreyndir og við sannleikann ennþá mikilvægasta einkenni fréttaflutnings hefðbundinna fréttamiðla. Mikilvægasta einkenni lýðræðislegra stjórnmála er ábyrgðin gagnvart kröfunni um að hafa það sem sannara reynist. Innreið Trumps í Hvíta húsið gefur þeim öflum sem vilja þetta kerfi feigt frítt spil. Sölumaður dauðans getur selt hvað sem er.
Athugasemdir