Nýjasta línan sem er verið að leggja í íslenskum stjórnmálum er að stjórnmálamenn skiptist nú í kjarkaða verndara almennings og svo þá sem voru of hræddir til að standa í hárinu á kröfuhöfum, ESB, bönkunum og fleirum.
Kjarkurinn - höfuðeinkenni hetjunnar
Hver framsóknarmaðurinn á fætur öðrum stígur fram og notar mælikvarðann „kjark“ til að meta ágæti stjórnmálafólks. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hélt eldræðu yfir stjórnarandstæðingum um kjarkleysi þeirra. Önnur eins ræða hefur varla heyrst síðan Mel Gibson túlkaði skoskan skæruliða frá miðöldum í kvikmyndinni Braveheart (Kjarkhjarta). Í ræðunni þrumaði Gunnar Bragi: „Hver var það sem þorði að standa uppi í hárinu á kröfuhöfunum?... Hver var það sem þorði að taka Icesave? Hver var það sem þorði að lækka lán heimilanna? Hvar er kjarkurinn? Hvar er kjarkurinn?“
Vigdís Hauksdóttir hélt áfram að undirbyggja nýju goðsögnina um hinn kjarkmikla flokk og leiðtoga í Íslandi í bítinu í gærmorgun, þegar hún svaraði efasemdaröddum um að lækkun húsnæðisskulda héldi sér til lengdar í verðbólgunni: „Þetta er týpískur málflutningur jafnaðarmanna sem höfðu ekki kjark til að gera þetta á sínum tíma og tóku kröfuhafa og fjármagnseigendur framyfir heimilin í landinu … Sigmundur Davíð var einbeittur alla tíð ... Líklega er nú Sigmundur Davíð verðmætasti stjórnmálamaður landsins frá lýðveldisstofnun.“
Hetjur okkar tíma
Hetjuvæðing hefur verið ein algengasta markaðsstefna stjórnmálanna í mannkynssögunni. Fyrir utan þær hetjur sem tóku hreinlega land sitt og þjóð með valdi eru þeir sem hafa selt sig út á að vera hetjur, barist í stríðum og þorað að bjóða ýmsum byrginn.
Ein mesta hetja stjórnmálanna í dag, fyrir utan fjallgöngugarpinn og elitísku alþýðuhetjuna Kim Jong Un, er Vladimir Putin. Íslensk stjórnmál hafa verið tiltölulega laus við hetjuvæðingu, líklega vegna þess að hernaðarsagan er lítil sem engin. Sjálfstæðishetjan okkar, Jón Sigurðsson, var einna helst þekktur fyrir að standa upp og segjast mótmæla, eins og grínímynd af breskum sjentílmanni. Það er helst í orðum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors um klíkufélaga sinn Davíð Oddsson að gætt hafi hetjudýrkunar á síðari tímum.
En svo kom hrunið og um leið skapaðist markaðurinn til að selja hetjur endurreisnarinnar í baráttu við erlenda óvildarmenn.
Eins og í öllum góðum goðsögum var dreki, gull og hetja. Í Völsungasögu hinni síðari var drekinn erlendir kröfuhafar, erlendar skammstafanir, erlendur matur, Evrópusambandið og annað erlent, gullið var krónueignirnar og hetjan var ekki Sigurður Fáfnisbani Sigmundsson heldur Sigmundur Davíð.
Afrek Sigmundar
Vinstri stjórnin var á köflum meðvirk bönkunum og kröfuhöfum. Það mátti til dæmis sjá á viðbrögðum við gengislánadómnum og svo til dæmis í tilraunum Gylfa Magnússonar, fyrrverandi viðskiptaráðherra, til að selja fólki að það væri ekkert mál að borga Icesave þegar mið væri tekið af þjóðartekjum Íslendinga - fiskinum og álinu sem við seldum. Vinstri stjórnin hafði áhyggjur af öðru bankahruni, og kannski réttilega svo. Um leið sköpuðust aðstæður til að selja stjórnmálastefnu sem gengi út á að endurheimta gullið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var einn þeirra sem talaði fyrir málstað Indefence, um að þjóðin ætti að fá að kjósa um Icesave-samningana. Hann talaði auðvitað fyrir ýmsu öðru sem hann síðan stóð ekki við, gerði sér upp lýðræðishugsjónir sem hann vék síðan frá, og svo framvegis. Því hver þarf lýðræði þegar það er hetja við stjórnvölinn?
Við lifum samt við það í dag að bankarnir skila óeðlilega miklum hagnaði miðað við höfðatölu, meðal annars út á óeðlilega mikinn vaxtamun. Verðtryggingin er hvergi farin, en skattur á stóriðju hverfur, matarskatturinn var hækkaður, auðlegðarskattur fjarlægður og úthlutun auðlinda til fámenns hóps í fullum gangi. Hvar er kjarkurinn?
Þótt þingmenn Framsóknarflokksins séu núna að skrifa goðsöguna með þeim hætti að enginn annar flokkur hefði viljað aflétta gjaldeyrishöftunum eins og gert var, nema þeir, er alveg ljóst að aðrir flokkar stefndu á það sama.
Vinstri stjórnin réði upphaflega Lee Buchheit, þann einstakling sem virðist hafa skipt mestu máli í viðræðunum við kröfuhafa (sem áttu sér ekki stað samkvæmt Sigmundi hrægammabana).
Það var algeng umkvörtun meðal andstæðinga Jóhönnu Sigurðardóttur að hún væri ekki nógu mikill leiðtogi og næði ekki að blása þjóðinni kjark í brjóst. Hluti af goðsögninni nú er að hún hafi ekki haft kjark til að fara í drekann. En Jóhanna, ásamt Steingrími J. Sigfússyni, þorði að standa gegn útgerðarvaldinu með veiðigjöldin. Þau þorðu að leggja á auðlegðarskattinn. Þau þorðu að standa vörð um velferðarmálin í stað þess að ráðast í verulegan niðurskurð á því sem snertir grunnatriði í lífi fólks. Þau þorðu að láta lögsóknina gegn Geir Haarde ganga fram, þótt það væri erfitt fyrir stjórnmálamenn. Jóhanna þorði líka að standa vörð um gerð nýrrar stjórnarskrár og sniðganga þar sérhagsmuni og meint valdsvið þingmanna.
Á endanum er spurningin: Hver er kjarkurinn? Það er að segja, beinist hann í rétta átt?
Hetjur sem leiðtogar í lýðræði
Þjóðernispopúlískir valdaflokkar gera gjarnan út á goðsagnir um hetjudáðir í þágu þjóðar. Í elstu sögnunum vinnur hin kjarkmikla hetja afrek til bjargar þjóð sinni og hlýtur ýmist kvonfang eða auðæfi fyrir.
Hetjur elska völd. Þær beita valdi, helst ofbeldi til góðs. Þær hafa sterkan vilja og fátt heldur aftur af þeim, annað en þeirra eigin rökfesta og siðgæði. Gagnrýni á hetju er árás, enda er hún óviðurkvæmileg. Henni geta þær réttilega svarað með offorsi.
Í raunveruleikanum eru sjálfskipaðar hetjur hættulega oft með hálfgert Messíasarheilkenni eða mikilmennskubrjálæði - trúa því að þeir séu upphaf og endir alls. Hetjur eru varasamir leiðtogar í lýðræðisríkjum.
Það er ástæða til að varast þegar stjórnmálamenn eða -flokkar fara að gera út á eigin kjark eða hetjuskap. Því hver verður næsta hetjudáð? Til dæmis að fá stjórnmálamann aftur yfir Landsvirkjun og láta virkja fyrir nýrri stóriðju til að bjarga heilbrigðiskerfinu? Valddreifing og góð stjórnsýsla eru ekki beint andi hetjunnar í stjórnmálum, heldur þvert á móti að ná sínu í gegn andstætt viðspyrnu allra hinna sem hafa rangt fyrir sér.
Hetjuskapur og feðraveldið
Hugmyndin um kjarkmiklu hetjuna sprettur úr gamla feðraveldinu. Þegar hetjur eru ekki að drepa dreka fyrir gull eru þær að drepa dreka fyrir prinsessur.
Það sem fékk Gunnar Braga til að vanstillast, þannig að það dimmdi yfir rödd hans og hann þrumaði yfir þingheim, var einmitt að kona úr þingmannaliðinu vændi Sigmund hrægammabana og riddara hans um kjarkleysi þegar lög voru sett á verkfall BHM og hjúkrunarfræðinga. Ekkert er verra fyrir gamaldags hetju en að vera sökuð um skort á kjarki - nema ef vera skyldi að vera sakaður um það af konu.
Við skulum gefa Sigmundi og félögum það sem þau eiga, að hafa tekið afstöðu gegn kröfunni um að almenningur borgaði skuldir einkabanka, á tímum sem ríkjandi ríkisstjórn reyndi að lægja öldurnar og skapa frið (til að reyna að tryggja lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum). Þau mega líka eiga að hafa staðið með auknu lýðræði, þótt þau hafi síðar snúist gegn því. Auk þess stefnir í góða áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta, þótt framtíðarsýnina skorti.
En dagurinn sem þau trúa því að Sigmundur sé hetja og bjargvættur þjóðarinnar, eins og þau eru farin að lýsa honum, er dagurinn til að óttast.
Athugasemdir